Fréttir

2.1.2013

Stjórnarskiptafundur júní 2012

Fundurinn 30. júní var stjórnarskiptafundur og haldinn í fundarsal Bláa lónsins
Birna Bjarnadóttir forseti setti fund og bauð velkomna gesti, sem voru makar klúbbfélaga og auk þess var Guðmundur Björnsson, Rótarýklúbbi Keflavíkur gestur fundarins.

Guðmundur Björnsson hélt erindi um Löggjafarþing Rótarý en hann er þar fulltrúi umdæmisins á Íslandi. Hann byrjaði á að gera stuttlega grein fyrir starfsemi HS orku þar sem hann starfar og lýsti því m.a. yfir að Bláa lónið væri umhverfisslys miðað við núgildandi reglur (!). Unnið er að fleiri lausnum til að ráðstafa affallsvatni /-sjó frá orkuveitunni sem inniheldur mikið af steinefnum og það takmarkar notkunarmöguleikana. Síðan greindi Guðmundur frá reynslu sinni af þátttöku í löggjafarþinginu sem er afar fjölmenn samkoma eða um 500 manns og kemur saman 3ja hvert ár. Þingið fjallar um tillögur að lagabreytingum og ályktunum sem berast ýmist frá umdæmunum eða stjórn RI. Mikill fjöldi erinda er tekinn fyrir en minnihluti þeirra er samþykktur. Á síðasta þingi var fjallað um umdæmamörk og lágmarksfjölda klúbba/félaga í hverju umdæmi. Þetta varðar íslenska umdæmið sérstaklega þar sem lágmarksfjöldi var ákveðinn annað hvort 33 klúbbar eða 1200 félagar frá 1. júlí 2012. Ísland fékk sérstakan frest til að uppfylla þessi skilyrði en nú þegar er félagafjöldinn kominn yfir 1200 manns. Á næsta þingi, 2013 verður lögð fram tillaga frá íslenska umdæminu um lækkun gjalda fyrir félaga sem eru 35 ára og yngri og er tilgangurinn að stuðla að fjölgun yngri félaga. Auk þess geti félagar eldri en 70 ára sótt um samsvarandi lækkun. Guðmundur taldi fremur ólíklegt að tillagan nái fram að ganga en umræða um hana getur samt haft áhrif. Hann lýsti ánægju með reynslu sína af þátttöku í löggjafarþinginu, sem opnaði augu manna fyrir því hversu flókið er að stýra alþjóðlegum samtökum á borð við Rótarýhreyfinguna þar sem viðhorf og vandamál eru ákaflega mismunandi milli landa og heimshluta.

Formleg stjórnarskipti fóru fram. Birna, fráfarandi forseti afhenti Inga Kr. Stefánssyni forsetakeðjuna og merkið og óskaði nýrri stjórn heilla í starfi. Ingi ávarpaði síðan fundinn. Nýju stjórnina skipa:

Ingi Kr. Stefánsson, forseti

Málfríður Kristensen, verðandi forseti

Bjarki Sveinbjörnsson, ritari

Arnþór Þórðarson, gjaldkeri

Guðrún S. Ólafsdóttir, stallari.

Borðhald fór fram að loknum fundi í veitingahúsi Bláa lónsins.