Staða bókaútgáfu á Íslandi
Góð mæting var á fyrsta fundi ársins, fjörutíu félagar og sex aukamætinar, þar á ofan fjórir gestir auk fyrirlesara dagsins, Bryndísar Lofsdóttur, bókaunnanda (svo titluð í símaskránni) og framkvæmdastjóra Félags Íslenskra bókaútgefenda. Forseti lét syngja til heiðurs Gamalíels Sveinssonar sjötugs og fagnaði nýjum félaga, Kristjáni Haraldssyni, innfluttum frá Ísafirði. Vihjálmur Bjarnason sagði frá stórtónleikum Rotary 8. jan., lét vel af en sagði mætingu hafa verið slaka, þótt aukamæting sé í boði fyrir viðvikið. Einnig bauð hann upp í fyrirlestur fimmtudaginn 12. janúar um markaðssetningu Halldórs Laxness á bókum sínum erlendis. Guðmundur Guðmundsson talaði í góðar þrjár mínútur um fjölmargar útgáfur af Citroen bílum sem hann hefði átt, og um gerð þeirra og sérstaka kosti og nýstárleika. Bryndís Loftsdóttur, ræðumaður fundarins, hóf mál sitt á hryllingssögu um hrun danska bókamarkaðarins og Þórðargleði fjölmiðla þar um. Aðalumræðuefni hennar var hins vegar ástandið á innlendum bókamarkaði, sem hún bað nánast fyrir í trúnaði vegna danska fordæmisins. Viðspyrna og viðgangur íslenskra bóka hefði verið furðugóð í kreppunni, en eftir það hefði hallað undan fæti með 23% raunhnignun frá 2008 til 2015. Hún tengdi þetta minnkandi lestri og hrakförum í Pisakönnun OECD. Þá fjallaði hún um rýran hlut rithöfunda annarra en metsöluhöfunda á íslenskum örmarkaði, enda þótt hærra hlutfall af heildsöluverði bóka renni til höfunda hér á landi en víðast hvar; sérlegan vanda barnabóka og höfunda þeirra og nær algeran skort á smábarnabókum sem endurspegla íslenskan veruleika. Lagði hún í þessu ljósi þunga áherslu á mikilvægi listamannalauna. Hún kvartaði undan litlum kaupum skólabókasafna eftir kreppu, undarntekning væri þó í Reykjanesbæ en sagðist ókunn ástandinu í Garðabæ. Einnig bar hún sig illa fyrir hönd útgefenda yfir ríkisútgáfu á námsbókum. Góður rómur var gerður að ræðunni og mikið fjör var í spurningum. Kom m.a. fram að bæði Jón Karlsson og Vilhjálmur Bjarnason höfðu stundað bóksölu á sínum sokkabandsárum. Var klukkan höll í hálftvö þegar forseti sló í bjöllu, lét félaga þylja fjórprófið og sleit síðan fundi.