Fréttir af starfinu

Fréttir af starfinu í Samfélagsþjónustunefnd

23. nóvember 2005

Fréttir frá öðrum klúbbum


Af öðrum klúbbum ef það að frétta að Thomas Möller (Rvk-Miðborg) hefur þegar fengið jákvæða afgreiðslu frá menntaráði Reykjavíkur til að bjóða grunnskólum í Reykjavík þetta efni. Í framhaldi af því hafa nokkrir skólar óskað eftir því að fá námskeiðið til sín og má þar nefna Rimaskóla og Tjarnarskóla. Þá er einnig á döfinni hjá Thomasi að halda annað leiðbeinendanámskeið fyrir Rótarýklúbbinn Görðum og klúbbinn í Grafarvogi, ásamt því að nota einhverja ferðina til Egilsstaða til að halda leiðbeinendanámskeið þar.

23. nóvember 2005

Fyrsta URR-ið á vegum Rótarýklúbbs Keflavíkur


Fyrstu skrefin hafa verið stigin hjá Rótarýklúbbi Keflavíkur í því að halda ræðunámskeið fyrir grunnskólanemendur í 10. bekk. Haft var samband við fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar og óskað eftir að þetta framtak væri kynnt í grunnskólum á svæði hennar. Það erindi fékk mjög góðar undirtektir af hálfu fræðslustjóra og var þegar send út kynning á verkefninu til allra grunnskóla á svæðinu, sem hafa 10. bekk, en þeir eru 6. Eftir er að hafa samband við grunnskólana í Vogum og í Grindavík. Tvö ræðunámskeið voru haldin í vikunni 21. ? 25. nóvember 2005 á vegum Rótarýklúbbs Keflavíkur. Heimsóttir voru grunnskólinn í Sandgerði og Njarðvíkurskóli í Reykjanesbæ. Myndir frá heimsóknunum er að finna hér, smellið á nöfn skólanna til að fara á myndasíðu: Sandgerði og Njarðvíkurskóli. Hér að neðan er stutt lýsing frá heimsóknunum. Tveir félagar í klúbbnum fóru í grunnskólann í Sandgerði þriðjudagsmorguninn 22. nóvember með URR-ið, Unglinganámskeið Rótarý í ræðulist. Það voru þeir Erlingur J Leifsson og Jón Axelsson. Þegar þeir komu í skólann og spurðu til vegar, þá var greinilegt að flestir vissu af ‘þessum mönnum frá Rótarý’ og var það mjög skemmtileg upplifun hve vel tekið var á móti þeim. Þeir hittu fyrir umsjónarkennara 10. bekkjar, Katrínu Júlíu Júlíusdóttur, sem hafði verið í samskiptum við þá vegna heimsóknarinnar. Hún leiddi þá um ganga skólans og í stofu 10. bekkjar, bjarta og rúmgóða stofu, en aðeins eru 14 nemendur í þessum árgangi. Af þeim voru 11 mættir þennan dag, en aðrir voru í tíma annars staðar og gátu ekki mætt. Kynntu þeir félagar sig og fóru í gegnum glærur, sem byggðar voru á efni Rkl. Reykjavík ? Miðborgar. Erlingur sá um bróðurpart kynningarinnar, með dyggum stuðningi Jóns, sem greip fram í og leiðrétti eftir því sem þurfa þótti. Að því loknu voru unglingarnir látnir semja stutta ræðu um eitthvað efni sem þeim var hugleikið. Voru það mörg og mismunandi umræðuefni, allt frá tónlist og íþróttum yfir í ferðalög með ímynduðum samferðamönnum. Stóðu þau sig með mikilli prýði og greinileg að sum þeirra voru nokkuð vön að koma fyrir sig orði. Að lokinni hverri ræðu fengu nemendurnir endurgjöf frá þeim félögum um það sem vel var gert og ábendingar um hvað mætti vera öðruvísi. Kunnum við grunnskólanum í Sandgerði miklar þakkir fyrir að leyfa okkur að koma til þeirra með þetta framlag okkar til eflingar unglinganna okkar. Miðvikudaginn 23. nóvember fóru tveir félagar í Njarðvíkurskóla, í þetta sinn voru það þeir Erlingur J Leifsson og Sigurður Símonarson. Á móti þeim tók Drífa Gunnarsdóttir deildarstjóri, sem hafði óskað eftir að klúbburinn kæmi í heimsókn með þetta efni. Var það greinilegt á viðræðum við kennara á kennarastofunni að þar voru, líkt og í Sandgerði, allir með á nótunum um hvað var í gangi og mikill áhugi á þessu og kennarar einróma um það að þetta væri frábært framtak hjá klúbbnum. Í 10. bekk Njarðvíkurskóla eru 26 nemendur, en af þeim voru mættir 21 þennan dag. Að þessu sinni var námskeiðið í líffræðistofu skólans, sem var rúmgóð og með góðan margmiðlunarbúnað, sem nýttist vel. Þeir félagar kynntu sig og fóru í gegnum sama efni og í Sandgerði, örlítið endurbætt að vísu (þetta er lifandi kynning, sem tekur breytingum eftir því sem flytjendur þroskast). Í þetta sinn sá Sigurður um kynninguna að mestu leiti, enda alvanur í kennarastól. Að því loknu voru unglingarnir látnir semja stutta ræðu um eitthvað efni sem þeim var hugleikið. Fengu þeir að heyra hvaða efni hefðu orðið fyrir valinu í Sandgerði, til að gefa þeim hugmynd um þá miklu breidd sem væri í raun í vali á viðfangsefni. Útkoman varð enn fleiri viðfangsefni, allt frá framboðsræðu til salernispappírs og frá listdansnámi til þagnar og allt þar á milli. Stóðu þau sig einnig með mikilli prýði og augljóslega nokkrir vanir ræðumenn, þegar á unga aldri. Að lokinni hverri ræðu fengu nemendurnir endurgjöf frá þeim félögum um það sem vel var gert og ábendingar um hvað mætti vera öðruvísi. Kunnum við Njarðvíkurskóla miklar þakkir fyrir að leyfa okkur að koma til þeirra með þetta framlag okkar til eflingar unglinganna okkar.

