Vesturheimur 2002

Ferð klúbbsins til Vesturheims 2002

Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar hélt til Nýja Íslands, til norðurhéraða Bandaríkjanna og Kanada 1.-9. ágúst 2002. Alls voru ferðafélagarnir 48 og fararstjóri var Almar Grímsson en aðrir í ferðanefnd voru Guðni Gíslason, Gunnhildur Sigurðardóttir og Páll Pálsson. Jón Guðmundsson var með í ferðanefndinni en hann lést nokkru áður en lagt var í ferðina.

Dagskrá:

1. ágúst
fimmtudagur

kl. 16.35: Brottför til Minneapolis með FI653. Gott er að mæta mjög tímanlega til innritunar. Ekið með langferðabíl áleiðis til N Dakóta og gist í Days Inn í Alexandria MN (ca. 2 ½ klst. frá Minneapolis). Days Inn.

2. ágúst
föstudagur

kl. 09.30 Skoðað Runestone Museum í Alexandria, komið við í Hjemkomst Center í Moorehead/Fargo.og svo haldið til Grand Forks; N Dakóta og gist í 2 nætur í Roadking Inn. Kvöldið er frjálst. Roadking Inn  (einnig næstu nótt)
3. ágúst
laugardagur
kl. 08.00: Ekið til hátíðahalda í Mountain. Tekið þátt í skrúðgöngu dagsins og rætt við heimafólk. Kynnisferð um Íslendingabyggðir í N Dakóta undir leiðsögn Magnus Olafson. Kvöldverður á dvalarheimilinu Borg kl. 1800 og svo ekið til baka til Grand Forks.
4. ágúst
sunnudagur
kl. 08.30: Haldið til Winnipeg. Áætluð koma þangað um kl. 1300. Hádegisverður á The Round Table. Síðdegi og kvöld á eigin vegum.Gist í 4 nætur í Quality Inn; Pembina Highway. Quality Inn
5. ágúst
mánudagur
kl. 07.30: Íslendingadagurinn í Gimli. Tekið þátt í skrúðgöngunni og hinum ýmsu viðburðum dagsins. Komið aftur til Winnipeg um kvöldmatarleytið.
6. ágúst
þriðjudagur
kl. 08.30: Farið í kynnisferð um “Nýja Ísland” ? Gimli, Arnes, Riverton, Arborg og Mikley (Hecla Island). Leiðsögn Stefan J. Stefanson. Kvöldverður og Rótarý fundur í Gimli ásamt Rótarýklúbbunum í Gimli og Selkirk.
7. ágúst
miðvikudagur
Winnipeg. Morgun frjáls: Kl. 12.10 Fundur í Rótarýklúbbi Winnipeg (elsti klúbbur utan Bandaríkjanna). Að fundi loknum skoðunarferð um söguslóðir í Winnipeg. Leiðsögn Neil Bardal ræðismaður. Síðdegismóttaka hjá Eiði Guðnasyni aðalræðismanni og frú Eygló Haraldsd. Kvöld frjálst.
8. ágúst
fimmtudagur
kl. 09.00: Brottför til Minneapolis. Á leiðinni er upplagt að bera saman bækur í gegnum hljóðnema rútunnar. Þetta er löng dagleið og verður stansað eftir atvikum til að rétta úr sér, nærast og sinna tæknilegum þörfum.Gist á Holiday Inn, Bloomington. Holiday Inn, Bloomington.
9. ágúst
föstudagur
Í Minneapolis St. Paul. Flogið heim að kvöldi með FI652. Nokkrir ferðafélagar halda áfram á eigin vegum til ýmissa áfangastaða.


Ferðasagan

1. ágúst, fimmtudagur

Efirvæntingarfullir ferðalangar hófu ferðina á Rótarýfundi í Gaflinum og héldu þaðan með rútu út á flugvöll þar sem fleiri bættust í hópinn, alls 44 manns. Ferðin til fyrirheitna landsins var hafin og allir hressir og kátir.

Tveir hafnfirskir flugmenn, þeir Erlendur Guðmundsson og Bjarni Berg, lentu með okkur mjúklega á St. Paul flugvelli í Minneapolis eftir rúmlega 6 tíma flug. Allir voru prúðir á leiðinni og að sjálfsögðu barði enginn flugfreyjur eins og gerst hafði 2 dögum áður í sama flugi.

