1999-2000

Fundir starfsárið 1999-2000

 

1. fundur - 5. júlí 1999

Þorkell Sigurlaugsson forstöðumaður þróunarsviðs Eimskips hélt starfsgreinaerindi. Sagði hann Eimskip hafa þróast úr skipafélagi yfir í alhliða flutningaþjónustufyrirtæki. Samkeppnisaðilar eru í dag um 30 og er Samskip þar helsti keppinauturinn, en aðrir samkeppnisaðilar eru erlend skipafélög, flutningamiðlarar og hraðflutningafyrirtæki. Heimamarkaður Eimskips eru lönd sem liggja að Norður Atlantshafinu; Ísland, Færeyjar, Nýfundnaland, Grænland og Noregur. Eimskip er með starfsstöðvar á 14 stöðum úti í heimi og er umfang félagsins mest í Rotterdam, en nú starfa um 400 starfsmenn á vegum Eimskips erlendis. Hluthafar Eimskips eru um 15000 og greiðir Eimskip hluthöfum sínum árlega arð sem nemur að meðaltali um 35% af hagnaði félagsins.

 

2. fundur - 12. júlí 1999

Vilhjálmur Einarsson frá Egilsstöðum flutti hugleiðingar um klúbbstarf og vandamál við að fá nýja félaga í yngri aldurshópum. Einnig nefndi hann þá ?hysteríu? sem nú hefur gripið um sig vegna svokallaðrar náttúruverndar. Hann er mikill talsmaður virkjunar á Austurlandi. Vilhjálmur berst nú fyrir því ásamt öðrum að bjarga Eiðastað og finna honum hlutverk í framtíðinni.

 

3. fundur - 19. júlí 1999

Gylfi Árnason framkvæmdastjóri Opinna Kerfa hf. kynnti fyrirtækið. Fór hann yfir sögu þess en Opin Kerfi var stofnað árið 1985 sem útibú Hewlet Packard á Íslandi. Árið 1995 seldi HP hlut sinn í félaginu og var þá nafninu breytt í Opin Kerfi og 1997 var félagið síðan skráð á Verðbréfaþing Íslands. Hluthafar eru nú um 1200 og markaðsvirði félagsins um 4,3 milljarðar. Starfsemi félagsins má skipta í þrjú megin starfssvið. Söludeild sem sér um sölu á flóknum tölvukerfum, heildsölu sem sér um sölu á ýmsum tölvuvörum, og fjárfesting í upplýsingatækni sem fjárfestir í öðrum fyrirtækjum. Um framtíðina sagði Gylfi að hann teldi að tölvu- og hugbúnaðariðnaðurinn myndi halda áfram að vaxa hratt á næstu árum og að tölvueign yrði brátt jafn nauðsynlegur hluti í daglegu lífi fólks eins og bíllinn

 

4. fundur - 26. júlí 1999

Þorleifur Þór Jónsson hagfræðingur Samtaka ferðaþjónustunnar kynnti samtökin en þau voru stofnuð í nóvember 1998 með aðild helstu aðila sem koma að ferðaþjónustu á Íslandi. Árið 1998 komu um 232.000 erlendir ferðamenn til landsins sem er vöxtur um 64% frá árinu 1990. Gjaldeyristekjur af ferðamönnum námu 26 milljörðum árið 1998 sem er helmings raunhækkun frá 1990 og er ferðaþjónustan orðin önnur mikilvægasta gjaldeyrisaflandi atvinnugreinin á eftir sjávarútvegi. Þorleifur fór yfir helstu strauma og stefnur í ferðaþjónustunni og nefndi eftirfarandi: Aukning er á einstaklingsferðum. Bílaleigubílar eru vinsælir og hefur fjöldi þeirra tvöfaldast á fjórum árum. Afþreyingarmöguleikar fyrir ferðamenn hafa stóraukist. Aukin áhersla er á bætta gistiaðstöðu um allt land. Hörð samkeppni og lítil arðsemi er í ferðagreininni. Verðlag er of hátt á áfengi og einföldum mat, á meðan verðlag á betri veitingastöðum er vel samkeppnishæft á erlendum grundvelli.

 

5. fundur - 9. ágúst 1999

Auður Eyr Vilhjálmsdóttir prestur kvennakirkjunnar og fyrst kvenna að vígjast til prests árið 1974 fjallaði um hugmyndina að koma á fót Maríusetri sem væri opið hús þar sem konur gætu leitað hvíldar og endurnæringar frá daglegu amstri. Maríusetur gæti þjónað margvíslegum tilgangi og mætti t.d. nýta það sem lærdómssetur, hvíldarsetur og sem vettvang til að opna hæfileika kvenna á ýmsa vegu. Konur gætu leitað í Maríusetur til að fá næði og umhyggju ásamt því að vera alviðra þar sem margir straumar og ýmsar hugmyndir mætast. Dvalartími kvennanna myndi vera mismunandi, allt frá 2 tímum upp í mánuð eða jafnvel lengur. Auður sagði að málið væri nú til skoðunar hjá Biskupsstofu og mætti t.d. hugsa sér Maríusetur sem kristnihátíðargjöf frá stjórnvöldum til kvenna á 1000 ára afmæli kristinnar trúar.

 

6. fundur - 16. ágúst 1999

Margeir Pétursson hélt starfsgreinarerindi, en starfsgrein hans í klúbbnum er verðbréfamiðlun. Margeir varð löggiltur verðbréfamiðlari árið 1998 og hefur nýlega sett á stofn MP Verðbréf hf., sem er löggilt verðbréfafyrirtæki. Margeir sagði að MP Verðbréf væri sérhæft fjármálaþjónustufyrirtæki sem annast eignaumsýslu með innlend og erlend hlutabréf, ásamt því að vera með heildarráðgjöf til viðskiptavina sinna varðandi eignaumsýslu og samsetningu eigna. Sérstaða fyrirtækisins felst í árangurstengdri þóknun, afskiptastefnu gagnvart hlutabréfafjárfestingu sem m.a. getur haft í för með sér setu í stjórnum hlutafélaga fyrir hönd hluthafa. Jafnframt er fyrirtækið sjálfstætt og óháð verðbréfafyrirtæki og getur því ákveðið fjárfestingarkosti sjálfstætt fyrir viðskiptavini sína. Margeir sagði að fyrirtæki sitt leggði áherslu á rannsóknir fyrir hönd viðskiptavina sinna og í dag væri helst horft til fyrirtækja á sviði líftækni, fjarskipta, og upplýsingatækni (netið).

 

7. fundur - 23. ágúst 1999

Ingvi Þorsteinsson hélt erindi um gróðurvernd á suðvesturhorni landsins sem hann kallaði ?gróðurvernd í landnámi Ingólfs?. Ingvi taldi að Ísland væri verst farið af öllum Evrópulöndunum og væri einungis rúmlega 20% af landinu gróið, en talið er að við landnám hafi gróið land numið um 70 - 75%. Ingvi sagði að á hverju ári væri um hálfum milljarði varið til gróðurverndar en af þeim fjármunum færu aðeins um 5% á suðvesturhorn landsins. Sagðist hann vera talsmaður þess að meiri fjármunum yrði varið til gróðurverndar á suðvesturhorninu og með það að markmiði hefðu samtökin ?Gróður fyrir fólk í landi Ingólfs? verið stofnuð fyrir 3 árum. Í fyrirspurnum til Ingva kom meðal annars fram hjá honum að hann teldi að verja þyrfti 1,5 milljarði á ári í 10 ár til þess aðeins að stöðva núverandi gróðureyðingu. Taldi hann að lúpínan væri sterkasta plantan til að hefta gróðureyðingu á uppblásturssvæðum.

