Fréttir
  • kalli

17.11.2011

Atvinnuhorfur og atgervisflótti

Miklar breytingar áttu sér stað á íslenskum vinnumarkaði við efnahagshrunið 2008.

 

Fundur haldinn þann 3. nóvember var í umsjón framkvæmdanefndar. Forval fór fram í stjórn 2012- 2013. Aðal erindi dagsins var frá Karli Sigurðssyni, sviðstjóra upplýsingatækni- og rannsóknasviðs Vinnumálastofnunar kynnti rannsókn um atvinnuhorfur og atgerfisflótta.Hann fjallaði um þróun atvinnuleysis á Íslandi á síðast liðin 20 ár og setti fram fjölmargar tölfræðilegar niðurstöður. 

Mikil aukning varð á atvinnuleysi eftir hrunið 2008 og mesta aukningin varð á höfuðborgarsvæðinu.  Íslenskur vinnumarkaður er sveiflukenndur og er atvinnuleysi breytilegt eftir árstímum.  Atvinnuleysi hefur yfirleitt mælst meira meðal kvenna en við hrunið varð stöðnun í mannvirkjagerð og jókst atvinnuleysi karla þá mun meira en kvenna.  Eftirsveiflan er hinsvegar að koma harðar niður á konum og er samdráttur nú í heilbrigðis og menntakerfi með tilheyrandi afleiðingum fyrir konur sem eru fjölmennar í þessum atvinnugeirum.    

Atvinnuleysi er mest meðal unga fólksins en langtímaatvinnuleysi hlutfallslega mest meðal þeirra sem eru komnir yfir 50 árin.   Ýmis  Úrræði fólks sem býr við langtímaatvinnuleysi er m.a. að sækja sér viðbótarmenntun, leita eftir bótum eða flytjast úr landi. Ungu fólki býðst stuðningur til að auka menntun sína og/eða sækja sér starfsþjálfun tímabundið. Erindi Karls var mjög efnismikið og ekki er rúm til að gera því öllu skil hér. Hann svaraði spurningum félaga að loknu erindinu og ljóst var að hægt væri að halda framhaldserindi um sama efni þar sem farið er nánar ofan í þessi gögn.

Haraldur Friðriksson sagði frá minnisverðri máltíð og sagði frá matarræði sem hann bjó við í sveitadvöl á Hornströndum á 6. áratug síðustu aldar. Þar var siginn fiskur uppistaðan í fæðu fólks alla daga nema að borðað var selkjöt á meðan selavertíðin stóð yfir.