Marel og menning

Á fundi okkar 18. janúar sl. bauð menningarmálanefnd klúbbsins upp á atriði. Strengjakvintet frá tónlistarskóla Garðabæjar lék tvö verk. Þetta voru þau Auður, Fjóla Ósk, Jóhanna María, Anna Katrín og Páll Viðar. Þeim var klappað lof í lófa í lokin.
Fyrirlesari fundarins var Viðar Erlingsson vöruþróunarstjóri hjá Marel. Hjá Marel eru nú um 4.800 starfsmenn í 30 löndum og þar af um 550 á Íslandi. Markmið Marels er að framleiða gæðamatvæli á sjálfbæran og ódýran hátt. Marel hefur keypt upp nokkuð af minni fyrirtækjum í svipuðum rekstir og í máli Viðars kom fram að mikil nýsköpun fælist í þessum kaupum. Vandi fylgdi hins vegar samruna, ekki síst í samhæfingu vöruþróunar, en Marel stefnir ávallt að því að vera í fararbroddi á sínu sviði.