Fréttir

11.2.2015

Háski í Færeyjum og Jakobsvegurinn

Gunnar Stefánsson flutti þriggja mínútna erindi á fundi 5. febrúar og sagði í máli og myndum frá háska í Færeyjum fyrir nokkrum árum er lítill farþegabátur kastaðist utan í kletta í höfninni á Mykinesi. Stór fylla kom inn í Gjánna þegar farþegar voru að fara um borð. Skipstjóri setti allt á fullt og tókst að komast frá landi, en ekki mátti miklu muna.
 

Fyrirlesari dagsins var Jón Björnsson, sálfræðingur, rithöfundur og ferðalangur. Hann fjallaði um Jakobsveginn til borgarinnar Santiago de Compostela á Spáni, sem tugir ef ekki hundruð Íslendinga ganga árlega. Þetta er ein þekktasta pílagrímaleið í Evrópu á eftir gönguleiðum til Rómar og Jerúsalem.  Jón lýsti leiðinni í stórum dráttum og tengdi við kirkjulist og hugmyndafræði kaþólskrar trúar og hvaða valkostir væru í stöðunni á efsta degi. Tilgangur göngunnar var fyrst og fremst að ljá bænunum kraft og einnig til að skrifta í borg heilags Jakobs, en í  Santiago de Compostela var talið að líkamsleifar hans væri að finna.