Fjórir félagar bættust í hópinn í Minneapolis, Don Rudolph, bílstjórinn okkar var mættur og var nú haldið til Alexandria þar sem gist skyldi fyrstu nóttina.

Á leiðinni var stoppað í St. Stephen, sem er smábær og borðaður kvöldverður á „týpískum“ amerískum stað. Þarna vorum við stödd í miklu landbúnaðarhéraði, þar sem mikil áhersla er lögð á mjólkurafurðir. Íbúar eru margir af sænskum, finnskum, júgóslavneskum og pólskum uppruna. „Vertinn“ á veitingastaðnum tók á móti hópnum og stór borði var á vegg inni á staðnum þar sem stóð „Welcome Icelanders“ og okkur hlýnaði um hjartarætur. Kolniðamyrkur var skollið á, þegar við héldum áfram og vakti það athygli okkar að lítið var um götulýsingar. Einhverjum varð að orði að það þyrfti að fara til Ameríku til að sjá störnubjartan himin, því það væri varla hægt heima lengur vegna oflýsingar á jörðu niðri. Þreyttir Hafnfirðingar voru fegnir að komast á svefnstað, hótelið Days-Inn í Alexandria og allir fegnir að komast í bólið enda langur dagur fyrir höndum.

Fararstjórnin, Almar, Guðni, Gunnhildur og Páll voru með alla hluti á hreinu og allt gekk eins og í sögu fyrsta daginn.

2. ágúst, föstudagur.

Eftir góða hvíld og morgunverð var ferðinni haldið áfram áleiðis til Grand Forks í Norður-Dakóta.

Fyrst skoðuðum við þó Runestone Museum í Alexandríu. Þar er hinn frægi Kensington rúnasteinn sem m.a. var sýndur á víkingasýningunni í New York fyrir 2 árum. Þessi steinn hefur verið umdeildur en sagt er að bóndasonur einn hafi fundið hann í rótum trés sem hann var að fella árið 1898 og samkv. því sem segir á steininum er hann frá árinu 1362. Margir trúa þessu ekki og þykir ólíklegt að víkingar hafi verið svona langt inni í landi. Sérfræðingar á Smithsonian-safninu í Washington hafa þó lagt blessun sína á steininn og gerir þar sögu steinsins trúverðugri.

Við fórum líka í amerískarn súpermarkað til að birgja okkur upp af vatni og flugnafælu.

Síðan lá leið okkar um akra og mikið flatlendi sem ekki var laust við að minnti á evrópskt að bara danskt landslag.

Í bænum Fergus Falls fóru Þórunn og Halli af til að heimsækja kunningja en við hin héldum til bæjarins Moorhead þar sem við fórum á svokallað Hjemkomst Center og skoðuðum víkingaskip og norska stafkirkju. Skömmu síðar fórum við yfir Rauðá (Red river) og vorum þar með komin í annað fylki, Norður-Dakóta og bærinn Fargo er þar á fylkismærum, en margir könnuðust við hann úr samnefndri bíómynd þeirra Cohen-bræðra. Í kringum Rauðána er jarðvegur afar frjór og aðstæður afar góðar til ræktunar og því sóttu margir íslenskir landnemar þangað úr baslinu á Nýja-Íslandi í Kanada. Við sáum endalausa akra af ýmsum gerðum t.d. maís-, soyabauna-, sólblóma-, hveiti-, rúgakra o.fl.

Mikil leit var gerð að almennilegu kaffi á leiðinni, en það hafði verið óttalegt lag fram að þessu. En þrátt fyrir ákall og söng til kaffiguðsins reyndist það ófáanlegt.

Við komum til Grand Forks um 5-leytið og fóru margir í Columbia Mall við hliðina á hótelinu og litu dýrðina þar augum. Ekki fer sögum að mikilli verslun. Fólk fór svo út að borða um kvöldið á ýmsa staði í nágrenninu.

Veðrið var frábært og allir glaðir.

3. ágúst, laugardagur.

