Fréttir

31.3.2011

Ofvirkni og lyfjanotkun

Mikil aukning í notkun ofvirknilyfja á Íslandi

CIMG1223

Fundur í Rótarýklúbbnum Borgum var haldinn í dag 31. mars og hófst að venju 7,45 og lauk upp úr dagmálum.  Dagskrá fundarins var í umsjón dagskrár og þjóðmálanefndar.  Kristján Guðjónsson kynnti fyrirlesara dagsins sem var Guðrún I. Gylfadóttir lyfjafræðingur, deildarstjóri lyfjadeildar Sjúkratrygginga Íslands.  Guðrún sagði frá þróun í notkun ofvirknilyfja á Íslandi og bar saman við neysluna á Norðurlöndunum.

Ísland sker sig úr hvað varðar notkun lyfjanna sem er miklu meiri en á hinum Norðurlöndunum.  Notkun lyfjanna hefur mjög aukist á Íslandi og frá árinu 2006 hafa fjárhæðirnar sem um ræðir aukist um mörg hundruð milljónir. 

Aðgerðir sem heilbrigðisyfirvöld hafa gripið til í þeim tilgangi að stemma stigu við notkun þessara lyfja eru m.a.: 

Breyttar reglur Sjúkratrygginga Íslands um útgáfu lyfjaskírteina til að koma í veg fyrir að einstaklingur geti fengið ávísað þessum lyfjum frá mörgum læknum.  Umsjón með frumgreiningu á ADHD hjá fullorðnum og eftirlit með meðferð verður bundin við geðsvið Landspítala.  Aukið eftirlit landlæknis með ávísunum lækna á lyfjum sem þessum.