Brussel 2004

Ferð til Brussel 30. sept. til 5. okt. 2004

Skipulag og undirbúningur hvíldi á herðum fararstjóranna, Sigurþórs Aðalsteinssonar og Hjördísar Guðbjörnsdóttur. Héldu þau um 20 undirbúningsfundi og sáu til þess að ferðin var svo vel heppnuð sem raun bar vitni og ferðasagan hér að neðan ber vitni.

Ferðasagan

Tildrögin að þessari ferð voru þau að einn félaga, Kjartan Jóhannsson, flutti fyrir 2 árum til Brussel og tók þar við sendiherrastarfi. Hann ýjaði að því að kannski kæmu Rótarýfélagar í heimsókn til Brussel og þá skyldi hann taka á móti okkur. Hann var tekinn á orðinu. Björn Friðfinnsson kom svo til okkar nokkrum vikum fyrir brottför og sagði okkur frá landinu.

1. dagur, 30. sept. 2004

Nú var komið að því. 60 manns, rótarýfélagar og makar héldu í flugi til Amsterdam og þaðan var förinni heitið með rútu til Brussel. Þar eð engin dagskrá var þennan dag önnur en sú að koma hópnum á hótel, tókum við nokkur okkur út úr hópnum, leigðum bíla og héldum til Kölnar að horfa á liðið okkar, FH, keppa við þýska liðið Aachen í Evrópukeppni í fótbolta, en sá leikur fór fram þá um kvöldið. Til að gera langa sögu stutta, þá var það stórkostleg upplifun að komast á svona „alvöru“völl þar sem voru milli 20 og 30.000 áhorfendur og móttökur þeirra Guðmundar Árna, Péturs Stephensen og Þjóðverjanna frábærar, þ.e.a.s. fyrir þau okkar sem náðum alla leið, en við lentum í umferðaröngþveiti á leiðinni sem varð til þess að ekki náðu allir á leiðarenda. Leiðin frá Amsterdam gekk vel og var hópurinn kominn á Crown Plaza-hótelið í Brussel um klukkan 18 og leit fólkið í kringum sig í borginni og fékk sér að borða. Síðan var gengið til náða enda mikil dagskrá framundan og gott að vera vel hvíldur. Við fótboltafíklarnir vorum komin til Brussel um 2-leytið um nóttina, þreytt en alsæl með ferðina, allavega sumir, hm..hm?hm?.

Gullkorn dagsins: „Það er ekki ætíð best sem blíðast er.“ eða í yfirfærðri merkingu : „Ekki er Benz endilega betri en Bora.“

2. dagur, 1. okt. 2004

Allir vöknuðu hressir. Hótelið er gott og morgunverðurinn sömuleiðis. Bílstjórinn okkar Koen og leiðsögumaðurinn, Patrick voru mættir og þeir áttu eftir að vera með okkur í öllum okkar ferðum. Klukkan 10 var lagt af stað í ferð um Brussel og hinn alvísi Patrick sagði okkur í fyrstu heilmargt um landið sjálft, Belgíu, og síðan ýmislegt um sögu borgarinnar og sýndi okkur helstu staði og byggingar.

Belgía er konungsríki, Royaume de Belgique á frönsku en á flæmsku Koninkrijk Belgie. Þar búa um 10 milljónir manna og er landið aðeins um 30.000 ferkm að stærð. Tungumálasvæðin eru 3: Flandern (flæmska), Vallónía (franska) og Brussel (franska og flæmska) og hefur hver hluti verulega sjálfstjórn í eigin málum. Samkvæmt lögum frá árinu 1963 er tungumálunum þremur gert jafnhátt undir höfði, þ.e frönsku og flæmsku, sem flestir tala, og þýsku sem um 1% þjóðarinnar talar. Flæmska var viðurkennd sem opinbert tungumál í norðurhlutanum, franska í suðurhlutanum og þýska meðfram austurlandamærunum. Flestir íbúa landsins eru kaþólskir. Landið er konungsríki og er konungurinn Albert II. og hefur hann ekki mikil völd. Forsætisráðherrann er sá sem valdið hefur og eru ráðherrar 60. Konungsfjölskyldan er afar rík og konungurinn er eins konar sameiningartákn milli norðurs og suðurs og talar hann bæði frönsku og flæmsku. Björn Friðfinnsson sagði okkur að í gamni væri sagt að konungurinn og landsliðið í knattspyrnu héldu þjóðinni saman en Patrick nefndi konunginn og trúna í sama tilgangi. Þá gall í einhverjum Íslendingnum að þetta væri svipað og með Ólsara og Sandara - sami forsætisráðherra - sama trú, og ekkert annað væri sameiginlegt. Efnahagslífið líkist því sem gerist í Þýskalandi og Luxembourg. Skattar eru allt að 58% enda Belgía mikið velferðarríki. Veðurfarinu lýsti Patrick skemmtilega og sagði að rigningardagarnir væru 300 og síðan væri vont veður í 2 mánuði.

