Fréttir

4.11.2016

Völd og valdafíkn

Hver eru hin líffræðilegu áhrif valda á einstaklinga?

Torfi Magnússon, taugalæknir og ráðgjafi framkvæmdastjóra Landspítalans mætti á fund þann 31. október og flutti afar áhugavert erindi um líffræðileg áhrif á fólk sem tekur að sér valdahlutverk. Kannanir sýna að einræðisherrar sem sitja lengi á valdastóli eigi á hættu að verða valdafíkn og spillingu að bráð. Það geta einnig orðið örlög annarra leiðtoga, svo sem lýðræðislega kjörinna stjórnmálaleiðtoga, fjármálamanna og þeirra sem völd hreppa. Í þessu samhengi var tekið sem dæmi að nokkuð hefði verið ritað um Tony Blair, fyrrum forsætisráðherra Breta, og meintar breytingar sem taldar eru hafa orðið á skapferli hans og framkomu í aðdraganda Íraksstríðsins. Fram kom að tengja mætti valdhroka og valdafíkn við virkni testosterons og dópamíns í líkamsstarfsemi þar sem testosteron eykur einbeitingu, álagsþol, keppnisvilja og viljann til valda, minnkaði kvíða og yki virkni dópamíns í heilanum. Markverð aukning hefði mælst hjá verðbréfamiðlurum við æsileg viðskipti, sem og hjá áhorfendum að kappleikjum, þegar þeirra fólki gengur vel. Dópamín er vellíðunar- og/eða verðlaunahormón. Ef það myndaði fíkn, gæti eftirsókn eftir sæluhrifunum kallað á síaukna valda- og sigurþörf. Valdaþörfin virtist þó vera tvenns konar, persónutengd, sem væri hlutfallsega virkari í körlum eða samfélagstengd, sem beindist skv. orðanna hljóðan frekar að sigrum eða velgengni hóps eða samfélags og væri hlutfallslega sterkari hjá konum. Spunnust af erindinu líflegar spurningar og umræður.