 

8. fundur - 30. ágúst 1999

Guðfinna Bjarnadóttir rektor Viðskiptaháskólans í Reykjavík kynnti starfsemi skólans. Guðfinna lauk doktorsprófi í sálfræði árið 1991 og starfaði um margra ára skeið við rekstrarráðgjöf hjá þekktum fyrirtækjum í Bandaríkjunum. Hún varð rektor Viðskiptaháskólans við stofnun hans árið 1998. Við Viðskiptaháskólann eru tvær deildir, tölvufræðideild og viðskiptadeild. Hlutverk Viðskiptaháskólans væri að auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og að vera leiðandi í viðskipta- og tæknimenntun. Markmið skólans er að útskrifaðir nemendur verði framúrskarandi fagmenn sem eru eftirsóttir í atvinnulífinu og eigi greiðan aðgang að erlendum háskólum. Nemendur skólans séu einnig búnir undir að axla ábyrgð í atvinnulífinu og í samfélaginu.Viðskiptaháskólinn er brautriðjandi í nýjungum við kennslu og tók Guðfinna sem dæmi fjarkennslu við skólann og rafrænt bókasafn en þar geta nemendur fengið nýjustu upplýsingar í gegnum áskrift skólans að erlendum gagnagrunnum. Einnig nefndi hún Nýsköpun 1999, en um 700 manns sóttu kennslu í gerð viðskiptaáætlana. Jafnframt er boðið upp á símenntunarnámskeið við skólann, en námskeiðin eru m.a. ætluð fólki í atvinnulífinu sem áhuga hefur á að endurmennta sig eða bæta við þekkingu sína.

 

9. fundur - 6. sept 1999

Páll Magnússon fréttastjóri Stöðvar 2 flutti erindi um hvernig fréttir eru að breytast. Páll sagði breytingu hafa orðið á fréttaefni í Bandaríkjunum og einnig í Evrópu en þó síður á Íslandi. Vægi erlendra frétta hefði minnkað ásamt því að fréttir um stjórnmál og efnahagsmál í víðu samhengi væru á undanhaldi í þessum löndum. Fréttastöðvar eru orðnar sérhæfðari og þannig getur fólk sem hefur áhuga á erlendum fréttum gengið að þeim vísum á t.d. CNN. Í staðinn koma fréttir sem gagnast fólki t.d. heilsufar og lífstíll,?News for use? og hins vegar dramatískar fréttir t.d. Clinton, Diana og Simpson. Páll tók sem dæmi þekkta sjónvarpsstöð í Bandaríkjunum þegar yfirvofandi var árás bandamanna á Írak. Fyrsta frétt á sjónvarpsstöðinni var hins vegar hættuleg áhrif léttra sígarettna á heilsufar fólks. Þriðja tegund frétta eru svokallaðar nándarfréttir (Local News). Páll sagði frá áhorfskönnun hóps fólks í hverfi í London þegar alvarlegrar geislamengunnar varð vart í kjarorkuveri á Pólarskaga. 80% íbúanna horfðu hins vegar á aðra sjónvarpsstöð sem greindi frá lausn á geitungaplágu í hverfinu þar sem geitungabúum var eytt. Páll varpaði fram þeirri spurningu hvort ákveðnir fréttaflokkar ættu að víkja því fréttir eru framleiðsluvara og ekki væri hægt að vera með vöru í hillu ef enginn vill horfa á.

 

10. fundur - 13. sept 1999

Halldór Björn Runólfsson listfræðingu við Listaháskóla Íslands fjallaði um listir og listaverkakaup. Halldór taldi aðkallandi að fólk líti samtímalist jákvæðari augum því það væri mikilvægt fyrir listamenn samtímans að fá meiri viðurkenningu á því sem þeir eru að gera. Halldór gaf góð ráð varðandi kaup á samtímalist. Gott væri að þiggja góðra manna ráð varðandi listaverkakaup og einnig væri vert að kanna hvernig aðrir sem eru að safna listaverkum fara að. Hann sagði að ný list væri oft fráhrindandi og ljót en ekki mætti einblína á einn hlut heldur reyna að finna út hvert listamaðurinn væri að fara með listaverkinu. Í stað þess að skoða aðeins eitt verk væri gott að skoða feril listamannsins og reyna að meta hvort listamaðurinn væri brennandi af áhuga. Eftir því sem fleiri leggja blessun sína yfir listamanninn eru oft meiri líkur á ágæti hans. Vert er einnig að athuga hvað listasöfnin eru að kaupa í samtímalist. Ekki er vænlegt að falla einungis fyrir útlitinu því bestu verkin eru ekki endilega þau sem eru snoppufríð. Skoða ætti hvert innrætið væri í listaverkinu. Að endingu sagði Halldór að góð listaverk væru síung og fólk þreittist ekki á að njóta þeirra.

 

11. fundur - 20. sept 1999

Anna Sigríður Pálsdóttir prestur í Grafarvogssöfnuði hélt starfsgreinarerindi. Í Grafarvogssöfnuði sem er stærsti söfnuður landsins með um 15.000 manns eru starfandi 3 prestar og leiðir sóknarprestur starfið í kirkjunni en annars er ekki munur á embættisverkum sóknarprests og prests. Sérhæfing er innan prestastéttarinnar og þannig eru t.d. starfandi sjúkrahúsprestar, sálgæsluprestar, fangelsisprestar, prestar heyrnarlausra, aldraðra og nýbúa. Anna sagði að skipta mætti prestsþjónustunni í eftirfarandi svið:

Helgihald: Guðsþjónusta, barnaguðsþjónusta, fermingarguðsþjónusta, kyrrðarstundir og helgistundir með ýmsum hópum.
Aukaverk: Skírnir, hjónavígslur og jarðarfarir.
Óhefðbundin guðsþjónusta: Æðruleysismessur í tengslum við 12 spor AA samtakanna, jazzmessur, þjóðlagamessur og æskulýðsmessur.
Barnastarf, æskulýðsstarf, foreldrahópar og starf með eldri borgurum.
Sálgæsluviðtöl, sjúkrahúsvitjanir og húsvitjanir.
Sorgarhópar, hópar fyrir fráskilið fólk, biblíulestur og önnur fræðsla.
Þjónusta á ýmsum mannamótum innan safnaðar og utan.

 

12. fundur - 27. sept 1999

Daði Guðbjörnsson listmálari hélt starfsgreinarerindi í Listasafni ASÍ við Freyjugötu í Reykjavík en þar hefur hann að undanförnu haldið sýningu á myndlist sinniÁ sýningunni eru tuttugu olíumálverk unnin á síðastliðnum tveimur árum. Daði sagði að á sínum yngri árum hefðu málverk hans verið hrá í framsetningu en smám saman hafi hann verið að endurvinna myndheiminn og er meira að spekúlera í ljósi, litum og stemmingu í kringum það. Hann segir myndlist sína byggjast mikið á hugmyndum og er unnin mjög meðvitað. Daði segir það áberandi í málverkinu nú að fólk leggi meira upp úr vönduðum vinnubrögðum en áður.

 

13. fundur - 4. okt. 1999

Jóhanna Gunnlaugsdóttir hélt starfsgreinarerindi en starfsgrein hennar í klúbbnum er bókasafns- og upplýsingafræði. Jóhanna er með próf í bókasafnsfræði frá Háskóla Íslands ásamt því að hafi lokið námi við Háskólann í Wales í stjórnun og rekstri fyrirtækja með áherslu á bókasafns- og upplýsingakerfi. Jóhanna rekur ráðgjafarfyrirtækið Gangskör sem hún stofnaði 1986. Jóhanna sagði að þörfin fyrir kerfisbundna skjalastjórnun væri vaxandi m.a. vegna þess að:


Magn gagna eykst stöðugt en magn upplýsinga ekki að sama skapi.
Aukin þörf er fyrir skjótan aðgang að réttum upplýsingum.
Fyrirtæki vilja skrásetja þekkingu og upplýsingar sem starfsmenn búa yfir.
Jóhanna fór yfir helstu þætti í starfsemi Gangskör Sf sem eru m.a.:
Alhliða úttekt á ástandi skjala og annarra upplýsingamála.
Geymslu- og öryggisáætlun.
Ráðgjöf við tölvuskráningu skjala og vinnuferla.
Gerð skjalaflokkunarkerfis fyrir virk skjöl.
Frágangur óvirkra skjala.
Efnisleit í gagnagrunni og á internetinu.