Höfuðborgin er Brussel og er hún af mörgum einnig nefnd höfuðborg Evrópu eða heili Evrópu. Það kemur til af því að í borginni eru höfuðstöðvar margra stofnana, t.d NATO, EFTA og að sjálfsögðu Evrópusambandið og þing þess. Þar býr um 1 milljón manna. Brussel er sérsvæði í Belgíu og hefur sín eigin þing, annað franskt og hitt flæmskt. Það er afskaplega áberandi í belgísku þjóðlífi að aðaltungumálin eru 2, t.d. eru textar við bíómyndir á báðum tungumálum og götuskilti eru á 2 málum.
Einnig eru áberandi fánar þessara tungumálasvæða; svarta ljónið er merki flæmskra og rauði haninn tákn þeirra frönsku. Fáni Brussel er svo aftur á móti gul lilja á bláum fleti. Að sjálfsögðu er svo Evrópufáninn mjög áberandi í Brussel, þ.e. gular stjörnur í hring á bláum fleti. Brussel er með grænni borgum í Evrópu og er þar sett í hóp með Vín og Berlín. Nokkuð hefur dregið úr mengun vegna takmarkana á bílaumferð. Yfirleitt er rólegt og notalegt að keyra um borgina á morgnana en þegar líður á daginn lifnar allt við og umferðin er gríðarleg í kringum borgina og þá er oft erfitt að komast leiðar sinnar. Hraðbrauta- og vegakerfið umhverfis Brussel þykir þó eitt það besta í heimi. Patrick benti okkur á að ekki sæjust margir lögregluþjónar á ferli en það segði ekki alla söguna um löggæsluna, því allt er vaktað með myndavélum. Glæpatíðni hefur aukist en var áður mjög lág. Belgar tengja margir þessa auknu glæpatíðni við innflytjendur, t.d. rússnesku mafíuna, ýmsar eiturlyfjamafíur o.fl. Félagskerfið þykir gott og er vel hugsað um “gestina” þar.

Það sem vakti strax mikla athygli okkar eru allar hinar stórfenglegu byggingar sem eru í borginni frá ýmsum tímum og falla undir fjölmargar stefnur í byggingalist margra alda. Það væri að æra óstöðugan að ætla að telja upp allar þær byggingar sem Patrick sýndi okkur en hér skal þó reynt að nefna þær helstu. Rétt við hótelið okkar er lítill glerpýramídi og er hann inngangur í Convention-Museum. Hann er eins konar eftirlíking af innganginum í Louvre-safnið í París. Konungshöllin er afar falleg með sérstaklega fallegum garði og þar býr ekkjudrottningin en konungurinn og kona hans búa í litlum kastala ekki langt frá sem við sáum líka. Við sáum Atomium sem er minnismerki heimssýningarinnar 1958. Það er risavaxið „mólekúl“ sett saman úr 9 atómum og byggt úr 2000 tonnum af áli . Minnismerki þetta sést víða að úr borginni og nú er verið að pússa það upp svo það glansi eins og það gerði fyrst. Inni í því var á þeim tíma hraðskreiðasta lyfta í heimi. Þar rétt hjá er garðurinn Mini-Europe þar sem eru 300 eftirlíkingar af frægum stöðum í Evrópu. Heysel-leikvangurinn eða Baldwin Stadium eins og hann heitir núna er þarna og er einna þekktastur fyrir hörmulegt slys sem varð þar 1984 er áhorfendapallar hrundu og 54 tróðust undir í átökum fótboltabullna á leik Torino og Liverpool . Við stoppuðum við safn sem kennt er við 50 ára afmæli stofnunar Belgíu. Þar eru reyndar mörg söfn saman á einu torgi, m.a. hermunasafn, bílasafn, egypskt safn o.fl. Rúsínan í pylsuendanum var svo þegar Patrick gekk með okkur niður í miðborgina þar sem við enduðum á Grand Place (Grote Markt) eða aðaltorginu í miðborginni. Það þykir með fallegustu borgartorgum í Evrópu enda er það stórkostlegt. Byggingarnar eru stórkostlegar í gotneskum, renaissance og barokk -stíl sem renna saman í ótrúlega heild. Skreytingarnar á byggingunum eru glæsilegar og segja allar einhverja sögu. Þarna er mikið og skemmtilegt mannlíf, leiksýningar, hljómsveitir, verslanir, veitingastaðir og margt fleira. Rétt við torgið skoðuðum við svo Manneken Pis sem er fræg lítil stytta af pissandi strák. Sagan segir að hann hafi verið sonur borgarstjórans og bjargað torginu frá eyðileggingu er Spánverjar ætluðu að sprengja það í loft á 17.öld. Það gerði hann með því að pissa á fallbyssur Spánverjanna og bleyta í kveikjuþræðinum. Margar fleiri sögur eru til um þennan litla strák og verður hver að trúa því sem hann vill.

