Stjórnarskipti og Paul Harris félagi
Í síðustu viku urðu stjórnarskipti í Rótarýklúbbnum Borgum og útnefndur var Paul Harris félagi
Fundur í kúbbnum þann 30. júní var með óhefðbundnu sniði enda um stjórnarskiptafund að ræða. Fundurinn var haldinn í Viðey og tóku fjölmargir makar þátt í athöfninni. Rúmlega 80 manns lögðu af stað frá Sundahöfn klukkan 18.00 í mikilli blíðu. Stallari Guðbjörg Linda Udengård bauð fólk velkomið og Eiríkur Ingi Friðgeirsson klúbbfélagi bauð fólki til veislu en hann rekur veitingastaðinn í eyjunni.
Síðan hófst formleg dagskrá sem þó var mjög frjálsleg. Voru klúbbfélagar kallaðir til ýmissa verka s.s. í „skála“vörslu og "laga"vörslu en þau hlutverk féllu þeim Snorra Konráðssyni og Garðari Cortes í skaut og sinntu þeir hlutverkum sínum af stakri snilld.
Félagar í gleði- og skemmtinefnd, Lára Ingibjörg Ólafsdóttir og Ingi Kr. Stefánsson héldu smellin stutt erindi. Aðal erindi kvöldsins var í höndum fráfarandi umdæmisstjóra Margrétar Friðriksdóttur. Erindi hennar var mjög yfirgripsmikið en hún gerði grein fyrir ferð sinni um landið í klúbbheimsóknir og tengdi hvern stað gjarnan með vísu eftir heimamenn. Varð af hinn mesti fróðleikur og skemmtun. Margrét var útnefnd Paul Harris félagi fyrir störf sín í þágu klúbbsins.
Kristján Guðmundsson forseti fór yfir störf klúbbsins síðastliðið starfsár. Stjórnarskipti fóru fram með hefðbundnum hætti og afhenti Kristján Guðmundsson nýjum forseta Birnu Bjarnadóttur hálskeðjuna sem fylgir forsetaembættinu.
Klúbbfélagar yfirgáfu eyjuna þegar klukkan var rúmlega tíu, sælir í sinni og mettir í maga.