 

14. fundur - 11. okt. 1999

Þórunn Sigurðardóttir stjórnandi verkefnisins „Reykjavík menningarborg árið 2000“ sagði frá því að tilgangur verkefnisins væri að vekja athygli á menningarlegri sérstöðu borga. Aþena var fyrst tilnefnd menningarborg Evrópu árið 1985 en árið 2000 eru 9 borgir sameiginlega tilnefndar menningarborgir, þar af 2 aðrar borgir á Norðurlöndunum, Bergen og Helsingfors. Verkefnið er ekki einskorðað við listviðburði eins og áður var og nefndi Þórunn að fyrir nokkrum árum hafi Glaskow notað tækifærið og hreinsað ásýnd borgarinnar við það tækifæri að vera tilnefnd menningarborg Evrópu.


Þórunn sagði að hver borganna 9 hefði sitt þema og væri Reykjavík með „Menning og náttúra“. Viðburðir verða um 200 talsins á Íslandi og hafa Ríkið og Reykjavíkurborg stutt við verkefnið og einnig kemur atvinnulífið að fjármögnun þess. Reykjavík menningarborg árið 2000 er tengt inná náttúruöflin, jörðin, vatnið, eldurinn og vindurinn.

 

15. fundur - 18. okt. 1999

Nýir rótarýfélagar: Tveir nýir rótarýfélagar voru teknir inn í klúbbinn. Guðný Magnúsdóttir er með starfsgreinina „leirlistarmenn“ og Þórunn Sveinbjörnsdóttir með starfsgreinina „fulltrúi stéttarfélaga“. 


Jónas Kristjánsson fyrrverandi forstöðumaður Árnastofnunar flutti hugleiðingar sínar um Þorfinn Karlsefni og hugsanlega siglingarleið hans frá Íslandi til Vínlands fyrir um þúsund árum. Jónas kom einnig inná orðið Vínland og sagði að líklega væri ekki átt við land þar sem vínþrúgur vex, heldur væri átt við rifsber (í fornöld talað um rauð vínber) og einnig sólber (í fornöld kölluð svört vínber).

 

16. fundur - 25. okt. 1999

Aldursdreifing félaga:Birgir Ómar Haraldsson lagði fram og kynnti yfirlit yfir aldurdreifingu félaga í klúbbnum. Um helmingur félaga er á aldrinum 45 - 50 ára.

3ja mínutna erindi:Gunnar Örn Kristjánsson forstjóri SÍF rakti hugleiðingar sínar um tungumál og viðskiptaumhverfi í ljósi þess að mörg íslensk fyrirtæki eru orðin alþjóðavædd. SÍF starfar nú í 15 löndum þar sem töluð eru alls 13 tungumál. Taldi Gunnar mikilvægt fyrir marga starfsmenn fyrirtækisins að kunna vel eitt tungumál til viðbótar við íslensku og ensku.

Ævisaga Jónasar Hallgrímssonar:Páll Valsson cand. mag. í íslenskum fræðum og ritstjóri hjá Máli og menningu, fjallaði um útgáfu sína á ævisögu Jónasar Hallgrímssonar skálds en bókin kemur út um miðjan nóvember nk. Sagði Páll að Jónas hefði verið hugsjónarmaður og framfarasinni en skoðanir hans hefðu mætt miklum mótbyr á Íslandi á árunum í kringum 1840. Jónas hafði áhuga á að Alþingi íslendinga yrði að Þingvöllum en varð að lúta í lægra haldi fyrir Jóni Sigurðssyni og fleirum.

 

17. fundur - 1. nóv. 1999

Ólafur Daðason framkvæmdarstjóri Hugvits hf. fjallaði um áhrif hópvinnukerfa á þjóðfélagið. Ólafur sagði m.a. að Hugvit væri með starfsemi í mörgum löndum en hann taldi að í raun væri fyrirtækið ekki neinstaðar „til húsa“. Lykilatriðið í starfseminni eru samskipti þar sem tími og staður eru þættir sem ekki þurfa að fara saman. Sagði hann að spara mætti mikla fjármuni í rekstri fyrirtækja og opinberra stofnana með því að byggja reksturinn á því að tími og staður þurfi ekki alltaf að fara saman. Breytingu í þá átt má m.a. sjá víða með tölvupósti og fjarfundum og með öflugri notkun hópvinnukerfa má kortleggja og skipuleggja samskipti innan fyrirtækja með það í huga að skjalasöfn, þekkingarsöfn, tölvupóstur, heimasíða og fjarfundir tengist saman með skipulegum hætti.

 

18. fundur - 8. nóv. 1999

Nyðjafundur: Gísli Baldur Garðarsson kynnti dagskrána sem var undirbúin af skemmtinefnd. Jason Ólafsson gítar og Grímur Gíslason söngur fluttu lagið úr myndinni Notting Hill.

Erindi:Þórunn Lárusdóttir leikkona hélt erindi. Þórunn leikur aðalhlutverkið, Auði, í Litlu hryllingsbúðinni. Þórunn, Grímur, Jason og Gísli Baldur fluttu síðan „When I fall in love“ við mikinn fögnuð viðstaddra og loks söng Þórunn við undirleik Gísla Baldurs lagið „Summertime“ eftir bandaríska tónskáldið Gerswin.

 

19. fundur - 15. nóv. 1999

Heimsókn umdæmisstjóra: Snorri Þorsteinsson umdæmisstjóri Rótarý 1999 - 2000 hélt erindi en hann hafði fyrir fundinn fundað með stjórn rótarýklúbbsins. Í ræðu hans kom m.a. fram að rótarýhreyfingin þyrfti á kröftum kvenna að halda og taldi hann að framvegis yrðu allir nýir klúbbar á Íslandi blandaðir klúbbar. Í dag eru rétt um 30.000 rótarýklúbbar starfandi í 161 landi og er hreyfingin sannarlega alþjóðleg en Snorri sagði þó að örlítil fækkun hefði orðið á heildarfjölda rótarýfélaga á síðasta ári. Snorri sagði að hann teldi æskilegt sem markmið um fjölgun í hreyfingunni hér á landi að hver klúbbur fjölgaði að meðaltali um 2 félaga eða um 5% á ári.

 

Snorri sagði að framlag Rótarý til útrýmingar á lömunarveiki hefði skipt miklu máli og er stefnt að því að átakinu verði að fullu lokið á aldarafmæli hreyfingarinnar árið 2005. Sagði hann að næsta stóra verkefni rótarýhreyfingarinnar yrði baráttan gegn ólæsi. Snorri velti upp spurningunni hvernig væri hægt að halda Rótarýhreyfingunni kröftugri og sagði hann hana ekki nógu sýnilega í þjóðfélaginu. Víða erlendis er sjálfboðastarf rótarýfélaga í samfélagsþjónustu. Hann taldi að lokum mikilvægt að Rótarý höfðaði til ungs og kraftmikils fólks.

 

20. fundur - 22. nóv. 1999

Þróun internetsins: Dagný Halldórsdóttir framkvæmdastjóri Skímu flutti erindi um þróun internetsins. Dagný fór yfir þróun internetsins en upphafið má rekja til rannróknarnets í Bandaríkjunum árið 1969. Árið 1972 fóru menn að notast við tölvupóst og 1983 var tekinn upp alþjóðlegur samskiptastaðall milli tölva. Árið 1993 kom síðan veraldarvefurinn „www“. Á Íslandi var Hafrannsóknarstofnun árið 1986 fyrst til að tengjast tölvu erlendis og 1993 var INTÍS stofnað til að halda utan um nafnaskráningaþjónustu á netinu.