Dagurinn var tekinn snemma því við þurftum að vera í Mountain, þangað sem förinni var heitið, kl. 9.30 og um 1 ½ tíma akstur er þangað frá Grand Forks.

Árleg Íslendingahátíð fór fram þennan dag í Mountain, sem er agnarlítil Íslendinganýlenda, en auk þess voru Íslendingar landnemar á stórum svæðum í kringum bæinn. Nafngiftin á bænum er sérstök í allri flatneskjunni en kunnugir segja örlitla hækkun í landslaginu á þessum slóðum sem skýrir nafnið. Á leiðinni til Mountain rákumst við á fleiri örnefni sem gáfu til kynna landnám frá öðrum Evrópulöndum, svo sem München, Oslo og Warsaw o.fl.

Það vakti athygli okkar að áður en komið er í bæinn blasir við skilti þar sem á stendur „Welcome to Mountain ? Icelandic Community“.

Hátíðahöldin fóru þannig fram að um aðalgötu, eða eiginlega einu götu bæjarins aka alls kyns farartæki, full af fólki og mikið skreytt á ýmsan hátt og maðfram götunni stendur fólk og fylgist með og fagnar. Rótarý-félagar fengu sérmerktan vagn og voru með í skrúðgöngunni eða „parade“ upp á ensku. Á staðnum voru einnig harmónikuleikarar úr Harmónikufélagi Reykjavíkur og voru þeir á öðrum vagni og spiluðu á harmónikur sínar. Ekki má gleyma biskupi Íslands Karli Sigurbjörnssyni og frú, sem þarna voru stödd og voru keyrð í sérstökum bíl, afar hátíðlegt.

Að þessu loknu eyddum við nokkrum tíma í að ganga um og tala við fólk, sérstaklega eldra fólkið sem sýndi okkur mikinn áhuga. Á elliheimilinu Borg var móttaka og þar talaði biskupinn og harmónikuhljómsveitin spilaði og síðan var öllum boðið í kaffi. Nokkrar konur í hópi okkar voru í íslenskum búningum, ver annarri glæsilegri og vöktu þær að sjálfsögðu mikla eftirtekt og aðdáun.

Þessu næst fórum við í kynnisferð um svæðið undir leiðsögn Magnusar Olafsonar sem er potturinn og pannan í öllu starfi Íslendinga á þessum slóðum. Biskupshjónin slógust í för með okkur. Magnus þekkir söguna afar vel, lærði hana af fpður sínum, sem var 7 ára er hann flutti hingað frá Gimli. Fyrstu Íslendingar komu hingað frá Kanada árið 1878 og var Jóhann Hallsson fyrsti landneminn en séra Páll Þorleifsson hefur þó oft verið nefndur faðir byggðarinnar hér. Íslendingar sóttu þó ekki einir hingað því talið er að 23 þjóðarbrot hafi sest að í Norður-Dakóta. Við skoðuðum kirkjuna á Görðum og það var ótrúleg upplifun að sjá íslenska áletrun á altaristöflunni og öll íslensku nöfnin á legsteinum í kirkjugarðinum. Garðasöfnuðurinn er hinn elsti á þessu svæði frá 1884. Magnus sýndi okkur líka minnismerki um Káinn sem er við Thingvallakirkju og er ljóðskáldið grafið þar í kirkjugarðinum. Að lokum fórum við með Magnusi í Icelandic State Park sem er þjóðgarður með minjum frá fyrri tíma og minnir kannski svolítið á Árbæjarsafnið. Þar eru samkomuhús, kirkja, skóli, gömul íbúðarhús og afar fallegt safn sem segir sögu landnemanna. Þetta var afar skemmtileg ferð með Magnusi og hreint ótrúlegt að hlusta á hann tala íslensku, kjarnyrta og varla með hreimi. Þó kom hann ekki til Íslands fyrr en árið 1986 fyrst.

Við snérum aftur til Mountain og borðuðum kvöldverð úti ásamt fjölda af öðru fólki. Þar töluðu Curtis Ólafsson, Karl biskup og Almar, fararstjórinn okkar, sem þakkaði fyrir okkur og gaf Magnúsi og elliheimilinu gjafir frá okkur.

