Fréttir

22.8.2016

Forsetafrúin í heimsókn

Fundurinn í dag á eftir að vera í minnum okkar lengi. Kristrún Helga Ólafsdóttir hélt sitt fyrsta þriggja mínútna erindi en hún gekk í klúbbinn okkar snemma vors, eða þann 4. apríl sl. Erindi hennar fjallaði um reynslu hennar af Rótarýstarfi, einkum frá sjónarhóli sínum frá því hún var barn en faðir hennar, Ólafur Helgi Kjartansson, er virkur Rótarýfélagi. Reynsla hennar af Rótarý var afar jákvæð og lýsir sér best í því að hún er farin að feta í spor feðranna og orðin Rótarýfélagi.

Fyrirlesari dagsins var ekki af verri endanum og mikill heiður fyrir okkur að fá Elizu Reid forsetafrú til okkar. Mikið getum við öll verið stolt af forseta vorum og hans flottu frú! Ef einhver var í vafa um ágæti Elísu þá ætti sá efi að vera horfinn og viljum við þakka henni fyrir að gefa sér tíma og sýna okkur þá virðingu að koma til okkar í sína fyrstu „opinberu heimsókn“. Kraftur, þakklæti og lífshamingja ljómar af okkar forsetafrú. Við getum öll verið stolt af okkar nýju leiðtogahjónum.