 

Varðandi notkun netsins sagði Dagný að hún væri sífellt að verða fjölbreytilegri. Símtæki geta nú verið í sambandi við internetið og sagði hún að tækifæri framtíðarinnar og notkun internetsins yrði aðallega tengd upplýsingamiðlun, afþreyingu, gagnaflutningum og viðskiptum og þjónustu. Um 80% íslendinga eru nú með aðgang að internetinu og um 60% íslendinga eru með eigin tengingar. Um 70% íslendinga eru með tölvu heima hjá sér og um 50% íslendinga eiga GSM síma.

 

Dagný sagði að lokum að í náinni framtíð myndu bæði afköst aukast á internetinu og innviðirnir styrkjast. Sagði hún að stutt væri í að lófatölvan myndi taka við af GSM símanum sem persónulegur gripur ígildi úrsins í dag. Lófatölvan er þráðlaus og sítengd internetinu og er því spáð að árið 2004 verði allt að 1 billjón notenda með lófatölvu.

 

21. fundur - 29. nóv. 1999

Eyjabakkar: Helgi Bjarnason verkfræðingur og forstöðumaður umhverfisdeildar Landsvirkjunar fór yfir sögu virkjunaráforma á Eyjabökkum norðan Vatnajökuls og gerði grein fyrir nýlegri skýrslu Landsvirkjunar um mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar.

 

Helgi hóf mál sitt með því að greina frá því að fyrir norðan Vatnajökul eru þrjár ár sem samanstanda af um 40% af hagkvæmu virkjanlegu vatnsafli á Íslandi. Í dag er verið að nýta orku sem samsvarar um 7.500 Gíga vatt stundum (Gwa) en nýtanleg heildarorka er um 50.000 Gwa og þar af er vatnsorka um 30.000 en jarðvarmi 20.000. 

 

Helgi sagði að Fljótsdalssvæðið væri í dag að mati Landsvirkjunar meðal 5 hagstæðustu virkjunarkosta þegar borið er saman orkumöguleikar og kostnaður við að virkja.

 

Útlit svæðisins breytist mikið við miðlunarlón á Eyjabökkum en Helgi telur að engar gróðurtegundir myndu útrýmast við það. Jafnframt fara fallegar jarðmyndanir undir vatn og vatnsmagn fossa myndi minnka um helming. Varðandi dýralíf sagði hann m.a. að gæsastofninn væri sveiflukenndur og hefði fyrst orðið vart við gæs á svæðinu árið 1979 og árið 1991 náði fjöldinn hámarki þar eða um 13.000 fuglar en væri í dag um 9.000 fuglar.

 

Ef af framkæmdum verður, er áætlað að ársverk við Fljótsdalsvirkjun verði um 1.300 þegar mest lætur en við rekstur virkjunarinnar sem áformað er að ljúka árið 2003 myndu starfa milli 15 og 20 manns. Helgi benti að lokum á að um 80% af nýjum álverum í heiminum væru ekki umhverfisvæn þar sem þau væru knúin með olíu eða kolum í stað vatnsafls sem er endurnýjanleg orka.

 

22. fundur - 6. des. 1999

Jólafundur: Jólafundurinn var haldinn íveitingasalnum Englar og fólk sem er staðsettur uppi á Kjalarnesi. Fjölmenni var á jólafundinum og voru gestir með mökum og börnum rótarýfélaga rétt um 100 manns.

 

Skemmtinefndin hafði undirbúið fundinn mjög vel og byrjuðu gestir á því að skoða sig um í glæsilegum húskynnunum sem samanstendur m.a. af tveimur veitingasölum. Salirnir eru fallega innréttaðir og veggir myndskreittir af ítölskum málara.

 

Boðið var upp á jólahlaðborð og höfðu gestir á orði að maturinn hefði verið alveg sérstaklega góður. Undir borðhaldi var rótarýfélagi Anna Sigríður Pálsdóttir prestur í Grafarvogssókn með jólahugvekju og kór Gvafarvogskirkju söng jólalög.

 

23. fundur - 13. des. 1999

Bókin Sjórán og siglingar: Helgi Þorláksson prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands sagði frá nýrri bók sinni Sjórán og siglingar, en hún hefur verið tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna. 


Helgi byggir bók sína á rannsóknum sem hann meðal annars stundaði í Englandi árið 1996 og fjallar bókin aðallega um atburði í Vestmannaeyjum sumarið 1614 þegar breskir sjóræningjar stigu þar á land og héldu íbúum eyjarinnar sem þá voru um 400 í gíslingu um hálfs mánaðar skeið.

Undir verndarvæng Elísabetar Englandsdrottningar sem lést 1603 höfðu sjóðræningjarnir fengið leyfi hennar til að ræna spænsk skip. Eftirmaður hennar Jakob 1. samdi frið við spánverja og urðu sjóðræningjarnir því að leita á önnur mið og fóru þeir því meðal annars alla leið á Íslandsmið og rændu fiskiskip því þau voru yfirleitt vel búin af mat og öðrum varningi. Árið 1627 komu þeir síðan með tyrkjum aftur til Vestmannaeyja og rændu eyjaskeggja.

 

24. fundur - 20. des. 1999

Bókin Kæru félagar: Jón Ólafsson framkvæmdarstjóri við rannnsóknardeild hugvísindastofnunar Háskóla Íslands sagði frá nýrri bók sinni Kæru félagar sem fjallar um sögu kommúnistahreifingarinnar á Íslandi 1920 - 1960. 

 

Íslenskir kommúnístar fóru fyrst á ráðstefnur til Sovétríkjana árið 1920 og urður áhrif flokksins smám saman meiri á Íslandi og til marks um það var Sósíalistaflokkurinn í stjórn með Sjálfstæðisflokknum frá 1944 - 1946 jafnframt því sem áhrif flokksins voru mikil á haftarárunum á seinni hluta sjötta áratugarins.

Einar Olgeirsson formaður flokksins reyndi að sveigja efnahagskerfi Íslands að Sovétríkjunum og austrinu og hafði uppi hugmyndir um að byggja upp efnahagslífið með stóru láni frá Sovétríkjunum sem síðan yrði undirstaðan undir að mest allur útflutningur íslendinga færi til Sovétríkjanna. Megin rökin voru þau að efnahagskerfi Sovétríkjana væri ekki eins sveiflukennt og vesturlandanna og því væru viðskiptin til lengri tíma öruggari fyrir Ísland. Með Viðreisnarstjórninni í lok ársins 1959 var síðan viðskiptahöftum aflétt og komið í veg fyrir áhrif kommúnista á Íslandi.

 

25. fundur - 3. jan. 2000 

Fiskveiðiráðgjöf á nýrri öld: Gunnar Stefánsson dósent við Háskóla Íslands og starfsmaður Hafrannsóknarstofnunar um 17 ára skeið greindi frá alþjóðlegu samstarfsverkefni um fiskveiðiráðgjöf. Gunnar kom inn á þætti fiskveiðiráðgjafar og sagði að mörg sambönd væru augljós t.d. mikil loðna færi saman við mikinn þorsk. Markmiðið væri að skilja samspil fisktegunda t.d. hvaða tegundir þorskurinn étur, svæðasamspil í tengslum við fiskigöngur. Fiskgengd getur verið háð aldursskeiði stofna þ.e. seiði geta gengið á aðrar slóðir en fullvaxta fiskur. Fiskveiðiráðgjöf gengur einnig út á að greina aldurssamsetningu stofnsins.

 

Nota þarf mjög flókin líkön við að reyna að greina líffræðilegt samspil fiskistofna í vistkerfinu og eru þessi líkön þung í keyrslu. Nefndi Gunnar sem dæmi að það tæki um 20 daga að keyra ákveðið líkan. Sagði Gunnar að Hafrannsóknarstofnun væri í samstafi við 8 aðila frá 5 löndum við að þróa nýjust tölfræði í fiskveiðiráðgjöf með það að markmiði að auka skilning á þeim þáttum sem gera fiskveiðistjórnun á þessarri öld sem markvissasta. 

 

26. fundur - 10. jan. 2000 

Kristnihátíðin: Júlíus Hafstein framkvæmdarstjóri kristnihátíðarnefnar sagði frá undirbúningi og helstu viðburðum kristnihátíðar en undirbúningur að hátíðinni hófst í apríl 1997 og stendur hún í 2 ár frá því í apríl 1999 og til páska 2001.

 

Kristnitaka á Alþingi árið 1000 var einstakur atburður en við kristnitökuna sneri heilt samfélag baki við hefðbundnum átrúnaði sínum, norrænni heiðni, og gekk kristni á hönd. Þessi ákvörðun elsta þjóðþings veraldar er talin sú mikilvægasta sem Alþingi hefur tekið frá þvi að það var stofnað á Þingvöllum árið 930. Kristnitakan hafði áhrif á flesta þætti íslenkrar menningar og samfélags. Bókmenntir, listir og menntun þjóðarinnar reis af rótum kristinnar menningar. Kristnitakan er því sá atburður sem hvað víðtækust áhrif hefur haft í íslensku þjóðlífi og sögu. 

 

Gert er ráð fyrir allt að 240 viðburðum sem munu tengjast kristnitökuhátiðinni og ber þar hæst kristnihátíð á Þingvöllum 1. og 2. júlí árið 2000. Þingvellir er lang stærsta verkefnið og verður hægt að taka á móti allt að 75.000 manns og verða bílastæði fyrir um 23.000 bíla.

 

27. fundur - 17. jan. 2000 

Eldvirkni á Kötlusvæði og í Eyjafjallajökli: Magnús Tumi Guðmundsson jarðfræðingur og dósent í jarðfræði við Háskóla Íslands sagði frá og sýndi myndir af eldvirku svæðunum í Kötlu og í Eyjafjallajökli. Magnús hefur sérhæft sig í að rannsaka eldgos og þá sérstaklega eldvirkni undir jöklum.

Magnús sagði að Grímsvötn og Katla væru virkustu eldstöðvarnar á Íslandi í dag. Eldgos á jarðsprungu væru algengust eldgosa á Íslandi og það stærsta sinnar tegundar hefði verið Lakagígagosið 1783 sem nánast lagði byggð á Íslandi í eyði.

 

Katla hefur af einhverjum ástæðum yfirleitt gosið síðsumars eða á haustin og hefur gos staðið yfir í nokkrar vikur. Í Mýrdalsjökli eru um 15 sigkatlar og er eldkvikan um 1200 gráðu heit og á um 1,5 kílómetra dýpi.

 

Eyjafjallajökull hefur haldið áfram að rísa og sagði Magnús að ef þróunin í Eyjafjallajökli héldi áfram gæti það endað með eldgosi og Kötlugos gæti jafnvel fylgt í kjölfarið. Ekki væri gott að fá Kötluhlaup að sumri til þegar mesta umferðin er um svæðið og á hringveginum og ef af hlaupi verður gæti það jafnvel farið niður Sólheimasand í stað Mýrdalssands og líta þyrfti á allt svæðið frá Hvolfsvelli til Kirkjubæjarklausturs sem hættusvæði.

 

28. fundur - 24. jan. 2000 

Kynning á SÍF hf.: Gunnar Örn Kristjánsson forstjóri SÍF hf. hélt starfsgreinaerindi. Gunnar er löggiltur endurskoðandi og varð forstjóri SÍF í árið 1994 þegar félaginu var breytt úr sölusamtökum í almenningshlutafélag.

 

SÍF er stofnað árið 1932 af saltfiskframleiðendum en starfar nú við að framleiða og selja fisk undir eigin vörumerkjum um allan heim. SÍF og Íslenskar sjávarafurðir hf. voru sameinuð 1. júlí 1999 og mynda ásamt SH eitt af tveimur stærstu fyrirtækjum á Íslandi á sviði sölu sjávarafurða.Ársvelta SÍF er í dag um 50 milljarðar og er starfsmannafjöldi félagsins um 1700, þar af eru 1570 sem starfa erlendis.

Gunnar sagði að markmiðið með sameiningu SÍF og ÍS sé að skapa sterkt fyrirtæki með breiða vörulínu, vörumerki félagsins verði markvisst byggð upp og stefnt er að aukinni sölu erlendis ásamt því að samlegðaráhrifin leiði til hagræðingar og aukins hagnaðar.

SÍF er með starfsemi út um allan heim m.a. er það með verksmiðjur í Bandaríkjunum og Frakklandi og með söluskrifstofur m.a. í Þýskalandi, Japan og Brasilíu. Félagið stundar bein innkaup á hráefni og er um 50% af því erlent hráefni. Leitast er við að hafa söluleiðir sem stystar frá framleiðanda til neytanda og selur félagið afurðir sínar beint til viðskiptavina sinna. Markviss vinna hefur að undanförnu farið í að byggja upp sterkar vörulínur sem neytendur og fagaðilar þekkja. Vörulínur hafa verið auglýstar markvisst og má þar nefna vörulínurnar ISLANDIA, Delpierre og Samband of Iceland. Margar vörutegundir heyra undir hverja vörulínu. Með öflugum vörulínum er vörunni dreift til heildsala, smásala, stórmarkaða og veitingahúsa.

 

29. fundur - 31. jan. 2000 

Uppruni íslendinga: Guðmundur G. Þórarinsson verkfræðingur sagði frá hugleiðingum sínum um uppruna íslendinga þar sem hann setur fram þá kenningur að hluti Íslendinga hafi uppruna sinn frá austur Evrópu.

 

Guðmundur sagði að Íslendingar væru eina þjóð veraldar sem væri viss um uppruna sinn, hvaðan þeir komu og hvenær. Sagan segir að hluti af Íslendingum séu afkomendur óðalsbænda sem lögðu á haf út frá Noregi á opnum bátum til að flýja harðræði Haraldar hárfagra sem varð einráður í Noregi árið 872.

 

30. fundur - 7. feb. 2000 

Íslensk erfðagreining: Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar sagði frá fyrirtækinu en markmið þess er m.a. að vinna að rannsóknum á grundvelli erfðafræði til þess að auka skilning á orsökum sjúkdóma og að nota þessa þekkingu til að bæta greiningu og meðferð sjúkdóma. Jafnframt er markmið fyrirtækisins að byggja upp öflugan líftækniiðnað á Íslandi. 

 

Kári sagði að sameiginlegur uppruni, mikil þekking og góð ættfræðileg yfirsýn gæfi Íslendingum forskot á aðrar þjóðir til að ná árangri til að finna lyf sem vinna á ýmsum sjúkdómum. Sagði hann að með nýfengnu leyfi til að starfrækja miðlægan gagnagrunn gæti fyrirtækið með hjálp öflugrar tölvutækni og tölfræðigreiningar sem ekki var til staðar fyrir nokkrum árum, nýtt sér heilsufarsupplýsingar úr sjúkraskrám til að finna lausnir á erfiðum sjúkdómum. Heilsufarsupplýsingarnar eru aldrei tengdar einstaklingnum enda er gagnagrunnurinn ætlaður til þess að safna vitneskju um hegðun sjúkdóma, ekki einstaklinga. Jafnframt munu upplýsingarnar verða til staðar sem áður hjá sjúkrastofnunum og verður gagnagrunnurinn undir eftirliti fjögurra óháðra, stjórnskipaðra nefnda, m.a. tölvunefnd.

Kári sagði að upplýsingarnar verði mun aðgengilegri á sínum upphaflega stað heldur en í gagnagrunninum og í raun sé ekki verið að brjóta neinar alþjóðlegar hefðir með því að leita ekki eftir fyrirfram samþykki sjúklinga um notkun upplýsinganna og nefni hann sem dæmi að ríkisstofnanir og ríkisstjórnir um allan heim hafi í áratuga raðir notað slíkar upplýsingar í svokallaðri þágu öryggis eða almannaheilla. Ef einstaklingum finnst brotið á sér geta þeir lögsótt fyrirtæki en erfitt er að loka ríkisstofnunum sem verða uppvísar af misnotkun persónuupplýsinga. 