Að loknum frábærum degi héldum við aftur til Grand Forks þar sem við ætluðum að gista eina nótt enn.

Það var einstök upplifun að tala við gamla fólkið á íslensku og heyra það tala íslensku þó það hafi margt aldrei komið til Íslands. Víst höfðum við heyrt um þetta heima á Fróni en það var allt annað að sjá og upplifa þetta og að sjá öll íslensku nöfnin og örnefnin alls staðar.

Það var gaman að vera Íslendingur í Mountain þennan dag og ekki laust við að maður fylltist lotningu yfir öllu því fólki sem lagði land undir fót úr baslinu á Íslandi til að leita að nýju og betra lífi í vestri.

Aldeilis frábær dagur er á enda.

4. ágúst, sunnudagur.

Lögðum af stað frá Grand Forks kl. 8.30 áleiðis til Kanada. Fólkið í stuði og var sungið og trallað. Við keyrðum gegnum Pembinasýslu þar sem við vorum í bær og bæinn Pembina sem sýslan er kennd við er við landamærin.

Greiðlega gekk að komast yfir landamærin, þó smástúss yrði þegar ekki fundust allir passar en allt gekk vel að lokum. Svo skemmtilega vildi til að tollbörðurinn, stúlka, var gift manni sem átti afa sem var Íslendingur, Þorbjörn Sigurðsson að nafni og hafði hún eftirnafnið Sigurðsson. Henni var gefin bók um Ísland og íslenski fáninn og hún afar ánægt með það.

Þessu næst stoppuðum við á þjónustumiðstöð innan við landamærin þar sem Guðni komst í tölvu og gat sent fréttir heim og við gátum lesið um rigninguna um verslunarmannahelgina heima.

Við komum til Winnipeg upp úr hádegi, bókuðum okkur með ýmsum vandkvæðum inn á hótelið og borðuðum síðan á veitingastaðnum Round Table sem er í eigu Íslendingga Þráins Kristjánssonar og Eddu Ólafsdóttur. Að öðru leyti var dagurinn grjáls og fóru sumir í golf en flestir fóru í miðbæinn, The Forks og skoðuðu iðandi mannlífið og var fólk af Indíánaættum áberandi, enda mikið um að vera hjá því, íþróttamót o.fl.

Mörg gullkorn falla í öllum rútuferðum okkar og mikið hlegið. Hér koma 2 þeirra sem féllu í morgun:

a) Halli var vígalegur með flugnaspaðann og náði nokkrum flugum og einhver sagði að hann þyrfti að þrífa eftir drápin. Þá gall í Þórunni, „Elskan mín, það kann hann ekki. Það er ekki hans deild“

 b) Áfengi tók að leka úr flösku í einu hólfinu fyrir ofan sætin og lak á prestshjónin, Eddu og Einar og varð Einar að færa sig í annað sæti á meðan og varð þá Eddu að orði: „Það varð þá vínandi sem náði að skilja okkur að.“

 Enn einn dagur að kvöldi kominn og nú er um að gera að ganga til hvílu því langur dagur er fyrir höndum á morgun, Íslendingadagurinn í Gimli og við hlökkum mikið til.

 

5. ágúst, mánudagur.

Enn og aftur fórum við snemma af stað eða kl. 7.45 til Gimli. Vorum þar um kl. 9.30. Gangan eða „parade“ hófst kl. 10. Við fengum stóran „trailer“ sem keyrði okkur og sátum við á heyböggum aftan á, öll í eins, merktum bolum með fullt af íslenskum fánum og sungum íslensk lög allan tímann. Gangan var af löng og maðfram götunum voru þúsundir manna sem fylgdist með. Á leiðinni gáfum við litlu börnunum fánana okkar og við hefðum þurft að hafa mörg þúsund fána til að anna eftirspurninni. Þetta var í einu orði sagt STÓRKOSTLEGT. Að sjá allt þetta fólk, klappandi, veifandi, kallandi til okkar á íslensku og margir sungu lögin með okkur.