Þegar talað er um byggingar í Brussel er ekki hægt að láta vera að tala um allar nýju byggingarnar sem þar eru og eru algjör andstæða gömlu bygginganna. Risastórar glerhallir og aðrar byggingar sem tilheyra nútíma byggingarlist eru fjölmargar og tilheyra margar þeirra þeim fjölmörgu stofnunum sem eru í borginni. Andstæðurnar eru ótrúlegar.

Um kvöldið var komið að heimsókn okkar til sendiherrahjónanna, Kjartans Jóhannssonar og Irmu Karlsdóttur. Þau búa í fallegu húsi í afar fallegu hverfi í úthverfi Brussel. Þau tóku höfðinglega á móti okkur og þar voru bornar fram dýrindis veitingar í fljótandi og föstu formi. Fluttar voru ræður og afhentar gjafir og var þetta afar ánægjuleg kvöldstund með þeim hjónum.

Málsháttur dagsins: “Gott er góðs að njóta.”

3. dagur, 2. okt. 2004

Í dag tókum við daginn snemma og fórum til Waterloo. Hvað kemur fyrst í hugann þegar þessi staður er nefndur? Jú, ABBA og Napóleon.

Waterloo er lítil borg um 18 km suður af Brussel og er að sjálfsögðu fræg fyrir orrustuna sem Napóleon Bonaparte keisari, tapaði þar í júní 1815. Þar átti hann í höggi við heri Þýskalands, Breta, Hollendinga, Belga og Prússa. Hertoginn Wellington stjórnaði þessum sameinaða her sem tókst að sigra Napóleon og franska herinn. Reyndar er oft sagt að belgíski veturinn hafi unnið Frakkana. Mannfall var gífurlegt og talið að 50.000 manns hafi fallið í lokaorrustunni. Þetta var upphafið að hnignun franska keisaraveldisins og Napóleons Bonaparte. Eftir þetta fór hann í útlegð til St. Helenu.
Í Waterloo gengum við 226 tröppur upp á Ljónshólinn (Butte de Lion). Hann er afar áberandi í landslaginu, um 45 m hár. Hollendingar gerðu hann úr jarðvegi sem til féll við jöfnun landsins í kring og Frakkar lögðu til ljónsstyttuna sem trónir á toppnum og er hún helguð Englendingum og Niðurlendingum. Af hólnum er gott útsýni yfir orrustuvellina. Við hólinn eru einnig áhugaverð söfn þar sem sagan er sögð í máli og myndum. Einnig heimsóttum við lítið safn skammt frá sem hýsir ýmsa muni tengda þessum atburðum, m.a. ferðarúm Napóleons og það vakti athygli okkar hversu lítið það var, enda var keisarinn víst ekki hávaxinn maður. Í garðinum við húsið vakti athygli mína lítið hús, sem reyndist vera beinahús; fullt af beinum sem hafa fundist þegar grafið hefur verið á vígvellinum. Á húsinu standa orðin: „Often for the Emperor, always for the Fatherland,“ (oft fyrir keisarann, alltaf fyrir föðurlandið) og eiga þau orð vel við sem orð dagsins í dag.

