Fréttir

12.4.2017

Hlýnun loftslags og nýir félagar

Áhrif á Íslandi

Á fundinum 10. apríl var aðalræðumaður Halldór Björnsson, veður- og haffræðingur. Hann stýrir veður- og loftslagshópi Veðurstofu Íslands og fjallaði hann um hlýnun loftslags í íslensku samhengi.  Í erindi hans kom fram að síðustu árþúsund í íslenskri veðursögu hafi einkennst af skrykkjóttri kólnun, en síðustu tvær aldir af skrykkjóttri hlýnun. Langtímasveiflur einkenna veðurfar á Íslandi, en það þróast einnig í takt við hnattrænar breytingar. Samkvæmt fjölmörgum gagnasöfnum hlýnaði land og sjór á jörðinni að meðaltali um 0,7-0,8 gráður á árunum 1880-2012. Loftslagsnefnd Sameinuð Þjóðanna telur hlýnun jarðar óumdeilanlega og hlýnunin frá því um miðbik 20. aldar virðist fordæmalaus m.v. síðustu aldir og árþúsund. Loftslagslíkön ná að herma öra hlýnun á síðari helmingi 20. aldar ef áhrif gróðurhúsa-lofttegunda, agnaúða og eldgosa eru tekin með í reikninginn, þótt þau nái ekki sveiflum einstakra áratuga. Ef breytileiki sem líkönin skýra með agnaúða eða eldgosum er tekinn út, herma þau meiri hlýnun en orðið hefur. Ef tekinn er út sá hluti sem aukning á gróðurhúsalofttegundum er talin skýra, sýnir hermunin enga hlýnun. Fram kom að með áframhaldandi aukningu gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu, stefni því í áframhaldandi öra hlýnun. Á fundinum voru teknir upp nýjir félagar sem við bjóðum hjartanlega velkomna í okkar hóp en þeir eru: Bryndís María Tómasdóttir, framkvæmdastjóri Gleym-þér-ey ehf, Georg Birgisson, framkvæmdastjóri Midran ehf., og Sigurrós Pétursdóttir, forstöðumaður hjá Toyota á Íslandi.