Að lokinni göngu fórum við á Betel Waterfront Center, sem er stór hús þar sem eru íbúðir fyrir aldraða, safn Icelandic Heritage Museum, veitingastaður o.fl. Þar skiptu konurnar okkar 7 yfir í íslenska búninginn svo og Almar og kl. 14 vorum við mætt í Gimli Park til að taka þátt í hátíðahöldum dagsins. Hátíðardagskráin var í stórum dráttum þessi:

  • Signý og Heiða Árnason sungu þjóðsöngva Íslands og Kanada.

  • Fjallkonan Constance Carol Magnusson gekk upp á sviðið við hátíðlega athöfn og flutti síðan ræðu.

  • Tim Árnason, forseti Íslendingadagurinn bauð gesti velkomna og hélt ræðu.

  • Hjálmar W. Hannesson, sendiherra flutti kveðju frá Íslandi.

  • Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra flutti minni Kanada.

  • Timothy Samson, fulltrúi krúnunnar, flutti minni Íslands.

  • Signý og Heiða sungu lag e. Simon og Garfunkel.

  • Ron Toltana, menningar-, heilbrigðis- og ferðamálaráðherra flutti ræðu.

  • Eiður Guðnason, aðalræðismaður Íslands, flutti ræðu.

  • Howard Hilstron, þingmaður Selkirk flutti ræðu.

  • Ed Helwer, þingmaður Gimli, flutti ræðu.

  • Svava Simundsson og Sandra Sigurðsson fluttu ljóð um Ísland eftir Böðvar Jakobsson á íslensku og ensku.

  • Lillian Thomar, borgarstjóri í Winnipeg flutti kveðju frá Winnipeg.

  • Bill Barlow, bæjarstjóri í Gimli flutti kveðju frá Gimli.

  • Reeve Kevin Chudd, fulltrúi dreifbýlisins í kringum Gimli flutti sínar kveðjur.

  • Signý og Heiða sungu Sofðu unga ástin mín.

  • Arthús B. Bollason flutti kveðju og hópurinn Saga singers sungu eitt lag.

  • Signý og Heiða sungu ásamt mannfjöldanum God save the Queen og Eldgamla Ísadolf.

  • Tim Árnason sleit samkomunni, en auk þess var hann kynnir á hátíðahöldunum.

Að þessu loknu vorum við áfram á staðnum, hittum fólk og tókum þátt í öllu sem þar tór fram. Alls staðar var iðandi mannlíf, veitingasala og fleira. Reiknað er með að um 40.000 manns taki þátt í hátíðahöldunum, en aðeins 2-3000 manns búa að staðaldri í Gimli en fjölgar um helming á sumrin því mörg gömlu húsin hafa verið gerð upp sem sumarbústaðir.

Öll hittum við fólk sem talaði við okkur íslensku og mörg okkar upplifðu tilfinningaþrungin augnablik, þar sem runnu gleðitár og fólk féllst í faðma án þess að þekkjast og greinilegt að nærvara okkar annarra gesta frá Íslandi vakti athygli og ýmsar aðrar tilfinningar.

 Margt fleira gerðist þennan dag. Bjarni Þórðar átti 66 ára afmæli og var að sjálfsögðu sungið fyrir hann og fékk hann að sjálfsögðu marga kossa. Á leiðinni til Gimli sáum við víða íslenska gána blakta við hún og gaman var að sjá örnefni eins og Hnausar, Húsavík, Miklavík, Siglavík og mörg fleiri.

Á leiðinni til baka til Winnipeg komum við við á Willow Point, sem er staðurinn sem Íslendingar komu fyrst að á éssum slóðum 21. okt. 1875 og er minnisvarði þar um á staðnum.

Var það viðeigandi endir á þessum einstaka degi, sem fæst okkar hafa upplifað áður og mun aldrei gleymast neinu okkar.

 

6. ágúst, þriðjudagur.

Kl. 7.45 lögðum við af stað til að hitta Stefan J. Stefansson, 87 ára gamlan ungling, sem ætlaði að vera leiðsögumaður okkar um Nýja-Ísland. Við hittum hann í Winnipeg Beach og skömmu síðar fórum við yfir Boundry-Creek, sem er lækur á syðri mörkum Nýja-Ísland.

Stefán er flugmælskur á íslensku og ákaflega skemmtilegur og veit greinilega allt um sögu Íslendinganna hér.

Við stoppuðum fyrst við minnismerki við Willow Creek, sem reist var til minningar um 100 ára byggð Íslendinga á þessum slóðum. Á þessum slóðum er landið frjósamt en eftir því sem norðar dregur versnar það og er mikið grýttara.

Við skoðuðum fleiri minnismerki. Í Vilhjálmur Stefansson Memorial Park er minnisvarði um landkönnuðinn Vilhjálm og þar stendur á 3 tungumálum, ensku, frönsku og íslensku: „Ég veit hvað ég hefi reynt og ég veit hvers virði það er mér.“ Í bænum Riverton er m.a. minnismerki um Gottorm Guttormsson, skáld og annað um Sigtrygg Jónasson, ritstjóra Framfara, sem var fyrsta blaðið sem gefið var út á íslensku í Nýja-Íslandi.

Í Riverton sagði Stefan okkur skemmtilega sögu sem lýsir því hvað getur gerst þegan vantar íslensk orð. Hann hafði aldrei lært orðið kalkúnn og þegar kona nokkur íslensk spurði hann hvaða fyrirbrigði þetta væri kallaði hann það Tyrkjabú (turkey) og síðan sá hann þetta eftir sér haft í Tímanum heima á Íslandi skömmu síðar.

Við fórum yfir og keyrðum meðfram Icelandic River ? Íslendingafljóti og fjölmörg önnur örnefni vöktu athygli okkar, t.d. Kjalvík, Miklavík, Hnausar, Kross, Bjarnastaðir, Skíðastaðir, Svalbakki, Sólheimar, Brú, Árnes, Bifröst, Hvammur, Flugumýri og svo mætti lengi telja.

Mikley eða Hecla eins og heimamenn segja oftast var næsti áfangastaður. Um er að ræða ákaflega fallega og sérstaka eyju sem er þjóðgarður og er í Winnipeg vatni. Þar er nokkur byggð, nýtt hótel og golfvöllur, algjör sumarparadís. Meira að segja þar fundu einhverjir í hópnum ættingja sína, eða réttara sagt merki um þá í litlum kirkjugarði sem þar er. Það sem meðal annars einkennir þennan stað er afar fjölskrúðug fuglalíf. Þarna borðuðum við og skoðuðum okkur um. Mjög heillandi staður og þar var minnisvarði um frumbyggja þarna og á hann voru skráð bæjarnöfn og nafn þess sem bjó þar.

Við keyrðum um Geysisbyggðina og keyrðum m.a. að bænum Djúpadal þar sem býr Brian Friðrikson ásamt svissneskri konu sinni. Þar var einstaklega fallegur og snyrtilegur garður.

Nú lá leið okkar í Árborg, lítinn íslenskan bæ, þar sem áberandi voru íslensk örnefni eins og svo víða annars staðar.

Gimli var næsti áfangastaður. Í safninu á Betel Waterfront Center sýndi Stefán okkur stutta mynd sem gerð var í minningu Ollu konu hans, sem lést árið 2000. Myndir fjallar um íslenska frumbyggja í Kanada og erfiða lífsbaráttu þeirra og dugnað þeirra.

Þessum degi lauk með sameiginlegum Rótarý-fundi klúbbanna frá Hafnarfirði, Selkirk og Gimli og var hann haldinn í stórum sal á efstu hæð í Waterfront Center, þar sem frábært útsýni er yfir Gimli og Winnipeg vatn. Við keyrðum síðan aftur til Winnipeg og voru allir fegnir að komast í rúmið eftir langan en góðan dag.

 

 7. ágúst, miðvikudagur

Loksins gátum við sofið aðeins út. Þennan morgun fóru flestar konurnar í búðir en Rótarýfélagarnir á fund í hádeginu hjá Rótarýklúbbnum í Winnipeg.