4. dagur, 3. okt. 2004

Ég vaknaði upp í nótt við háværa músík, eins og verið væri að halda tónleika fyrir utan hótelið. Þetta stóð í góða stund og þegar ég var almennilega vöknuð þá áttaði ég mig á því að þetta var Björk að syngja lag af nýju plötunni sinni. Hvaðan músíkin kom hafði ég ekki hugmynd um en það var svolítið skrýtið að vera í Brussel og heyra í Björk utan við gluggann. Það var ekki laust við að maður fyndi svolítið til sín.

Enn og aftur lögðum við af stað kl. 10 og nú var ætlunin að fara um flæmskar sveitir og skoða einnig miðaldaborgirnar Brugge og Gent. Sendiherrahjónin, Kjartan og Irma, slógust í för með okkur þennan dag.

Brugge er höfuðborg Vestur-Flanders og er kölluð Feneyjar Flanders og er hún sett í hóp með Feneyjum og Prag sem demantar Evrópu. Mikið er um vatn og skurði og er hún tengd saman með 44 brúm. Í Brugge sjálfri búa um 30.000 manns en í úthverfum hennar búa 120.000 manns. Hún er mikil ferðamannaborg sem sést best á því að þar eru u.þ.b. 500 veitingastaðir og 160 hótel. Nafn borgarinnar merkir mjög líklega það sama og „bryggja“ á íslensku.

Við stoppuðum rétt við miðbæinn og gengum þaðan inn á aðaltorgin tvö, Burg-torg og Market-torg. Okkur var strax ljóst að þarna hrópaði sagan á okkur á hverju horni, enda var Brugge áður fyrr ein af höfuðborgum menningar í Evrópu auk þess sem þar var ein mikilvægasta höfn Evrópu á 13.-15.öld. Við komum fyrst að Ástarvatninu (Lake of Love, eins og Patrick nefndi það), sem er afar rómantískt umhverfi, bekkir fyrir elskendur og svanir á vatninu. Þeir eru tákn vatnsins, merktir og alfriðaðir og tengist það fyrri sögu. Í Brugge úir og grúir af gömlum byggingum. Við sáum Begijnen-húsin (Béguinage) sem er lítill borgarhluti innan borgarmúra. Þar eru nunnuklaustur, kirkja og falleg lítil, hvít hús sem nunnurnar búa í og munu þær vera um 700 talsins. Þær sjást lítið á ferli en við vorum svo heppin að nokkrar þeirra voru á leið til kirkju þegar við fórum þarna um. Þar skammt frá var sjúkrahús heilags Jóhannesar frá 12. Öld og er það talið eitt elsta sjúkrahús Evrópu en þar er nú safn. Alls staðar sáum við líkneski af Maríu mey, en þau eru um 300 í borginni og er frægast þeirra marmarastytta í dómkirkjunni af Maríu með son sinn, sem talin er vera eftir Michelangelo. Þetta er víst annað tveggja verka meistarans sem er utan Ítalíu, hitt er í Rússlandi. Við torgin standa mörg önnur , gömul og falleg hús, t.d. Halles sem er 13.aldar markaðshöll með 108 m háum turni, Dýrðarblóðskapellan frá 12.öld, þar sem dýrðarblóðið er geymt (the Holy Blood of Christ), Vor frúarkirkja frá 13. Öld með 122 m háan turn, Ráðhúsið, sem er hið elsta í Belgíu, og er frá 14. öld og ekki má gleyma „gildunum“ sem eru þarna eins og í Brussel og vitna um fyrri tíma. Svona mætti lengi telja en við vorum afar heilluð af öllum þessum fögru byggingum og ekki síst sögunum sem tengjast þeim. Borgin er einnig kunn fyrir kniplingasaum og heimsóttum við eina slíka verslun í miðborginni, þar sem okkur var sýnt handbragðið við blúndugerðina og var það mjög gaman að sjá og urðu margar kvennanna í hópnum afar heillaðar af fallegum blúndunum.

