Fulltrúar í Rotary Norden
Fulltrúar í Rotary Norden eru ritstjóri blaðsins á Íslandi sem á sæti ritstjórn Rotary Norden og fulltrúi í stjórn þess og annar til vara.
Rotary Norden – félagsblað allra rótarýklúbba á Norðurlöndunum
Samkvæmt starfsreglum alþjóðlegu Rótarýhreyfingarinnar eiga allir rótarýklúbbar að kaupa áskrift fyrir meðlimi sína að svæðisbundnu rótarýtímariti eða blaðinu The Rotarian, sem er málgagn yfirstjórnar hreyfingarinnar, útgefið á ensku og er dreift til rótarýklúbba í Bandaríkjunum og Kanada. Yfirgnæfandi meirihluti rótarýfélaga um allan heim fær eitt af svæðisritunum í áskrift. Þau eru alls 31 og prentuð á 25 tungumálum. Rotary Norden er í öðru sæti hvað upplagstölur varðar. Samstarf rótarýmanna á Norðurlöndunum um útgáfu Rotary Norden á sameiginlegu riti fyrir fimm lönd er einstakt og vekur mikla athygli. Það var fyrst gefið út árið 1936. Saga þess endurspeglar vináttusamband hinna norrænu þjóða og breiðan samstarfsgrundvöll þeirra. Á síðum þess má sjá margvísleg merki um náin tengsl rotarýklúbba á Norðurlöndunum og samstöðu í málefnum er snerta störf alþjóðahreyfingarinnar.
Rotary Norden kemur út 7 sinnum á ári í 70.000 eintökum í hvert sinn. Blaðið er fyrst og fremst félagsblað rótarýmanna og eru því frásagnir af starfi umdæma og klúbba áberandi. Í blaðinu er vettvangur fyrir samnorræna nálgun á margvísleg málefni, sem í deiglunni eru á hverjum tíma. Það er tvímælalaust mikils virði fyrir íslensku rótarýhreyfinguna og þjóðina í heild að íslensk sjónarmið komi fram í málgagni norrænna rótarýfélaga. Til viðbótar hinu norræna efni birtast svo reglulega fræðandi greinar um stefnumál forseta alþjóðahreyfingarinnar og forráðamanna rótarýsjóðsins. Global Outlook er blaðauki sem fylgir Rotary Norden fjórum sinnum á ári. Þar er gerð grein fyrir mikilvægustu verkefnum, sem alþjóðlega rótarýhreyfingin vinnur að víðsvegar um heim. Blaðaukinn er á ensku.
Til þess að Rotary Norden verði sá spegill er gefi glögga mynd af fjölbreyttu starfi íslensku rótarýklúbbanna, þurfa forráðamenn þeirra, einkum forsetar og ritarar, að gera sitt besta til að koma fréttaefni með myndum til hins íslenska meðritstjóra blaðsins. Pistlar um áhugaverða viðburði og verkefni, 200 – 400 orð að lengd , henta vel til birtingar með einni eða tveimur myndum. Þar sem stafrænar myndavélar hafa verið í örri útbreiðslu ætti að vera auðvelt að láta ljósmyndir í þokkalegum gæðum fylgja textanum. Lágmarkskröfur um myndgæði eru þó settar. Myndirnar eiga að vera að minnsta kosti í upplausninni 1600x1200 pixel og berist sem frummyndir án allra lagfæringa.
Markús Örn Antonsson, fulltrúi íslenska rótarýumdæmisins í ritstjórn Rotary Norden, veitir greinum og myndum viðtöku. Netfang hans er markusoa@simnet.is. Fulltrúi Íslands í útgáfustjórn Rotary Norden er Tryggvi Pálsson, fyrrv. umdæmisstjóri. Ritstjórn Rotary Norden áskilur sér rétt til að meðhöndla og ritstýra efni áður en það er prentað í blaðinu.
Auk þess sem pappírsútgáfa Rotary Norden er send rótarýfólki á Norðurlöndunum má nálgast blaðið á vefnum, á veffanginu http://epaper.hansaprint.fi/rotary/rotarynorden.html