 

31. fundur - 14. feb. 2000 

Nýr Rótarýklúbbur:Jón Hákon Magnússon greindi frá því að nú væri langt komið með undirbúning að stofnun annars rótarýklúbbs í Kópavogi. Þetta er blandaður klúbbur eins og skylda er með alla nýja klúbba og munu klúbbfélagar hittast á morgnanna. Stefnt er að fyrsta fundinum í mars nk.

Verkefnið „Auður í krafti kvenna“: Þóranna Jónsdóttir kynnti verkefnið „AUÐUR í krafti kvenna“ en að verkefninu standa Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og Íslandsbanki auk Morgunblaðsins og Deloitte&Touche. Háskólinn í Reykjavík annast framkvæmd AUÐAR.

 

Hlutverk AUÐAR er að nýta enn betur þann auð sem í konum býr með því að auka þátttöku þeirra í atvinnusköpun og stuðla þannig að auknum hagvexti á Íslandi. Ný fjölþjóðleg könnun sýnir sterka fylgni milli nýsköpunar og hagvaxtar og að rúmlega þriðjung hagvaxtar megi rekja til nýrra fyrirtækja. Enn fremur kemur fram að skilvirkasta leiðin til að fjölga fyrirtækjum sé að hvetja konur til atvinnusköpunar. Konur eiga á bilinu 25 - 38% fyrirtækja í löndum sem við berum okkur saman við. Aðeins 18% íslenskra fyrirtækja eru í eigu kvenna.

 

Fram kom hjá Þórönnu að margar konur hika við að taka áhættu og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd. Ástæðurnar eru margvíslegar, en veigamikill þáttur er fólginn í því, að þær treysta sér oft ekki til þess, vegna skorts á þekkingu á fjármálum og rekstri. Margar hafa því forðast þessi verkefni. Fyrir vikið fer atvinnulífið á mis við sköpunarkraft þeirra.

 

Verkefni skiptist í 6 þætti, FrumkvöðlaAUÐUR sem er ítarleg frumkvöðlanámskeið fyrir konum sem þegar hafa hafið eða hyggjast hefja atvinnurekstur, fjármálaAUÐUR, sem er námskeið til að auka hagnýta fjármálaþekkingu, leiðtogaAUÐUR, framtíðarAUÐUR sem er fyrir ungar stúlkur, dæturnar með í vinnuna, sem er þátttaka stúlkna í vinnudegi fullorðinna, og loks AUÐARverðlaunin sem eru viðurkenningar til frumkvöðlakvenna.

 

32. fundur - 21. feb. 2000 

Ástand lands og ábyrgð:Ólafur Aralds jarðfræðingur sagði frá hugleiðingum sínum um ástand landsins. Sagði hann að gróðureyðing og þá einkum á hálendi landsins væri alvarlegt mál en svo virtist sem ekkert væri hægt að gera í því og hvert stjórnvaldið bendir á annað.

 

Ólafur sagði að lög og reglugerðir um gróðuvernd bæði gamlar og úreltar og líkti þeim við sleppibúnaði fyrir hesta og búfénað á viðkvæmt landið. Sagði hann að útlendingar sem kæmu upp á hálendi ættu erfitt með að trúa því að land hér hefði verið skógi vaxið á 16. öld. Menn spyrja sig hvernig hægt er að ætlast til að þriðja heims lönd geri úrbætur í gróðureyðingarmálum ef Ísland sem er með ríkari löndum heims hefur ekki bolmagn til þess.Sagði hann aðal vandamál hálendisins væri beitin, það væri verið að beita fullkomlega óbeitarhæf svæði og að lögin væru þannig gerð að sá er misbíður landinum nýtur vafans. Taldi hann t.a.m. að fjölgun hrossa væri alvarlegt gróðurfarslegt vandamál og hægt væri að minnka vandann með því að setja skatt á hrossaeign.

 

Ólafur sagði að helstu leiðir til úrbóta væru ný og skýrari lög þar sem tekið er fram skýrari ábyrgð sveitarfélaga á málinu. Friða þarf landið fyrir beit og í stað hefðbundinnar sáningar með áburði væri hægt að búa til litlar eyjar í landinu þar sem gróður er með sínum náttúrulega hætti og láta eyjarnar vaxta og styrkjast á nokkrum áratugum.

 

33. fundur - 28. feb. 2000 

Guðjón Friðriksson - starfsgreinaerindi:Guðjón Friðriksson hélt starfsgreinaerindi og sagði að menn þyrftu að vera metsöluhöfundar til að geta lifað á rithöfundarstarfinu einu saman. Nefndi hann sem dæmi að hann var um 2 ár að skrifa ævisögu Einars Benediktssonar sem seldist í 8.000 einstökum og fékk hann um 10% af heildarverði bókarinnar. 

 

Guðjón sagði að ævisögur væru hans sérgrein og að hann hefði metnað til að vanda sig í gagnaöflun. Taldi hann margar ævisögur ekki mikils virði og sagði þær minna meira á upphafnar helgisögur því þær væru oft skrifaðar af hagsmunaaðilum. Sagði hann erlendar ævisögur oftar vera upphafnar og sagði að mönnum sem gnæfa hátt fylgir stundum langir skuggar. 

 

Guðjón sagði að ævisagnaritun væri oft einmannalegt starf og sagði hann starfið þrískipt, þ.e. rannsókn og söfnun heimilda sem tekur langan tíma og síðan að flokka heimildir vandlega niður eftir ákveðnu kerfi þ.e. í tölvu með stykkorðum. Guðjón sagðist gefa sér góðan tíma í skipulag því það væri mjög vinnusparandi. Síðan í þríðja lagi koma skrifin sjálf. Guðjón sagði að endingu mikilvægt í ævisöguritun að fara á staðina þar sem viðkomandi var og reyna að upplífa staðina og skila því í sjálfu verkinu.

 

34. fundur - 6. mars. 2000 

Sjúkrahúsmál:Magnús Pétursson forstjóri Landsspítalans og Sjúkrahúss Reykjavíkur greindi frá þróun sjúkrahúsmála. Magnús tók við starfinu fyrir um einu ári og ber hið nýja sameinaða sjúkrahús nafnið Landsspítali- Háskólasjúkrahús og er starfsmannafjöldi þess um 5.000. 

 

Magnús sagði að sameiningarferlið hefði gengið hægt en ýmislegt hefði áunnist í hagræðingu t.d. hafa æðaskurðlækningar verið sameinaðar á einum stað. Sameiningin er talin skynsamlegur kostur m.a. vegna sérhæfingar lækna. Ennig er meira um alþjóðlegt samstarf sem heppilegt er að stýra í stærri rekstrareiningu. Tækniframfarir og nýjungar eru miklar. 

 

Sjúkrahúskomum fjölgar almennt um 10% á ári en slysadeildin sker sig úr með um 14% aukningu milli ára og er ekki vitað um ástæðu þess. Þjónusta sjúkrahúsa hefur aukist á höfuðborgarsvæðinu en samdráttur hefur orðið úti á landi. Samkeppni er t.d. við sjúkrahúsin frá læknamiðstöðvum í ýmsum greinum læknisþjónustu og brátt verður einnig um samkeppni að ræða við erlend sjúkrahús. 

Tengsl við Háskóla Íslands eru mikilvæg vegna rannsókna og eru nú hafin tengsl við einkafyrirtæki. Jafnframt er í farvatningu að gera þjónustusamninga við ýmsa aðila, bæði innan og utan sjúkrahússins. 