Næst lá leið okkar til Gent, sem er höfuðborg Austur-Flanders og er hún 3ja stærsta borg Belgíu á eftir Brussel og Antwerpen. Þar búa um 250.000 manns. Árnar Schelde og Lys og skipaskurðir liggja um borgina og skipta henni í fjölda smáeyja, sem eru tengdar með u.þ.b. 200 brúm. Vegna legu sinnar er Gent meðal helstu verslunar- og útflutningsmiðstöðva við Norðursjó. Iðnaður skipar enn veigamikinn sess í borginni, þó ekki jafnist hann á við fyrri aldir. Alls staðar sáum við merki um þetta iðnaðarveldi, sem borgin var. Glæsilegar byggingar kaupmanna, iðnjöfra og höfðingja fyrri tíma eru fjölmargar, bæði íbúðarhús, markaðshallir, “gildur” o.fl. og setja mikinn svip á miðbæinn. Við sáum Gravenstein-kastalann frá 9, öld sem byggður var til að vernda borgina fyrir innrásum. Við torgið stendur St. Nicklaus-kirkjan og vakti athygli okkar að hár og fallegur kirkjuturninn stendur einn og sér og var það víst ekki óalgengt að svo væri byggt. Stórri bjöllu úr kirkjunni hefur verið stillt upp á torginu. Við fórum einnig inn í eina fallegustu dómkirkju í Belgíu, sem heitir á máli heimamanna, Sint Baafskathedral. Hún var stórfengleg og vakti einna mesta hrifningu okkar allar sérkapellurnar sem hinar ýmsu fjölskyldur í borginni höfðu átt. Þær voru mjög mismunandi og mörg afar mögnuð listaverk inni í þeim. Patrick sýndi okkur sérstaklega altaristöflu í einni kapellunni, sannkallað meistaraverk.

Gent er mikil háskólaborg og þar er ein minnsta glæpatíðni í Evrópu. Bílar eru að mestu bannaðir í miðborginni og því auðvelt og þægilegt að komast leiðar sinnar fótgangandi. Borgin þykir hafa góða sál og er talin ein af fallegustu borgum Evrópu og getum við áreiðanlega tekið undir það.

Nú vorum við gengin upp að hnjám og drifum okkur tilbaka til að hvíla okkur aðeins og hafa okkur til því um kvöldið fór allur hópurinn saman út að borða á veitingastaðinn Aux Armes de Bruxelles sem er í miðborg Brussel. Þar var kátt á hjalla, borðaður góður matur, ræður fluttar, sunginn afmælissöngur fyrir Hrafnhildi o.fl. Allir gengu glaðir til rekkju um kvöldið eftir frábæran dag.

Orð dagsins: “Gott er að vera í góðum hóp og gerast honum líkur.”

5. dagur, 4. okt. 2004

Heimsókn í Evrópuþingið var á dagskrá okkar í dag. Þar tók á móti okkur John Fordham nokkur frá enskudeild þingsins. Hann hélt fyrirlestur um tilurð og starfsemi Evrópusambandsins.

Fyrir rúmum 50 árum voru stigin fyrstu skrefin að stofnun Evrópusambandsins. Reyna átti að binda endi á fornan fjandskap sem leitt hafði til margra styrjalda í Evrópu og til að auka velferð þjóða álfunnar með samvinnu. Æ fleiri lönd óska eftir aðild að sambandinu og eru þau nú 25 talsins, þar af komu 10 nýjar þjóðir inn í maí síðastliðnum og eru svokallaðar austantjaldsþjóðir áberandi í þeim hópi. Þingfulltrúar eru 732 en fjöldi fulltrúa er nokkuð breytilegur milli ára. Fjöldi þingmanna hvers lands fer eftir íbúafjölda landsins, samt er lágmarkið 6 manns og og hámark 90 manns. Konur eru 30,3% þingfulltrúa en sá fjöldi er mjög breytilegur eftir löndum, t.d. eru 57,9% þingfulltrúa Svíþjóðar konur, en engin kona er frá Möltu.
Þingið starfar í 20 nefndum og skiptast þingmenn í ýmsa hópa eftir áhugasviði, pólítík o.fl. