Fréttir

4.4.2017

Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja

Sjálfbær þróun

Þann 3. apríl mætti Þorsteinn Kári Jónsson, starfsmaður Marel, á fund og flutti erindi um samfélagsábyrgð fyrirtækja. Vaxandi kröfur eru gerðar til fyrirtækja um að vera meðvituð um áhrif sín í víðu samhengi. Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja tekur til áhrifa á umhverfið og samfélagið. Um er að ræða langvarandi skuldbindingu fyrirtækja til þess að haga sér siðferðislega og hafa jákvæð áhrif á hagræna þróun ásamt því að auka lífsgæði starfsmanna sinna, fjölskyldna þeirra og samfélagsins. Fram kom að samfélagsleg ábyrgð ætti að vera stefnumiðun en ekki góðgerðastarfsemi. Útdeiling á hagnaði fyrirtækja skipti ekki öllu máli fremur ætti að einblína á það hvernig ágóða er aflað. Þar væri meginatriði að huga að sjálfbærri þróun. Alþjólega staðlaráðið skilgreinir sjö meginþætti sem huga þarf að sem eru mannréttindi, vinnumál, umhverfið, sanngjarnir starfshættir, neytendamál, samfélagsleg þróun og stjórnarhættir. Hagsmunaaðilar sem tengjast fyrirtækjarekstri er margir og þar þarf að leita jafnvægis en þar má telja viðskiptavini, birgja, eigendur, starfsfólk, þjóðfélagið, fjárfesta og náttúruna. Þorsteinn rakti nokkur dæmi um það hvernig Marel hugaði að samfélagslegri ábyrgð fyrirtækisins.    

 

Þriggja mínútna erindið var í höndum Ingibjargar Valgeirsdóttur og fór hún yfir þjónustu við eldra fólk í Garðabæ. Í bænum er hátt hlutfall íbúa eldra fólk og því enn mikilvægara en ella að staðið sé vel að öllum aðbúnaði þess.