Fréttir

19.11.2015

Ferðaiðnaðurinn á Íslandi í örum vexti

Fundur 16.nóvember

Fyrirlesari fundarins var Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri  SAF (Samtök ferðaþjónustunnar).   Erindi hennar fjallaði um ævintýralega þróun ferðaiðnaðarins á Íslandi undanfarin ár. Í erindi Helgu kom fram að vöxturinn hefur verið umfram spár á hverju ári og nú í ár er búist við að aukning á ferðamönnum hér á landi verði um 30% milli ára. Markmið þeirra sem starfa við ferðaþjónustuna hefur verið að reyna dreifa heimsóknum ferðamanna til landsins yfir allt árið til þess að draga úr árstíðarsveiflum.  Það hefur tekist ágætlega sérstaklega eftir að byrjað var á að markaðssetja norðurljósaferðir á veturna.  Þá hafa ferðatilboð á veturna lokkað enn fleiri ferðamenn til landsins.


Ferðaþjónustan er gjaldeyrisskapandi útflutningsgrein og hefur líka skapað mörg störf samhliða aukningu síðustu ára. Mikill vöxtur er jafnframt áskorun og til þess að allir stilli saman strengi við að efla ferðaþjónustuna í landinu hefur verið sett á laggirnar Stjórnstöð ferðamála sem mun starfa næstu 5 árin.  Fylgjast má með verkefnum og fl. Á vefnum ferdamalastefna.is þar er m.a. að finna vegvísir fyrir ferðaþjónustu.