Fréttir

18.9.2014

Ljósi varpað á áhugaverð málefni

Undirbúningur umdæmisþingsins í Garðabæ á lokametrunum

Öflug undirbúningsnefnd Rótarýlúbbsins Görðum undir forystu Páls Hilmarssonar hefur um nokkurt skeið unnið hörðum höndum að undrbúningi umdæmisþings Rótarý á Íslandi sem haldið verður 10.-11. október nk. „Það er okkur félögunum í Rótarýklúbbnum Görðum sannur heiður að bjóða til umdæmisþings í Garðabæ dagana 10. og 11. október nk. þar sem við munum „Varpa ljósi á Rótarý“ í tilefni af því að rótarýfélagi okkar Guðbjörg Alfreðsdóttir gegnir stöðu umdæmisstjóra þetta starfsárið.
Við höfum sett saman metnaðarfulla dagskrá og vonum að rótarýfélagar eigi eftir að upplifa bæði fróðlega og skemmtilega daga í Garðabæ,” segir Páll. Skráning er hafin hér á síðunni en rótarýfélagar eru minntir á að skrá sig inn fyrst.

Þingið verður sett í Vídalínskirkju föstudaginn 10. október kl. 14.45 en boðið verður uppá kaffiveitingar frá kl. 14.00 í safnaðarheimilinu. Forseti Íslands Hr. Ólafur Ragnar Grímsson mun flytja hátíðarræðu dagsins. Í kjölfarið verður síðan haldinn rótarýfundur hjá Rkl. Görðum og hefst hann í Hönnunarsafninu við Garðatorg kl. 17.45 þar sem frú Vigdís Finnbogadóttir mun „Varpa ljósi á“ sýninguna „Ertu tilbúinn frú forseti?“ Í anda rótray munum við síðan flytja okkur milli húsa og færa okkur til baka í safnaðarheimili Vídalínskirkju og ljúka þar fundi.

Laugardaginn 11. október verður þinginu framhaldið í Fjölbrautarskólanum í Garðabæ.  Þar verður auk hefðbundinna aðalfundarstarfa boðið upp á metnaðarfulla dagskrá. Þar munu sérfræðingar „Varpa ljósi á“ áhugaverð málefni auk þess sem félagar úr Rkl. Görðum flytja örerindi. Einnig verður boðið uppá vinnustofur fyrir forseta, ritara og gjaldkera líkt og gert var á síðasta þingi og gafst afar vel. Inn á milli verður boðið upp á ýmis listræn atriði þinggestum til skemmtunar.

Boðið verður uppá makadagskrá fyrir maka þingfulltrúa á laugardeginum og hefst hún með borðhaldi kl. 12.00 í Fjölbrautarskólanum og í kjölfarið verður lagt af stað í skoðunarferð í rútu um Garðabæ. Forseti Íslands Hr. Ólafur Ragnar Grímsson mun taka á móti hópnum á Bessastöðum og í lok ferðar verður boðið uppá veitingar á Álftanesi.

Þá verður sú ánægjulega nýjung að Inner Wheel verður með sitt umdæmisþing á laugardeginum í Fjölbrautarskólanum. Umdæmisþinginu  lýkur síðan með hátíðarkvöldverði á laugardagskvöldinu í Fjölbrautarskólanum.

Að venju koma erlendir gestir á þingið og eigum við von á  fulltrúa frá Rotary International og fulltrúa frá Norðurlöndum sem að þessu sinni kemur frá Svíþjóð.

Skráning er hafin á www.rotary.is  Vakin er athygli á að gerður hefur verið samningur við Grand Hótel varðandi gistingu yfir þinghelgina og verða þátttakendur að nefna „Rótarý“ við pöntun til að fá samningsverðið. Hvetjum við þá rótarýfélaga sem vilja nýta sér tilboðið að gera það sem fyrst.

Sjá nánar um þingið hér.



Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning