Fréttir

12.6.2017

Samverustund í Ólafslundi

Útivistarskógar og lífsgæði

Þann 12. júní áttu Rótarýfélagar í Görðum ásamt mökum yndislega stund í blíðskaparverðri í Ólafslundi.  Nutum við frábærrar matsseldar Ásgeirs að vanda þar sem grillaðar voru kjúklingabringur og þær bornar fram með gómsætu meðlæti. Fundurinn var í umsjón umhverfisnefndar og á nefndin heiður skilinn fyrir enda öll umgjörð með allra besta móti.  

Fyrirlesari dagsins var Bjarni Diðrik Sigurðsson prófessor og námsbrautarstjóri við Landbúnaðarháskóla Íslands. Erindi hans fjallaði um mikilvægi gróðursetningar og þau lífsgæði sem skógunum fylgja fyrir menn og allt lífríki. Fór hann ítarlega yfir eyðingu skóga sem fylgt hefur fjölgun mannkyns og nauðsyn þess að garðyrkja sé stunduð til að unnt sé að halda uppi lífsgæðum manna og dýra til framtíðar.

Síðast en ekki síst þá lék Eiríkur Þorbjörns á gítarinn og voru sungin nokkur lög sem allir höfðu gaman að.