Fundir starfsárið 1998-1999
1. fundur - 6. júlí 1998
Helga Lára Þorsteinsdóttir sagði frá dvöl sinni sem Rótarý-styrkþegi í Georgíu. Hún var í litlum bæ með 8-9000 íbúum og bjó í heimavist en flutti um helgar inn á heimili einhverrar rótarýfjölskyldu. Hún stundaði nám í listum og ljósmyndum, tók virkan þátt í félagslífi skólans, eignaðist marga vini og fékk tækifæri til að skoða sig um í landinu.
2. fundur - 13. júlí 1998
Þórir Einarsson sagði frá starfi ríkissáttasemjara og skýrði frá aðferðum til að ná fram lausn í kjaradeilum. Leggja þarf mat á stöðu mála hverju sinni þannig að hægt sé að taka heppilega ákvörðun um framhaldið. Að jafnaði þarf um 10 fundi til að ljúka máli og geta síðustu fundir orðið mjög langir, allt upp í 60 klst.
3. fundur - 20. júlí 1998
Magnús Jónsson talaði um konur á sturlungaöld. Í Sturlungu og öðrum sögum er ekki alltaf sagt frá konum með jafn beinum hætti og karlmönnum og afrekum þeirra og því er nauðsynlegt að rýna vel í textann og lesa milli línanna, til að fá heillega mynd af þeim kvenpersónum sem þar koma við sögu. Hann sagði frá nokkrum konum og kom m.a. inn á þjóðfélagslega stöðu kvenna og hve mikil nauðsyn það hefði verið konu að eignast góðan eiginmann (ekki síður en nú á dögum!) og einhvern tíma hafði verið sagt: "Betra er að vera góðs manns frilla en gefin illa".
4. fundur - 27. júlí 1998
Bjarni Jónsson, listmálari, talaði um íslenska báta og sýndi myndir af þeim. Hann hefur lagt sig eftir að teikna og mála myndir af ýmsum gerðum báta og gerði m.a. teikningar í hið mikla verk Lúðvíks Kristjánssonar Íslenskir sjávarhættir. Hann greindi frá mismunandi bátalagi sem var breytilegt eftir landshlutum og notkun. (MG)
5. fundur - 10. ágúst 1998
Jóhann Hjartarson fjallaði um persónuvernd í vísindarannsóknum, varðveislu persónuupplýsinga og starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar. Stefnt er að því að búa til gagnagrunn sem byggður er á þremur þáttum: heilbrigðisskýrslum, erfðafræði og ættfræði. Lögð er áhersla á trygga varðveislu trúnaðarupplýsinga og er unnið að því að þróa tækni til að aftengja upplýsingar þannig að ekki verði hægt að misnota þær. (GFG)
6. fundur - 17. ágúst 1998
Sigurbjörn Bárðarson talaði um hestamennsku á Íslandi. 80-90 þús. hross eru hér á landi og 70-80 þús. íslenskir hestar í útlöndum. Um 1000 stöðugildi eru í kring um hestamennsku hér á landi og af henni fást bæði útflutningstekjur og tekjur af ferðamönnum sem hingað koma í hestaferðir eða vegna annars í tengslum við hesta. (GFG)
7. fundur - 24. ágúst 1998
Tómas Jóhannesson talaði um gróðurhúsaáhrif. Styrkur "gróðurhúsalofttegunda" hefur farið vaxandi á undanförnum áratugum og þær hafa áhrif á geislunarjafnvægi í andrúmsloftinu. Enn vantar þekkingu á ýmsum atriðum sem þessu tengjast en ýmislegt bendir til þess að þær kenningar sem uppi eru um gróðurhúsaáhrif geti staðist og veðurfar fari hlýnandi alla næstu öld. Marga áratugi getur tekið að snúa þessari þróun við.
8. fundur - 31. ágúst 1998
Valgarður Egilsson flutti hugleiðingar við aldarlok. Maðurinn er e.t.v ekki eins vitur og hann hefur haldið og þau ógnaröfl sem ferðinni ráða í þróuninni á jörðinni eru tækni og pólitík. Valgarður hugleiddi hvernig þjóðfélagsrýnir árið 2100 horfði á öldina sem þá verður að renna sitt skeið og kæmist e.t.v. að því að eftir miðja þá öld væri hætt að mæla alla hluti og menn farnir að gefa sér tíma til að njóta og hlakka til. Íslendingum hefði t.d. tekist ótrúlega vel að komast frá öllu þessu án þess að nota vit sitt og hefðu uppgötvað nauðsyn þess að rækta ungviði sitt.
9. fundur - 7. sept 1998
Ingvar Birgir Friðleifsson fjallaði um Esjuna og jarðfræði hennar. Esjan hefur myndast á einni milljón ára. Í henni eru 3 megineldstöðvar og í henni má greina 10 jökulskeið. Í fjallinu skiptast á hraun- og móbergslög og hafa efstu lögin samsvörun í yfirborðslögum á höfuðborgarsvæðinu. Ýmis jarðfræðileg fyrirbrigði eru vel sýnileg í fjallinu og upp á Esju eru til margar skemmtilegar gönguleiðir.
10. fundur - 14. sept 1998
Stefán Halldórsson fjallaði um upplýsingaskyldu hjá Verðbréfaþingi Íslands. Verðbréfamarkaðurinn verður sífellt stærri þáttur í þjóðarbúinu og eru verðmæti skráðra bréfa að nálgast þjóðarframleiðslu að stærð og líta má á hann sem stærsta banka landsins. Upplýsingagjöf er ein af undirstöðum trausts á verðbréfamarkaði og um hana gilda strangar reglur sem hart er gengið eftir að séu virtar, þannig að ekki eigi að vera hætta á innherjasvikum o.þ.h.
11. fundur - 21. sept 1998
Hilmar Oddsson talaði um kvikmynd sína "Sporlaust". Myndin er spennumynd byggð á hugmynd frá Jónu Finnsdóttur og Sveinbirni I. Baldvinssyni og er lögð áhersla á bæði drama og gamansemi (svarta kómedíu). Myndin var 2 ár í vinnslu og þarf 30.000 áhorfendur á Íslandi til að standa undir kostnaði. Framlag úr kvikmyndasjóði svaraði til um 1/5 hluta kostnaðar.
12. fundur - 28. sept 1998
Einar Bollason sagði frá ferðaþjónustu fyrirtækisins "Íshestar". Upphaf þessarar þjónustu við ferðamenn var um 1980 þegar farin var ferð með yfirmenn úr bandaríska hernum. 1990 tókst samstarf við þýskar og bandarískar ferðaskrifstofur um stuttar ferðir og nú er hægt að leggja upp í ferðir frá 9 stöðvum. Meira en 8000 manns hafa tekið þátt í ferðum á þessu ári. Aukning í starfseminni er nú eingöngu í dagsferðum í byggð.
13. fundur - 5. okt. 1998
Stephen Lárus Stephen kynnti í máli og myndum portrettmálun frá 15. öld til okkar daga. Stephen er sonur Karólínu Lárusdóttur, listmálara og hefur sjálfur lagt stund á málun mannamynda (portrettmálun). Hann skilgreinir portrett sem mynd af tiltekinni persónu þar sem eðliseinkenni hennar eru dregin fram. Það er t.d. ekki víst að myndin af Monu Lisu falli undir þessa skilgreiningu vegna þess að persóna hennar getur verið myndinni og hugsuninni á bak við hana óviðkomandi. Stephen sýndi litskyggnur af mannamyndum frá 15. öld fram á okkar daga og dró fram sérstök einkenni í portrettmálun frá hverjum tíma. Að lokum sýndi hann nokkrar myndir af eigin verkum.
14. fundur - 12. okt. 1998
Ragnar Atli Guðmundsson sagði frá Kringlunni í Reykjavík og stækkunaráformum þar, tengingu við Borgarleikhús og leiðum til að tryggja nægilega fjölbreytni í starfsemi verslunarmiðstöðverinnar. Áform eru um nokkrar nýjar tegundir verslana og veitingastaða.
15. fundur - 19. okt. 1998
Laufey Steingrímsdóttir starfar hjá Manneldisráði en það gefur ábendingar um heilsusamlegt mataræði og setur fram manneldismarkmið hér á landi. Í þeim markmiðum er rauði þráðurinn að draga úr fituneyslu og auka neyslu grænmetis frá því sem verið hefur, en hér á landi er t.d. minnsta grænmetisneysla í Evrópu. Um aukaefni í mat gilda mun strangari reglur hér á landi en annars staðar. (GFG)
16. fundur - 26. okt. 1998
Kristín Rafnar hélt starfsgreinarerindi. Eftir nám í viðskiptafræðum og framhaldsnám í Bandaríkjunum (í hagfræði) kom hún til starfa í Landsbanka Íslands. Hún var skráð í klúbbinn okkar sem útibússtjóri en upphaflega starfaði hún á markaðssviði, en nú gegnir hún stöðu starfsmannastjóra. Að undanförnu hefur mikil greiningar- og skipulagsvinna farið fram í bankanum með það að markmiði að hagræða í rekstri og ráða hæfasta fólkið til starfa á hverju sviði og halda við menntun starfsmanna. Einnig er lögð mikil áhersla á að skapa jafnan rétt kynjanna til stöðu og kjara.
17. fundur - 2. nóv. 1998
Niðjafundir. Egill Eðvarðsson sagði frá dvöl sinni í Georgíu sem rótarýstyrkþegi 1967 og talaði síðan um kvikmynd sem hann hefur unnið að og fjallar um svonefnd Sólborgarmál sem tengdust Einari Benediktssyni og verður myndin sýnd í sjónvarpinu um jólin.
18. fundur - 11. nóv. 1998
Bíóferð í Háskólabíó. Sýnd var myndin Elizabeth og fjallar hún um Elísabetu I, Englandsdrottningu, aðdraganda og upphaf valdaferils hennar.
19. fundur - 16. nóv. 1998
Umdæmisstjóri, sr. Sváfnir Sveinbjarnarson sótti klúbbinn heim og sagði frá Rótarýþingi sem hann sat í Anaheim í Californíu. Minntist hann á að samkennd með öðru fólki sé eitt af helstu einkennum Rótarýhreyfingarinnar og innan hennar fá margir fullnægt þörfinni fyrir félagsskap, enda var hreyfingin stofnuð til þess að menn kynntust mönnum og málefnum utan þess hrings sem er þeirra daglega umgjörð. Einnig minntist hann á Rótarýsjóðinn sem er einn af öflugustu þróunar- og hjálparsjóðum í heiminum. Taldi hann einnig nauðsynlegt að gera klúbbstarfið sýnilegra, m.a. með því að halda fundi utan hefðbundinna fundarstaða og einnig að vinna að þörfum málum þannig að hreyfingin minnti á sig um leið.
20. fundur - 23. nóv. 1998
Ragna Karlsdóttir, verkfræðingur á Orkustofnun kynnti nýjar aðferðir við jarðhitaleit á s.n. "köldum" svæðum og sýndi dæmi um jákvæðan árangur frá nokkrum stöðum þar sem búast má við að finna 60° heitt vatn á um 1000 m dýpi.
21. fundur - 30. nóv. 1998
Valgarður Sverrisson hélt starfsgreinarerindi. Hann lauk námi í viðskiptafræði og síðan framhaldsnámi í rekstrarhagfræði frá Bandaríkjunum 1986 og starfar nú hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna. Hann fjallaði um lífeyrissjóði almennt og kom inn á þær breytingar sem nú eru að verða á lögum um lífeyrissjóði og þá mismunandi kosti sem fólk getur valið um varðandi lífeyrissparnað.
22. fundur - 7. des. 1998
Páll Hersteinsson prófessor í spendýrafræðum sagði frá rannsóknum sem hann hefur stundað á lifnaðarháttum íslenska refsins s.l. 20 ár. Sýndi hann myndir frá Hornströndum og víðar þar sem hann hefir rannsakað atferli íslenska refsins. Kom fram hjá honum að óðal refsins er um 7,5 km22 og lifir hann aðallega á mófuglum og sjóreknum svartfugli. Tófan hefur ekki fjölgað sér mikið þrátt fyrir friðun.
23. fundur - 14. des. 1998
Kristín Ingólfsdóttir, lyfjafræðingur, talaði um lyf og þær leiðir sem farnar eru við framleiðslu á þeim. Meginleiðirnar eru tvær, annars vegar framleiðsla í verksmiðjum og hinsvegar fást efnin úr náttúrunni, þ.e. örverum, plöntum og dýrum. Lyf finnast annars vegar við markvissa leit og hins vegar við að rannsaka alþýðulækningar. Nefndi hún að á Íslandi eru 5-600 tegundir af fléttum sem hafa lítið verið rannsakaðar enn sem komið er en gætu hugsanlega orðið uppspretta nýrrar þekkingar og nýrra lyfja síðar meir.
24. fundur - 21. des. 1998
Félagi okkar, sr. Anna Sigríður Pálsdóttir flutti jólahugvekju og byrjaði að tala um það í hverju við líktumst foreldrum okkar og síðan börnin okkur, þannig að með því að veita þessu eftirtekt værum við minnt á að við erum öll hluti af stærri heild. Sama er að segja um venjur sem við fylgjum í lífi okkar. Út frá þessu væri gott að hugsa til þess að jólin, fæðingarhátíð frelsarans, er vitnisburður um að nýtt líf verður til sem tekur við af öðru lífi og því sem í því býr og skilar því áfram kynslóð eftir kynslóð.
25. fundur - 4. jan. 1999
Sigfús Jónsson, verkefnisstjóri skipulags á höfuðborgarsvæðinu, talaði um nauðsyn þess að samræma all skipulag í þeim 8 sveitarfélögum sem eru á nefndu svæði. Þetta þarf að gera til þess að ekki séu allir að vinna í því sama, heldur sé öllum þáttum skipulags og umhverfis sinnt innan einnar samræmdrar heildar. Taka þarf tillit til ótal þátta, svo sem félagslegra, efnahagslegra, tæknilegra, og ýmissa umhverfisþátta sem nú fá sífellt meira vægi í umræðu um skipulagsmál.
26. fundur - 11. jan. 1999
Sigríður Snæbjörnsdóttir hélt starfsgreinarerindi. Hún lærði svæfingarhjúkrun og hélt síðan til framhaldsnáms í Bandaríkjunum og lauk þaðan BS-prófi 1984 og MS-prófi í stjórnun 1984. Hún er hjúkrunarforstjóri á Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Fjallaði hún síðan um hjúkrunarstarfið sem er sjálfstæð fræðigrein, sambland hugvísinda og raunvísinda. (MG)
27. fundur - 18. jan. 1999
Tumi Tómasson, skólastjóri Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna, sagði frá Háskóla SÞ, en sjávarútvegsskólinn er ein grein á meiði hans. Markmið HSÞ er að koma framlagi háskólasamfélagsins á framfæri til eflingar þróunar í heiminum. Þetta er gert með því að stofna sérstaka rannsóknardeildir, halda ráðstefnur og halda úti sérstökum "skólum" vegna tiltekinna verkefna. Námið í skólanum tekur mið af þeim aðstæðum sem nemandinn býr við og þekkir og er það verkefnistengt í meira mæli en gengur og gerist í háskóla.
28. fundur - 25. jan. 1999
Stefán Eggertsson, formaður áhugamanna um byggingu tónlistarhúss, talaði um væntanlegt tónlistarhús í Reykjavík og rakti í stuttu máli sögu þessa máls frá því að samtökin voru stofnuð árið 1983 og fram til dagsins í dag, þegar uppi eru áætlanir um að byggja tónlistar- og ráðstefnuhús ásamt stóru hóteli í miðbæ Reykjavíkur.
