Fréttir

30.1.2017

Starfakynning

Hvað varst þú að gera öll þessi ár?

Fundurinn, 30. janúar var í umsjón starfsgreinanefndar og fluttu Gamalíel Sveinsson og Þórey S. Þórðardóttir kynningu á störfum sínum. Gamalíel hefur látið af störfum og bar erindi hans fyrirsögnina,"Hvað varstu að gera öll þessi ár?" Gamalíel á að baki afar farsælan starfsferil sem hófst hjá Efnahagsstofnun árið 1971. Ári síðar vann hann hjá hagrannsóknardeild Framkvæmdastofnunar ríkisins og árið 1974-2002 starfaði hann hjá Þjóðhagsstofnun. Síðustu árin var hann við störf hjá Hagstofu Íslands. Starfsferill hans spannar því 4 stofnanir á 43 árum en þó sótti hann aðeins einu sinni um starf þar sem verkefnin fluttust milli stofnana og starfsmenn almennt með. Viðfangsefnin á árunum 1971-1978 vörðuðu sjávarútvegsmál, fiskverðsákvarðanir o.fl. en eftir 1978 þjóðhagsreikninga. Rakti hann helstu aðferðir við gerð þjóðhagsreikninga en allur samanburður kallar á samræmdar uppgjörsreglur. Á Íslandi er stuðst við Evrópusambands staðla.

Þórey S. Þórðardóttir starfar sem framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða en því starfi hefur hún gengt vel á sjötta ár. Hún fór yfir helstu atriði í uppbyggingu íslenska lífeyrissjóðakerfisins og hvað eignir þess hafa aukist á síðustu áratugum. Landssamtök lífeyrissjóða eru heildarsamtök lífeyrissjóða og er eitt helsta hlutverk þeirra að gæta í hvívetna hagsmuna sjóðfélaga. Lífeyrissjóðir hafa á undanförnum árum verið að fækka vegna sameininga og eru þeir nú 25 talsins. Helstu áherslur í starfsemi samtakanna þetta starfsárið eru; fræðslumál, víxlverkanir milli almannatrygginga og lífeyrissjóða, almannatengsl, rannsóknir og greining, og almenn hagsmunagæsla „lobbyismi“ einkum varðandi laga og reglugerðarsetningu.

Elín Jóhannesdóttir hélt hið hefðbundna þriggja mínútna erindi þar sem hún fór yfir og rakti hina fjölbreyttu félagastarfsemi sem er virk á Álftanesi. Eftir kynningu hennar er ljóst að ekkert vantar upp á menningalífið á nesinu.