 

35. fundur - 13. mars. 2000 

Skýrsla Rauða Krossins um þá sem minna mega sín:Helga Halldórsdóttir þjóðfélagsfræðingur og kennari fjallaði um framangreinda skýrslu sem gerð var til þess að hægara væri að forgangsraða verkefnum. 

 

Rauði Krossinn sinnir ýmsum velferðamálum, fræðslu og forvarnastarfi og starfar hann í ýmsum deildum. Skýrslan er byggð á viðtölum við sérfræðinga, spurningalistum og símaviðtölum samkvæmt slembiúrtaki. Rauði Krossinn styrkir menntun einstæðra foreldra og þá hópa sem verst eru settir þar með talið láglaunafólk og geðfatlaða. Árið 1998 voru 7.800 öryrkjar á Íslandi. Um 1.000 ellilífeyrisþegar búa við bág kjör. 

 

Meðal láglaunafólks eru einstæðar mæður og forsjárlausir feður. Hjá tekjulitlum barnafjölskyldum vill verða menntunarskortur, einkum á landsbyggðinni. Miklir fordómar eru enn gagnvart geðfötluðum einstaklingum og standa fatlaðir karlar verr en konur og má segja að geðfatlað fólk passi hvergi í kerfið. Fleiri karlmenn finna til einsemdar en konur og er þetta fólk á gráu svæði því það á oft erfitt með að takast á við daglegt líf. Samfélagið er ekki barnavænt og staða fátækra barna hefur versnað. Um 45% framhaldsskólanema hætta námi og er það hærra hlutfall en í nágrannalöndunum. Nýbúar eiga erfitt með að komast á vinnumarkað vegna tungumálaerfiðleika og lítill stuðningur er við misþroska börn. Velmegun er á Íslandi en bilið hefur breikkað milli efnaðra og þeirra sem minna mega sín. 

 

36. fundur - 20. mars. 2000 

Ellen Ingvadóttir - starfsgreinaerindi:Ellen Ingvadóttir löggiltur skjalaþýðandi og dómtúlkur flutti starfsgreinaerindi. Ellen rekur eigið fyrirtæki ?Þýðing og textaráðgjöf? og veitir ráðgjöf í túlkun og þýðingum. 

 

Með löggiltri þýðingu er átt við þýðingu sem þarf að standast fyrir dómstólum. Ellen sagði starfið vera fjölbreytilegt og eru viðskiptavinir hennar úr öllum geirum þjóðfélagsins. Fyrir utan löggiltar þýðingar og túlkun í dómsmálum er mikið þýtt af ýmsu öðru efni t.d. auglýsinga, kynningarefni, ræður ofl. 

Ellen sagði mikilvægt fyrir ímynd fyrirtækja að upplýsingar frá þeim séu á góðu og læsilegu máli. Þýðendur hafa tekið tölvutæknina í sína þjónustu en þó að til séu forrit sem þýða beint frá einu máli á annað, verður það aldrei viðunandi án þess að góður þýðandi komi þar nærri. 

 

Ráðstefnutúlkun er vaxandi þjónusta hér á landi. Aðallega er túlkað úr ensku og norðurlandamálum en einnig úr þýsku og frönsku og í minna mæli úr öðrum málum. Þekking og kunnátta í norðurlandamálum virðist fara þverrandi. Á ráðstefnum er nauðsynlegt að hafa sérstakan búnað vegna túlkunar. 

 

37. fundur - 27. mars 2000 

Kvöldfundur um innra starf klúbbsins.

 

38. fundur - 3. apríl 2000 

Smíði og sigling víkingaskipa:Gunnar Marel Eggertsson skipasmíðameistari flutti erindi dagsins, en hann hefur staðið fyrir smíði víkingaskipsins Íslendings sem ætlunin er að sigla yfir Atlantshafið í sumar. Gunnar hefur tekið þátt í siglingum, m.a. með Gaiu frá Noregi til Íslands og þaðan til Ameríku og alla leið til Río í Brasilíu. Það tók 12 mánuði að smíða Íslending en til forna tók einn vetur að smíða eitt skip óháð stærð. Íslendingur er besta eftirlíking af Gauksstaðaskipinu sem gerð hefur verið. Hann er gott sjóskip, tekur t.d. ekki inná sig sjó þegar siglt er í stórsjó. Hann er langskip sem var stríðsskip víkingatímans og er sveigjanlegt og svignar í öldugangi. 

 

Lagt verður af stað frá Reykjavík 17. júní til Hvammsfjarðar og þaðan til Grænlands en áætlaður komutími þar er 15. júlí, en komið verður við á ýmsum stöðum á Nýfundnalandi og víðar, m.a. í Boston og ferðinni mun síðan ljúka í New York. Í áhöfn skipsins verða 9 manns. 

 

Að endingu sagði Gunnar að mörg nútímaskip væru verri sjóskip en langskip víkinganna og virtist honum sem menn hefðu ekki tileinkað sér vitneskju víkinganna um lögun skipa og önnur atriði sem áhrif hafa á sjóhæfni. 

 

39. fundur - 10. apríl 2000 

Inner Wheel:Alma V. Sverrisdóttir umdæmisstjóri Inner Wheel sagði frá félaginu en Inner Wheel er félagsskapur eiginkvenna rótarýfélaga og var stofnað í Englandi árið 1924. Árið 1973 var stofnaður Inner Wheel klúbbur í Reykjavík og sagði Alma að félagar væru nú um 103.000 í 97 löndum og er fjöldi klúbba í heiminum um 3.500. Á Íslandi eru nú starfræktir 8 klúbbar og félagar eru um 330. 

Inner Wheel eru sjálfstæð félagsamtök óháð Rótarý og hætta konur ekki að vera félagar þó til skilnaðar komi við maka. Sagði Alma að konur væru á eigin forsendum í Inner Wheel en ekki á forsendum makans. Haldnir eru 7 - 8 fundir á ári með fríi yfir sumartímann og ekki er um skyldumætingu að ræða. 

Fyrirmynd af félagsstarfinu er sótt til Rótarý og er byggt á einkunarorðum fyrir hvert ár með það m.a. að markmiði að efla jákvæð tengsl manna á milli. Inner Wheel hefur gefið fjármuni til styrktar veikum börnum. Í Inner Wheel er lögð rík áhersla á kvennasamstarf á alþjóðavetvangi og einnig er markvisst unnið að því að bæta sjálfsmat og þekkingu kvenna. Á alþjóðaþingi Inner Wheel nýlega var ákveðið að leyfa ekki inngöngu karla í hreyfinguna og sagði Alma að lokum að markhópur Inner Wheel væri sem fyrr makar rótarýfélaga.

 

40. fundur - 15. apríl 2000 

Menningarferð.Menningarferðin hófst að Kjarvalsstöðum kl. 10.30 þar sem Eiríkur Þorláksson, félagi í klúbbnum og forstöðumaður Kjarvalsstaða, sýndi gestum listasafnið. Að því loknu var boðið upp á hádegisverð á Kjarvalsstöðum.

 

Síðan stigu gestir upp í rútu og var m.a. ekið inn í Laugarnes og niður í Skuggahverfi og sagði Guðjón Friðriksson sagnfræðingur og félagi í klúbbnum ýmsan fróðleik um Reykjavíkurborg og staðhætti meðan á ferðinni stóð. Farið var á yfirlitssýningu í Ásmundarsal og einnig var farið að skoða nýtt Listasafn Reykjavíkur við Tryggvagötu, en þar var skoðuð glerlistarsýning áður en hún var formlega opnuð almenningi. 

Komið var aftur á Kjarvalsstaði um 15.30 og var einróma ánægja með þessa menningarferð Rótarýklúbbsins Reykjavík - Miðborg.

