Tónlistarsjóður

Tónlistarsjóður Rótarý á Íslandi

Hlutverk stjórnar Tónlistarsjóðs Rótarý á Íslandi er að vinna að markmiði sjóðsins sem er að veita ungu tónlistarfólki, sem skarað hefur fram úr á einhverju sviði tónlistar, viðurkenningu í formi fjárstyrks til frekara náms. Stjórn auglýsir eftir styrkþegum og velur úr hópi þeirra. Stjórn í samráði við viðkomandi umdæmisstjóra stendur fyrir tónleikum í janúarmánuði ár hvert og kynnir þar styrkþega.

Um Tónlistarsjóðinn

Tilgangur Tónlistarsjóðs Rótarýs á Íslandi er að veita ungu tónlistarfólki sem skarað hefur fram úr á einhverju sviði tónlistar viðurkenningu í formi fjárstyrks til frekara náms. Styrkurinn er veittur í janúar mánuði ár hvert. Umsóknum skal skilað til skrifstofu Rótarýumdæmisins, Suðurlandsbraut 54, 108 Reykjavík, fyrir 1. október. Netfang: rotary@rotary.is

Stofnun sjóðsins og fyrsta úthlutun

Stofnun Tónlistarsjóðsins á rætur að rekja til stórtónleika Rótarý sem fyrst voru haldnir í ársbyrjun 1997 fyrir forgöngu stjórnar Rótarýklúbbs Reykjavíkur undir forsæti Friðriks Pálssonar.  Undirbjuggu þeir Gunnar M. Hansson og Jónas Ingimundarson tónleikana er síðan hafa verið árviss viðburður í starfi hreyfingarinnar og notið mikilla vinsælda nú í meira en áratug.  Hefur Jónas borið hitann og þungann af hinni listrænu hlið stórtónleikanna þar sem margir frábærir listamenn hafa komið fram og dagskrár verið fjölbreyttar.

Tónlistarsjóðurinn var formlega stofnaður á umdæmisþingi í Vestmannaeyjum í júní 2003 fyrir afrakstur tónleikanna fyrstu árin ásamt vöxtum.  Stofnframlagið var 1.500.000 krónur.  Mörg fyrirtæki hafa tekið þátt í að efla sjóðinn.  Sú venja hefur komist á að sá klúbbur sem umdæmisstjóri er frá hverju sinni sjái um kynningu tónleikanna og að tryggja sem besta afkomu þeirra svo efla megi tónlistarsjóðinn eins og frekast eru föng á.  Gunnar M. Hansson var formaður sjóðsins frá upphafi og fram til ársins 2007 og óx sjóðurinn verulega í hans tíð, þannig að unnt reyndist að veita tveimur ungum listamönnum viðurkenningu í upphafi árs 2008.

Fyrsta viðurkenning úr Tónlistarsjóðnum var veitt Víkingi Heiðari Ólafssyni píanóleikara. Hún var afhent hinn 7. janúar 2005 á hátíð í tilefni 100 ára afmælis Rótarýhreyfingarinnar sem hófst hér á landi með tónleikum í Salnum í Kópavogi þar sem styrkþeginn lék. Átján umsóknir bárust um styrk úr Tónlistarsjóðnum fyrsta árið og hefur hæfileikaríkt tónlistarfólk af yngri kynslóðinni jafnan sýnt honum mikinn áhuga og litið á það sem eftirsóknarverða viðurkenningu að vera valinn styrkþegi.

Sjá einnig hér: http://www.rotary.is/umrotary/verkefni/tonlistarsjodur/

 


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning