Fréttir

10.2.2015

Æskulýðsnefnd

Á fundi þann 9.febrúar kynnti Klara Lísa Hervaldsdóttir starf æskulýðsnefndar rótarýumdæmisins. Einnig sagði Sindri Engilbertsson frá reynslu sinni af því að fara sem skiptinemi á vegum Rótarý til Sviss á síðasta ári.

Fram kom hjá Klöru að markmið með starfi æskulýðsnefnda væri m.a. að efla alþjóðlegan skilning, velvild og frið með því að hafa ársskipti á skiptinemum milli landa. Hún fór yfir þær skyldur sem hvíla á Rótarýklúbb sem tekur að sér að senda og taka á móti skiptinema í eitt ár.  

Fjölmargir hafa nýtt sér að fara á vegum Rótarý sem skiptinemar og er Sindri Engilbertsson einn af þeim. Hann sagði frá reynslu sinni af því að dvelja í Zurick í Sviss í eitt ár þar sem hann þurfti t.d. að flytja erindi á (sviss)þýsku eftir aðeins nokkra mánaða dvöl.  Framsögn Sindra var mjög góð og ljóst að hann hefur fengið góða þjálfun í Sviss. Sindri telur að auka megi tengsl milli Rótarý og þeirra skiptinema sem fara út eftir að dvöl lýkur, sérstaklega í ljósi þess að horft er á skiptinemana sem framtíðar Rótarýfélaga.

Erindi Klöru og Sindra voru áhugaverð og ljóst að æskulýðsnefnd rótarýumdæmisins vinnur mikilvægt og öflugt starf.