Síðan hittust allir og fóru í ferð um Winnipeg með Neil Bardal, aðalræðismanni í Gimli. Hann sagði okkur frá Íslendingum í Winnipeg, m.a. ýmsum sem stóðu sig vel í viðskiptalífi borgarinnar. Hæst ber þar Signý Eaton. Einnig nefni hann Íslendinga sem fóru í herinn og stóðu sig vel í stríðinu. Um 50% þeirra urðu liðsforingja (officers). Einnig er frægt íshokkýliðið Falcons frá WInnipeg sem urðu ólympíumeistarar í íshokký í Amsterdag 1920. Í því liði voru allir Íslendingar nema einn. Ekki má gleyma Charles Thorson sem var teiknari hjá Walt Disney. Hann átti hugmyndina að teiknimyndinni um Mjallhvíti og notaði hann aþr til fyrirmyndar stúlku sem vann á bar sem hann kom oft á, en hann þótti drykkfelldur og fyrirmyndir að dvergunum voru karlarnir sem sóttu barinn.

Við skoðuðum stytty af Jóni Sigurðssyni sem er eins og styttan af honum á Austurvelli. Hún stendur rétt hjá þinghúsinu í Winnipeg.

Við keyrðum eftir Icelandic Main Street eða Sargent Avenue, en þar voru ýmis íslensk fyrirtæki fyrr á árum, svo sem höfuðstöðvar Lögbergs og Heimskringlu.

Gaman var að heyra Neil segja frá því hve amma hans og aðrar ömmur voru stoltar af uppruna sínum. Þær voru sérstaklega duglegar að innprenta afkomendum sínum það sama, þ.e.að vara stoltir af íslenskum uppruna sínum.

Hápunktur þessarar kynnisferðar var heimsókn á Betelstaður sem er heimili fyrir aldraða og 60% íbúa þar eru af íslenskum uppruna. Laufey Olson tók á móti okkur og sagði okkur sögu staðarins. Íbúar Betelstaður, sem byggt var 1987, eru 85 í 74 íbúðum. Okkur var boðið að skoða íbúðir og voru þær allar einstaklega smekklegar og fallegar. Freeman Skaptason var upphafsmaður að þessari byggingu sem er hluti af Betel Home Foundation. Einar Arnason var fyrsti forstöðumaður en hann dó árið 2000. Þarna var  tekið á móti okkur af sama innileik og áður og þurftu allir að heilsa okkur og var boðið upp á kaffisopa, pönnukökur og púns. Til gamans má geta þess að barna búa Guðrún Gíslína og Ingibjörg, elstu tvíburar í Kanada, hátt á níræðisaldri og reyndust þær vera frænkur Almars. Önnur kona, Dora Sigurdson, sem reyndist hafa verið gift frænda Hjalta, hafði tekið allar gömlu íslensku bækurnar sínar og önnur íslensk rit og dreift þeim á borð. Hún bað okkur um að taka með okkur eintak eða eintök og taka með til Íslands, því hún vildi vita af þeim á Íslandi eftir sinn dag. Þetta var alveg einstakt.

Við kvöddum með söknuðu þetta yndislega fólk sem bjó, eftir því sem það sagði, á einu besta elliheimili í Winnipeg.

Þá var komið að heimsókn okkar til aðalræðismannshjónanna íslensku í Winnipeg, þeirra Eiðs Guðnasonar og Eyglóar Haraldsdóttur. Var okkur boðið á glæsilegt heimili þeirra, sem er í miðbænum, við Rauðána, en þar eru jfanframt skrifstofur embættisins. Tekið var á móti okkur með kostum og kynjum og af mikilli gestrisni. Í ljós kom að ferðafélagi okkar, Ólafur Guðmundsson og Eiður eru bræðrasynir og urðu fagnaðarfundir með þeim frændum. Almar þakkaði fyrir okkur og færði þeim hjónum mynd frá okkur eftir Rebekku Gunnarsdóttur. Þetta var vatnslitamynd frá Hafnarfirði en áður höfðu þeim Stefán J. Stefánsson, Tim Árnason og Magnus Olafson fengið svipaðar myndir. Í lokin spilaði frú Eygló á píanó og sungum við öll „Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur“ og átti það afar vel við.