12. október 2005

Velheppnað ræðunámskeið Rótarý


Við þökkum þeim klúbbum sem sendu fulltrúa sína á stórskemmtilegt námskeið sem Thomas Möller hélt í 12. október. Þangað mættu 14 félagar til að hlusta á Thomas og taka þátt í að hrinda þessu verkefni af stokkunum. Þá á líka Brynjólfur Helgason, Rótarý Rvk-Miðborg ásamt Landsbankanum þakkir skilið fyrir að taka á móti okkur og lána okkur sal til afnota, en hann flutti okkur líka kynningu á starfsemi bankans. Þeir sem mættu á námskeiðið eiga að sjálfsögðu að fá uppbótarmætingu í klúbbi sínum fyrir fyrirhöfnina og hefur því vonandi verið komið til viðkomandi mætingastjóra. Næsta skref í þessu er að þessir ágætu félagar munu hafa samband við fræðsluyfirvöld og grunnskóla á sínu svæði og bjóða upp á þetta námskeið fyrir unglinga í 10. bekk. Verður gaman að fylgjast með því hvernig gengur. Af frekara námskeiðshaldi er það að frétta að Thomas mun halda námskeið fyrir Rótarýklúbbinn Görðum og í Grafarvogi sérstaklega síðar og auk þess á Egilsstöðum og mun án efa verða hægt að bæta við félögum utan þeirra klúbba. Upplýsingar um þessi námskeið verða send út síðar og sett inn á heimasíðu nefndarinnar.

11. október 2005

Ræðunámskeið Rótarý 12. október kl. 16.00


Námskeiðið verður haldið í sal Landsbankans í Reykjavík,Hafnarstræti 5 (inngangur milli Veiðimannsins og Snyrtistofu Ágústu) á 4.hæð (fundarherbergi Ásgarður). Námskeiðið hefst STUNDVÍSLEGA kl.16 og verður lokið vel fyrir klukkan kl.19. Boðið verður upp á kaffi við komu og samlokur um miðbik námskeiðsins, allt í boði Landsbankans. Endilega hvetja alla sem þið þekkið til að mæta, skráning ‘af götunni’ verður opin!