 

41. fundur - 17. apríl 2000 

Fyrirtækið Landmat:Sveinn Baldursson forstöðumaður hjá Landmati sagði frá fyrirtækinu en það starfar á sviðið upplýsingatækni og byggir aðallega á upplýsingakerfum sem reiknar út staðsetningu hluta. Hjá Landmati hefur verið þróaður hugbúnaður sem kortleggur Ísland og Reykjavík og sem byggir ofan á erlendan grunnhugbúnaði. Með tölvugrafík má staðsetja sig hvar sem er og setja upp ýmsar tilraunir. Hjá Landmati eru teiknaðar hringmyndir „panorama“ og hönnuð þríviddarlíkön.

 

42. fundur - 8. maí 2000 

Hinir stéttlausu á Indlandi:Þorvaldur Friðriksson fréttamaður á RÚV sagði frá ferð sem hann fór ásamt fólki frá Hjálparstofnun kirkjunnar til mið- og suður Indlands. Erindið var að hitta samstarfsaðila til margra ára við að byggja upp hjálparstarf fyrir hina stéttlausu en aðalmarkmið hjálparstarfsins er að leysa þrælabörn úr ánauð. Á Indlandi eru 20% eða um 200 milljón manns sem tilheyra hinum stéttlausu og kallast þeir Dahlítar og eru þeir taldir ómannlegir. Fyrir um 30 árum voru þeir ósjáanlegir og unnu sín verk á nóttunni. Þeim er meinað að búa á sama svæði og öðru fólki.

 

Kúgunin gagnvart hinum stéttlausu er meiri en hún var gagnvart svertingjum í Suður Afríku eða fyrir þrælastíðið í Bandaríkjunum. Ástæðan er sú að þetta er bundið í trúarbrögðunum og segjast Indverjar því ekki geta gert neitt í þessu.Þetta þrælahald gagnvart stéttleysingjunum er með allra verstu mannréttindabrotum í heiminum í dag. 

 

43. fundur - 15. maí 2000 

Lára V. Júlíusdóttur forseti klúbbsins sagði frá ferð sem hún fór ásamt 4 íslenskum ungmennum til Georgíufylkis í Bandaríkjunum en um er að ræða starfsskipti á vegum rótarýhreyfingarinnar (Group Study Exchange). Ferðin stóð í 4 vikur eða frá 7. apríl til 4. maí sl.

 

Í ferðinni voru heimsótt fyrirtæki og stofnanir og notuðu þau tækifærið á þeim stöðum sem þau heimsóttu til að kynna land og þjóð. Sögðu þau að bandarísku rótarýfélagarnir hefðu tekið mjög vel á móti þeim og þau notið mikillar gestrisni í ferðinni.

 

44. fundur - 22. maí 2000 

Listalíf í Hallgrímskirkju í 18 ár:Hörður Áskelsson organisti í Hallgrímskirkju hélt erindi.

Hörður stiklaði á helstu tímamótum Hallgrímskirkju og sagði m.a. að árið 1986 hefði Hallgrímskirkja verið vígð og 26. október 1987 var fyrsta kirkjulistahátiðin haldin þar en hún er haldin annað hvert ár þegar listahátið er ekki haldin. Þann 13. desember 1992 var nýja orgelið vígt en allan þennan tíma hefur Listvinafélagið staðið að fjáröflun til kirkjunnar. Sagði hann að fólk og fyrirtæki hefðu styrkt orgelið með því að kaupa orgelpípurnar og hefðu nú um 3500 pípur af um 5500 selst. Hörður sagði að orgelið væri vel þekkt meðal tónlistarfólks erlendis og á hverju ári koma organistar hvaðan að úr heiminum til Hallgrímskirkju til að spila á orgelið. Í tengslum við þetta hafa verið skipulögð sumarkvöld við orgelið og hafa ferðamenn einkum farið á þessa tónleika. Árið 1996 var Kammerkór Hallgrímskirkju stofnaður og hefur hann hreppt kóraverðlaun erlendis. Árið 1997 kom síðan nýtt hljómborð við orgelið.

45. fundur 29. maí 2000.

 

Evran, krónan og framtíðin:Þórður Friðjónsson Þjóðhagstofustjóri fór yfir aðdraganda að stofnun Myntbandalags Evrópu, reynsluna af því, efnahagsleg áhrif evrunnar og niðurstöður sínar varðandi evrunar og krónuna.

 

Þórður sagði að 4 valkostir væru fyrir Ísland. Í fyrsta lagi fastgengisstefna, þ.e. núverandi myntkarfa með einhliða eða tvíhliða tengingu við evruna. Í öðru lagi fljótandi gengi sem ræðst á markaði, í þriðja lagi myntráð sem felur í sér fast samband milli innlends og erlends gjaldeyris og að lokum í fjórða lagi að taka evruna upp sem lögeyri en þá þyrfti Ísland líklega að vera aðili að ESB.

 

Niðurstaða Þórðar var að hann taldi líklegt að Evran yrði sameiginlegur gjaldmiðill allra ESB ríkja innan fárra ára. Ef Ísland stendur fyrir utan, þá er gengisáhætta og vaxtamunur til staðar sem hægt væri að minnka með því að greiða niður erlendar skuldir og etv. stofna einhvers konar jöfnunarsjóð eins og Norðmenn hafa gert. Taldi Þórður mikilvægt að markaðsvæða fjármálakerfi þjóðarinnar enn frekar og sagði að margt mælti með að hægt verði að óbreyttu að taka upp evruna á árabilinu 2005 - 2010.

 

46. fundur - 5. júní 2000 

Helgi Hafliðason félagi í klúbbnum sagði frá áhugamáli sínu sem er að kveðast á við vin sinn. Sagði Helgi að mislangur tími færi í að semja vísurnar en vinur hans væri yfirleitt snöggur að svara honum á bundnu máli. Helgi fór með margar gamanvísur við góðar undirtektir rótarýfélaga.

47. fundur 19. júní 2000.

 

Michael S. Elliot, fararstjóri GSE hópsins sem er hér í heimsókn sagði frá heimafylki sínu, suður og vestur Georgíu og sýndi hann myndir frá heimaslóðum sínum.


Denise Wright sagði frá Atlanta höfuðborg fylkisins þar sem mörg stór fyrirtæki hafa höfuðstöðvar sínar, þar á meðal Coca Cola. Mary Margaret sagði frá norður Georgíu en þar eru m.a. fossar í stórbrotnu landslagi. De Shawn Jenkins sagði frá strandhéruðum Georgíu, en þar eru m.a. einangruð svæði sem innflytjendur frá Afríku búa á og hafa þeir varðveitt menningu sína. Að lokum söng hún negrasálma.

48. fundur - 26. júní 2000 

Gróður fyrir fólk:Björn Guðbrandur Jónsson framkvæmdastjóri samtakanna Gróður fyrir fólk sagði frá starfi samtakanna en þau einbeita sér að landgræðslu í landi Ingólfs eða á suð-vestur hluta landsins. Landsvæðið er illa farið af eldvirkni og beit og eru Suðurnesin sérstaklega fátæk af moldarjarðvegi.

Með verkefninu SKIL21 skila fyrirtækin flokkuðum lífrænum úrgangi sem tekið er til vinnslu á svæði fyrir utan höfuðborgarsvæðið þar sem efnin brotna niður undir vissum aðstæðum og út kemur MOLTA sem er tilvalið efni til ræktunar.

 

Samtökin leggja áherslu á að nota lífræn úrgangsefni í landgræðslu en þau koma m.a. frá húsdýrum, heimilum og görðum. Heildarmagn sem fellur til á ári er um 200 þúsund tonn. Sagði Björn að lífræn efni binda betur áburðarefni en ólífræn efni. Sagði hann að samtökin starfi í samvinnu við um 16 fyrirtæki og hefur Landsvirkjun m.a. lagt til vinnuafl til landgræðslu. Ávinningur verkefnisins sagði Björn m.a. vera að minnka magn úrgangs til urðunnar, draga úr gróðurhúsaáhrifum um 5 - 8% og sporna gegn gróður- og jarðvegseyðingu

 

49. fundur - 3. júlí 2000 

Stjórnarskiptafundur.