Skemmtilegir september fundir
Margt bar fyrir augu og eyru félagsmanna á september fundum klúbbsins
Fundurinn 6. september var í umsjón ungmennanefndar en formaður hennar er Gunnsteinn Sigurðsson.
Anna Sigríður Einarsdóttir flutti 3 mínútna erindi. Hún sagði frá ferð þeirra hjóna til Norður Kóreu árið 1988 með viðkomu í Moskvu. Urðu þau fyrir mjög svo óþægilegri upplifun þegar kakkalakkar hreinlega yfirtóku hótelherbergi þeirra.
Fyrirlesari dagsins var Jón Finnbogason, formaður Gerplu og sagði hann frá félaginu og starfsemi þess. Félagið var upphaflega stofnað af hópi kvenna sem ekki hefðu fengið aðstöðu í íþróttasölum Kópavogs árið 1971. Gerpla hefur unnið alla bikara sem hugsast getur í gegnum árin.
Fundurinn 13. september var í umsjón kynningar- og ritnefndar en formaður hennar er Margrét Kr. Gunnarsdóttir. Hún kynnti heimasíðu klúbbsins og fór yfir hvern þátt síðunnar og hvatti til umræðu um hana. Sigurrós Þorgrímsdóttir sagði frá úrslitum golfmótsins en þar höfðu Borgir unnið tvo bikara. Gunnar Stefánsson flutti 3ja mínútna erindi þar sem hann sagði frá ferð þeirra hjóna í sumar til Kenya. Komu fram lýsingar á ástandi kennslu víða í landinu. Hjónin eiga SOS barn í Bólivíu og heimsóttu slíkt barnaþorp í Nairobi til að kynna sér hvernig búið sé að þeim. Þorpið var til fyrirmyndar og börnin þar alin upp til 23 ára aldurs, og útskrifuð með háskólagráðu.
Fundurinn 20. september var í umsjón Rótarýsjóðs og fræðslunefndar þar sem formaður er Karl Skírnisson. Ásthildur Bernharðsdóttir flutti þriggja mínútna erindi sem fjallaði um gallabuxnainngöngu hennar í Rótarýklúbbinn Borgir. Kom fram í erindinu að eftir á að hyggja hefði hún kosið annan klæðaburð við það tilefni.
Margrét Friðriksdóttir kynnti fyrirlesara dagsins Sigrúnu Pálsdóttur frá Rótarýklúbbi Akraness. Nefndist erindi hennar „Fyrsta Rótarýkonan á Íslandi“, en Sigrún var sú fyrsta, er hún gekk í Rótarýklúbb Akranes fyrir rúmum 20 árum síðan. Kom það þannig til að vinnufélagi hennar á Grundartanga, sem var forseti í klúbbnum á þeim tíma bauð henni inngöngu. Sagði hún að sér hefði verið vel tekið af körlunum frá fyrsta fundi.
Fundurinn 27. september var í umsjón menningarmálanefndar en formaður hennar er Stefán Baldursson. Fyrirlesari dagsins var Þórarinn Eldjárn rithöfundur. Erindið fjallaði um væntanlegar bækur hans á markaðinn í haust, bæði nýtt og þýtt. Fyrst fjallaði hann um skáldsögu sem hann hefur unnið að í nokkur ár - Hér liggur skáld, þá tvær ljóðabækur eða ljóðskreyttar sögur fyrir börn - sögur sem Edda Heiðrún Bachmann hefur búið til og vatnslitað og Þórarinn ljóðskreytti. Þá er von á nýrri þýðingu hans á Machbeth og einnig Vínlandsdagbók föður hans en hann fór til Nýfundnalands fyrir 50 árum og skrifaði hann þá dagbók. Bókin verður nú gefin út í fyrsta sinn. Að lokum las hann sýnishorn af þekktum stað í leikritinu Machbeth og bar þýðingu sína á þeim stað saman við aðrar þýðingar sem áður hafa komið út á íslensku.
Þriggja mínútna erindi flutti Haukur Ingibergsson. Hann sagði frá ferð sinni frá árinu 1998 til Kúbu. Það var á erfiðum tímum fyrir Kastró þegar peningastreymi frá austur Evrópu stöðvaðist.