28. september 2005

Landsbankinn mun leggja til sal fyrir ræðunámskeið Rótarý


Landsbankinn hefur ákveðið að leggja til sal undir námskeið fyrir kennara í ræðunámskeiðum Rótarý hinn 12. október nk. Verður þátttakendum einnig boðið upp á léttan málsverð í boði bankans. Sendar verða út upplýsingar til þátttakenda í næstu viku og því mikilvægt að allir sem áhuga hafa á að taka þátt láti einhvern af nefndarmönnum í Samfélagsþjónustunefnd vita.

16. september 2005

Námskeið 12. október fyrir kennara á ræðunámskeiði Rótarý


Við höfum ákveðið að halda námskeið fyrir kennara í ræðunámskeiðum Rótarý fyrir unglinga þann 12. október nk. Miðað er við að námskeiðið verði milli kl. 15 og 19. Nánari staðsetning verður tilkynnt síðar.

7. september 2005

URR ? Unglinganámskeið Rótarý í Ræðulist


Á Íslandi er, eins og víða annars staðar, ekki nóg gert af því að undirbúa börn og unglinga í því að koma fram og tala máli sínu. Samfélagsþjónustunefnd Rótarýumdæmisins á Íslandi hefur því ákveðið að standa fyrir átaki í grunnskólum landsins til að kenna 10. bekkingum að tjá sig opinberlega og þannig að undirbúa þau betur fyrir lífið með því að þjálfa þau. Til þess viljum við virkja sem flesta af rótarýfélögum okkar og fá þá til að taka þátt í þessu verkefni. Við erum að leita fyrir okkur með endanlegt form á þessu en vinnuheiti okkar er: URR! - Unglinganámskeið Rótarý í Ræðulist! Verkefni þetta er sprottið af vinnu Rótarýklúbbsins Reykjavík ? Miðborg (RRM) á síðasta vetri, en það var prufukeyrt í Hagaskóla með mjög góðum árangri. Kom í ljós að stór hluti unglinganna höfðu aldrei haldið ræðu eða kynningu fyrir hóp. Gríðarlegur áhugi er fyrir þessu hjá unglingunum og skólastjórnendum. Nokkrir skólar eru þegar á biðlista að fá það til sín haustið 2005. Þetta er eitthvað sem mun gagnast öllum ungmennum á Íslandi um ókomin ár, verkefnið er þakklátt, eykur hróður Rótarý og er fyrsta skref okkar í því að þróa Leiðtogaskóla Rótarý í takt við RYLA (Rotary Youth Leadership Awards) verkefnið. Við höfum hugsað okkur að halda námskeið í Reykjavík í október/nóvember fyrir væntanlega 'þjálfara', þar sem við vonumst til að komi áhugasamir rótarýfélagar. Þar verður farið yfir það efni sem nú liggur fyrir og það betrumbætt með virkri þátttöku þeirra sem koma. Það ræðst síðan eftir þátttöku hvort efnt verði til samskonar kynningar úti á landi. Auk þess munum við setja þetta efni á heimasíðu RRM (http://www.rotary.is/midborg/urr.htm), þar sem það verður aðgengilegt rótarýklúbbunum og þá geta meðlimir nefndarinnar komið í heimsókn í klúbbana og kynnt þetta sérstaklega ef óskað er. Við óskum eftir því að þetta verkefni verði kynnt í hverjum klúbbi sem fyrst og klúbburinn tilnefni einn eða fleiri sem muni koma á námskeiðið. Við teljum að þetta sé sérsniðið klúbbþjónustuverkefni, sem eigi erindi í hvern skóla á landinu. Markmið okkar er að ná til að minnsta kosti eins skóla í hverju fræðsluumdæmi á landinu þar sem klúbbar eru starfandi og síðar meir að ná til eins skóla í hverju klúbbumdæmi Markmiðið er að á vormisseri 2006 verði að minnsta kosti einn fulltrúi frá hverjum klúbbi með skóla sem vill taka þátt í þessu.

F.h. Samfélagsþjónustunefndar

Erlingur J Leifsson, Rótarýklúbbi Keflavíkur

Ragnar J Gunnarsson, Rótarýklúbbi Keflavíkur

Thomas Möller, Rótarýklúbbi Reykjavíkur - Miðborg Æskulýðsnefnd


Útlit síðu:

Tungumál:

English

Innskráning:

Innskráning