29. fundur - 8. feb. 1999
Kristrún Víkingsdóttir sagði frá dvöl sinni í Equador þar sem hún dvaldist 1997-8 sem skiptinemi á vegum Rótarýhreyfingarinnar. Eftir nokkra erfiðleika í upphafi, fór allt að ganga betur þegar hún hafði fengið vist hjá nýrri fjölskyldu. Hún ferðaðist talsvert, m.a. á Amazonfljóti og til Galapagoseyja.
30. fundur - 15. feb. 1999
Kristján Jóhannsson fjallaði um starfsskilyrði kvikmyndagerðar á Íslandi. Kom hann inn á marga þætti sem taka þarf tillit til við kvikmyndagerð hér á landi . Benti hann á að innlendur markaður gæti ekki einn staðið undir kvikmyndagerð og því þyrfti að komast inn á stærri markað og leggja jafnframt áherslu á söguefni og sögusvið sem hefði sérstöðu.
31. fundur - 22. feb. 1999
Jón Ásgeir Jónsson sagði frá skiptinemastarfi Rótarýhreyfingarinnar, en markmið þess er að auka kynni og efla skilning milli manna og þjóða. Skiptinemum er gert að kynna sitt eigið land þar sem þeir dveljast og oft verða þessi skipti til þess að fólk eignast góða vini sem það heldur sambandi við ævilangt.
32. fundur - 1. mars. 1999
Herdís Storgaard, framkvæmdastjóri átaks til fækkunar slysum á börnum og unglingum, kynnti starf sitt, sem fólgið er í því að gera úttekt á slysum, skipta þeim í flokka og vinna síðan að tillögum til varnaraðgerða. Samþykkt var að hefja átak þetta 1997 og hefur það hlotið nafnið Aðgát.
33. fundur - 9. mars. 1999
Klúbbþing, kvöldfundur, þar sem innri mál klúbbsins voru rædd.
34. fundur - 15. mars. 1999
Páll Ólafsson hélt starfsgreinarerindi. Hann lauk prófi í byggingarverkfræði frá Karlsruhe 1960. Hefur hann unnið á sviði virkjana- og raforkumála, enda verið starfsmaður Landsvirkjunar frá stofnun hennar árið 1965. Páll fór yfir þróun orkumála hér á landi og skýrði frá þeim kostum sem eru til virkjana á næstu árum.
35. fundur - 22. mars. 1999
Heimsókn í Þjóðarbókhlöðu þar sem við nutum leiðsagnar Einars Sigurðssonar landsbókavarðar og Þorsteins Hallgrímssonar, aðstoðarlandsbókavarðar. Sýndu þeir okkur húsið og skýrðu frá starfsemi safnsins, m.a. hvernig það hefur nýtt sér nýjustu tölvu- og fjarskiptatækni m.a til að koma handritum inn á internetið, svo skoða megi þau hvar sem er í heiminum.
36. fundur - 29. mars. 1999
Björg Pálsdóttir sagði frá hjálparstarfi erlendis. Hún hefur starfað hjá Rauða krossinum í 15 ár og margoft verið send til stríðssvæða til hjálparstarfa. Aðstæður eru oftast mjög erfiðar og reynir starfið á andlegt og líkamlegt þrek manna. (GFG)
37. fundur - 12. apr. 1999
Hrólfur Jónsson, slökkviliðsstjóri, sagði frá slökkviliði Reykjavíkur en saga þess nær aftur til innréttinga Skúla fógeta. Auk slökkvistarfs sinnir slökkviliðið sjúkraflutningum og inna vébanda þess er eldvarnaeftirlit sem gerir úttekt á atvinnuhúsnæði og stofnunum og stendur fyrir úrbótum ef með þarf. 5 ár tekur að þjálfa hvern slökkviliðsmann og fer þjálfunin að nokkru leyti fram erlendis.