Þessi viðburðaríki dagur endaði svo með því að allur hópurinn fór sama út að borða á ítalska staðnum, La Scala og fengum við góðan mat og fluttu allmargir þar ræður og dásömuðu ferðina, fararstjórnina, samstöðuna, skemmtilegheitin, einstaka upplifun o. fl. Margir áttu erfitt með að lýsa ánægju sinni með ferðina og getur sú sem þetta skrifar tekið undir það að þetta er næstum því ólýsanlegt. Þessar þakkarræður voru flutta svona fljótt því þetta var síðasta kvöldið sem við vorum öll saman.

Við sofnuðum sæl og glöð að kvöldi, síðustu nóttina okkar í Winnipeg að sinni.

 

8. ágúst, fimmtudagur.

Margir vöknuðu um nóttina við miklar þrumur og eldingar og geysimikla rigningu. Þrátt fyrir það vöknuðu allir snemma og löng ferð hófst til Minneapolis.

Á leiðinni stoððuðum við fyrst í Grand Forks og borðuðum hádegisverð. Nýr hattur, sem Guðni hafði keypt sér í Winnipeg vakti óskipta aðdáun úkunnungs manns og er talið að hafi haldið strax til Winnipeg til að kaupa einn slíkan.

Alexandria var næsti viðkomustaður en þar höfðu ónafngreindir ferðafélagar gleymstu hlutum á fyrsta hótelinu okkar.

Þriðji viðkomustaðurinn var óvæntur en við stoppuðum í skógarjaðri nálægt St. Cloud skammt frá Minneapolis. Þar buðu þau heiðurshjón, Bjarni Þórðarson og Kristín Guðmundsdóttir, upp á ískalt kampavín og konfekt í tilefni af afmæli Bjarna 3 dögum áður. Þetta var afskaplega óvænt og skemmtileg uppákoma og fengu þau hjón marga kossa fyrir uppátækið.

Á þessari 9 tíma ferð var mikið fjör í rútunni, Sigrún dagbókargerðarkona, flutti stutt ágrip um ferðina og margir fluttu gamanmál, ljóð o.fl. Einnig voru margir sem fluttu þakkir sínar til samferðafólksins fyrir samveruna.

Við komuna til Minneapolis bókuðum við okkur inn á Holiday Inn hótel og borðuðu flestir þar um kvöldið. Ferðafélagar sem ekki ætluðu beint heim til Íslands en héldu í aðrar áttir voru kvaddir með faðmlögum, kossum og tárum en flestir þeirra áttu flug snemma um morguninn. Alls voru það 15 manns sem héldu áfram för en 33 voru á leið til Íslands.

 

9. ágúst, föstudagur.

Við þurftum að rýma herbergir og fengum lánað 1 herbergi fyrir töskurnar.

Flestir fóru síðan í Mall of America og gerðu margir þar góð kaup.

Um kl. 15.30 héldum við út á flugvöll í gömlum „týpískum“, amerískur skólabíl. Sumir hefðu nú áreiðanlega viljað vera áfram og fylgjast með stóru golfmóti í vikunni eftir en þar átti m.a. Tiger Woods að spila í fyrsta skipti í Minnesota.

Allt gekk vel á flugvellinum og átti Jessica nokkur Ginger, starfsmaður á vellinum, ekki minnstan þátt í því, enda voru einhverjir farseðlar týndir auk þess sem við þurftum sérstaka aðstoð vegna fólks í hjólastólum. Fékk Jessica marga kossa frá Páli, nýorðnum fararstjóra, í fjarveru Almars en hann fór til Boston. Var undirritaðri hætt að standa á sama vegna hrifningar Páls á stúlkunni en hún átti vissulega hrós skilið.

Ferðin heim gekk afar vel og kvöddust allir og var ekki laust við að tár sæjust á vanga. Kannski var dæmigert fyrir ferðina setning sem sonur eins ferðafélagans lét falla þegar hann tók á móti foreldrum sínum: „Það hlýtur að hafa verið ótrúlega gaman, svo mikið þurfið þið að faðmast og kyssast þegar við kveðjist.“

Þetta voru orð að sönnu, því þótt gott væri að koma heim var vissulega eftirsjá í frábærum ferðafélögum og einstaklega skemmtilegri og stórkostlegri ferð Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar á Íslendingaslóðir í Ameríku í ágúst 2002.

 

Sigrún Reynisdóttir skráði




Hfj_haus_01