Fréttir

22.5.2017

Aþjóðaheilbriðgðismál

- Ísland til áhrifa

38. fundur  ársins var haldinn í Jötunheimum 22. maí. Á borðum var listilega framreidd langa auk þess sem forseti kom með Rótarydagskökuna úr frysti. Forseti setti fund og greindi frá vel heppnuðum stef-fundi um  Suður-Afríku, sem Garðabæjarklúbbarnir héldu sameiginlega í skála GKG í Vetrarmýri fyrir tæpri viku.

Þriggja mínútna erindið hélt Jón Ásgeir Jónsson og fjallaði um gerð fyrstu veggangnanna á Íslandi. Þau liggja í gegnum Arnardalshamar og tengja veg milli Ísafjarðar og Súðvíkur. Gangnagerðin hófst árið 1947 eftir harðar deilur um hvort farið skyldi með sjó eða um Arnardal og yfir Arnardalsháls til Súðavíkur. 

Aðalræðumaður fundarins var Davíð Á. Gunnarsson, fyrrum forstjóri Ríkisspítalanna, ráðuneytisstjóri og  formaður framkvæmdastjórnar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO.  Fór hann yfir störf sín hjá stofnuninni með hliðsjón af nýlegri bók sinni "Alþjóðaheilbrigðismál - Ísland til áhrifa", sem gefin var út 2016 í ritröð Verkfræðingafélags Íslands. Minntist hann m.a. á aðkomu Rótarýhreyfingarinnar að starfi WHO í baráttunni fyrir útrýmingu lömunarveiki í heiminum, aðkomu sína að starfi stofnunarinnar í framkvæmdastjórninni  og flækjurnar sem fylgja því að leiða saman ólíka menningarheima í baráttunni fyrir bættu heilbrigði á heimsvísu. Hann lýsti því m.a. hvernig samkeppni um áhrif innan ríkja og milli ríkja þvælast fyrir og hve mikilvægt sé að beita útsjónarsemi, sveigjanleika og hugmyndaauðgi í málnotkun til að samræma ólíka hagsmuni   og trúarskoðanir um sameiginleg framfaramál. Loks lýsti hann því fáfræði og fordómar geta tafið fyrir árangri, eins og hefur gerst á síðustu metrunum í baráttunni fyrir útrýmingu lömunarveiki. Góður rómur var gerður að erindinu, en lítill tími gafst til umræðna.