Fréttir

10.3.2015

Rannsóknir á músum og refum

Ester Rut Unnsteinsdóttir spendýravistfræðingur sem starfar á Náttúrufræðistofnun Íslands var gestur fundarins 9.mars.

Erindi hennar hét af músum og melrökkum og fjallaði um rannsóknir sem gerðar hafa verið á Íslandi á dýrunum. Um árabil hefur Ester ásamt fleirum unnið við að rannsaka hegðun hagamúsa og refa á Íslandi. Það sem aðallega er rannsakað eru lífslíkur, frjósemi og fæðuval dýranna.

Fram kom í fróðlegu erindi Esterar að mörg heiti eru yfir refi á Íslandi t.d. tófa, melrakki, fjallarefur og heimskautarefur. Melrakki er elsta ritaða nafn á ref á Íslandi. Þá kom fram að náið og mikilvægt samstarf er við refaveiðimenn varðandi rannsóknir á refum á Íslandi.