38. fundur - 19. apr. 1999
Guðrún Fjóla Gränz hélt starfsgreinarerindi. Hún er viðskiptafræðingur að mennt og hefur að undanförnu starfað sem fjármálastjóri hjá Þjóðminjasafni Íslands en er nú í leyfi um skeið vegna starfa við tímabundið verkefni vegna hátíðahalda o.fl. í tilefni af kristnitöku á Íslandi. Sagði hún frá starfsemi Þjóðminjasafnsins og einnig frá nokkrum viðburðum sem hér verða vegna kristnitökuafmælisins.
39. fundur - 26. apr. 1999
Ólafur Elíasson, píanóleikari, talaði um tónlist og sagði frá námskeiðum sem hann hefur haldið til þess að opna heim tónlistarinnar fyrir fólki. Tekur hann fyrir valin tónverk og fjallar um helstu atriði sem varða stíl, form, uppbyggingu og listrænt gildi sígildra tónverka. Lék hann nokkur tóndæmi við mikla hrifningu áheyrenda.
40. fundur - 6. maí 1999
Leikhúsferð í Iðnó (hádegisleikhús). Sáum einþáttunginn "Leitum að ungri stúlku" eftir Kristján Þórð Hrafnsson og voru leikendur Linda Ásgeirsdóttir og Gunnar Hansson.
41. fundur - 10. maí 1999
Margrét Rún Guðmundsdóttir, kvikmyndagerðarmaður, sagði frá því hvernig kvikmynd verður til og nefndi fjölmarga þætti þar að lútandi. Hún vinnur nú í samvinnu við þýska aðila að gerð myndar um Sölva Helgason - Sólon Islandus og er áætlað að frumsýna hana árið 2001 eða 2.
42. fundur - 17. maí 1999
Þórhildur Líndal hélt starfsgreinarerindi. Hún lauk laganámi 1977, vann við dómarastörf, var deildarstjóri í félagsmálaráðuneyti og forsætisráðuneyti og hefur síðan gegnt starfi Umboðsmanns barna síðan 1995, eða frá því það embætti var stofnað. Hún skýrði frá því hvernig embættið hefur þróast og helstu málum sem koma til kasta þess.
43. fundur - 31. maí 1999
Árni Bragason, forstjóri Náttúruverndar ríkisins, talaði um náttúruvernd í víðu samhengi og skýrði einnig frá hlutverki Náttúruverndar ríkisins og áætlunum um umgengni við landið, friðun svæða, stýring ferðamanna um viðkvæm svæði, virkjunarmál o.fl. Eitt af markmiðum náttúruverndar er að nýta jörðina með skynsamlegum hætti þannig að henni sé skilað jafngóðri eða betri til næstu kynslóðar.
44. fundur - 5. júní 1999
Suðurnesjaferð undir leiðsögn Jóns Böðvarssonar.
45. fundur - 14. júní 1999
Esther Guðmundsdóttir hélt starfsgreinarerindi. Hún lauk námi í þjóðfélagsfræði 1975, hefur unnið á ýmsum stöðum en hefur undanfarin ár gegnt sarfi framkvæmdastjóra Slysavarnafélags Íslands. Tilgangur SVFÍ er að sporna við hvers konar slysum og hjálpa þeim sem lenda í háska. Starfsemi félagsins skiptist í fræðslustarf og björgunar- og hjálparstörf. (MG)
46. fundur - 21. júní 1999
Hanna Kristín Guðmundsdóttir hélt starfsgreinarerindi. Hún rekur hársnyrtistofuna Kristu og hefur nú fært út kvíarnar með opnun nýrrar stofu. Einnig hefur hún með höndum innflutning á snyrtivörum. Hún hefur starfað mikið í félagsmálum og fram til þessa hefur hún brautskráð 60 nema í hárgreiðslu og með þeim hætti hefur draumur hennar um að kenna ræst. (MG)
47. fundur - 28. júní 1999
Stjórnarskiptafundur.