Fréttir

9.11.2016

HR Monitor 

Mælir hjartslátt vinnustaðarins

Á fundi þann 7.nóvember kom skiptineminn Joao Pedro frá Brasilíu í heimsókn og kynnti sig fyrir félögum. Joao sýndi okkur margar skemmtilegar myndir af fjölskyldu, vinum og heimahögum sínum í Brasilíu. Áhugamál hans eru m.a. tónlist, fótbolti og leiklist. Spennandi verður að fylgjast með dvöl hans á Íslandi á næstu mánuðum.


Eftir kynningu frá Joao hlýddum við á fyrirlestur Gunnhildar Arnardóttir sem er félagi í Rótarýklúbbnum Miðborg. Hennar erindi fjallaði um HR Monitor sem er tæki eða aðferðafræði til þess að mæla hjartslátt vinnustaðarins.

HR Monitor gengur út á að gera mánaðarlega könnun meðal starfsmanna á hvernig þeim líður, hvað skiptir þá máli og fleiri þáttum sem stjórnendum finnst áhugavert að fá upplýsingar um hverju sinni.


Gunnhildur sagði frá sögu fyrirtækisins sem hún stofnaði ásamt samstarfsfélaga árið 2010. Markmiðið með stofnun fyrirtækisins var að finna tæki til þess að koma með upplýsingar til forstjóra um mannauðsmál á aðgengilegan hátt. Hugmyndin kom frá fyrri reynslu Gunnhildar sem framkvæmdastjóra þar sem hún upplifði að hafa ekki tiltækar upplýsingar fyrir forstjóra nema e.t.v. einu sinni á ári þegar árleg viðhorfskönnun var gerð. Erindi Gunnhildar var mjög athyglisvert og verður gaman að fylgjast með þróun fyrirtækisins á næstu árum þar sem þau hafa fengið styrk frá Rannís til þess að halda þróunarvinnu áfram.