Fréttir

Jólaskógur

Jólaskógur í Garðabæ - 13.12.2017

Jólaskógur verður í Smalaholti laugardaginn 16. desember kl. 12-16 í boði Skógræktarfélags Garðabæjar og Rótarýklúbbsins Görðum.  Fjölskyldan velur sér tré í skóginum og fellir sjálf með aðstoð. Lesa meira

Stjórnarskipti - 3.7.2017

43. og síðasti fundur starfsársins var stjórnarskiptafundur. Stjórn Halldóru Gyðu Matthíasdóttur lét af störfum og ný stjórn Jóns Benediktssonar tók við. Jónas Hallgrímsson flutti þriggja mínútna erindi um rauðu þræðina í lífi sínu, konuna, læknisfræðina og rótary-hreyfinguna sem studdi hann til framhaldsnáms og hann hefur fylgt síðan hann flutti heim. Fráfarandi forseti rakti starfið á liðnum vetri og þakkaði  samstarfsmönnum í stjórn ánægjulegt og farsælt samstarf. Nýkjörinn forseti  færði forvera sínum þakkir fyrir vel unnið starf, boðaði fyrsta fund nýja starfsársins 14. ágúst og óskaði klúbbfélögum velfarnaðar á byrjuðu sumri.

Golf á Ísandi - 27.6.2017

Á fundi 26. júní afhenti forseti styrki af fé sem gekk af við fjármögnun umdæmisþingsins sem klúbburinn hélt  í október 2014 til Hjálparsveita skáta í Garðabæ og Skátafélagsins Vífils í Garðabæ. 

Jónas Fr. Jónsson flutti þriggja mínútna erindi um ferð til  Marrakesh í Marokkó sem hann og fjölskyldan fóru í síðustu áramót.

Aðalerindi fundarins flutti Haukur Örn Birgisson, hrl. og forseti Golfsambands Íslands. Hann rakti í upphafi sögu golfs á Íslandi. Golfsambandið var stofnað 1942 og var fyrsta sérsambandið innan ÍSÍ. Rakti hann uppgang golfs á Íslandi síðustu 15 árin með fjölgun félagsmanna í golfklúbbum úr 8 þúsund í 17 þús. Iðkendur, sem spiluðu a.m.k . 5 sinnum á ári, væru 35 þús., sem væri heimsmet m.v. höfðatölu. Sama gilti um fjölda golfvalla, sem væru 65 á landinu. Golfið sækti hér á, ólíkt því sem væri annars staðar, trúlega vegna þess að hér hefði golfið orðið almenningsíþrótt. Haukur fjallaði um golf sem fjölskylduíþrótt, þýðingu forgjafarkerfisins og hvernig það hefði í för með sér að níræðar langömmur gætu att kappi við barnabarnabörnin í golfi.

Þá benti Haukur Örn á hátt hlutfall kvenna meðal golfiðkenda og hækkun þess úr 15% fyrir 15 árum í 30% nú sem væri hátt í alþjóðasamanburði. Einnig fjallaði hann um endurkomu golfsins sem Ólympíuíþróttar á Ríóleikjunum og gildi þess fyrir íslenskt golf að eignast afreksmenn (þ.e. konur) sem eru gjaldgengir á alþjóðlegum stórmótum og koma íþróttinni á forsíður fjölmiðla.

Garðasteinninn afhentur og heimsókn frá Kvenréttindafélagi Íslands - 21.6.2017

Á  fundi 19.júní flutti Jónas Aðalsteinsson þriggja mínútna erindi og talaði um hættur í samningagerð á netinu. Jónas brýndi fyrir fólki að skoða skilmála ætíð vandlega þótt það kunni að vera þreytandi. 


Ingimundur Sigurpálsson afhenti Guðfinnu Dóru Ólafsdóttur Garðastein ársins 2017 fyrir störf að söngmálum, söngkennslu og kórstjórn í þágu Garðbæinga um áratuga skeið, en hún og maður hennar Rúnar Einarsson voru sérstakir gestir fundarins. Óhætt er að fullyrða að þau hjónin og fjölskylda þeirra hafa auðgað stórlega tónlistarlífið í Garðabæ undanfarna áratugi.

 

Fyrirlesarar dagsins voru þær Dagný Ósk Aradóttir Pind og Snæfríður Ólafsdóttir, stjórnarkonur í  Kvenréttindafélagi Íslands. Röktu þær upphaf baráttu íslenskra kvenna fyrir menntun, embættisrétti, kosningarétti og kjörgengi. Þær fjölluðu um stofnun kvennaskóla á ofanverðri 19. öldinni, stofnun Hins Íslenska Kvenfélags 1894 og Kvenréttindafélags Íslands 1907. Megináfanginn varðandi embættisrétt og menntun náðist árið 1911, en stærsta skrefið í átt að fullum kosningarétti og kjörgengi kom 1915.  Einnig fjölluðu þær stöllur um baráttumál kvenna nú á tímum og sögðu að hæst bæri launajöfnuð, fjölgun kvenna í dómskerfi og löggæslu og útrýmingu kynbundins ofbeldis,  þar með talið hrellikláms og annarrar áreitni á netmiðlum.


Rótarýklúbburinn Görðum

Fundarstaður

Bæjarbraut 7, Jötunheimar Félagsheimili skátafélagsins Vífils og Hjálpasveitar skáta í Garðabæ (kort)
Fundartími: Mánudagur 12:15

----------------------------------------------
Kennitala : 4709922479
Netfang : gardar@rotary.is
Veffang : http://www.rotary.is/rotaryklubbar/island/gordum/
Fjöldi félaga í klúbbi : 85

 

Myndir - stjórnarskiptin í júlí 2009