Fréttir

13.4.2015

Gagnsæi og gamall brunnur

Forseti setti fund 9. apríl og síðan flutti Kristján Guðmundsson þriggja mínútna erindi og greindi frá þeirri hugmynd að klúbburinn tæki vatnsbrunn við Kópavogsbraut 10 í fóstur.   Hann rifjaði upp að vatnsveita kom ekki í Kópavog fyrr en 1952 og fram að því reiddu margir sig á brunna. Kristján sagðist telja að ekki væri mikill tími til stefnu að hefjast handa  því umræddur brunnur gæti fyrr en varði lent undir hringtorgi.


Fundurinn var í umsjá Alþjóða- og laganefndar og kynnti Ásthildur Bernharðsdóttir ræðumann dagsins, Jón Ólafsson, prófessor við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Hann sagði frá nýstofnuðum samtökum, sem nefnast Gagnsæi, en um er að ræða félagasamtök fólks sem vill berjast gegn spillingu í öllum grunnstoðum samfélagsins. Jón ræddi hvernig greina mætti opinbera spillingu og nefndi nokkur dæmi úr samtímanum til umhugsunar. Hann sagði að gera þyrfti miklar og staðfastar kröfur um gagnsæi til stjórnenda, starfsfólks hins opinberra og kjörinna fulltrúa.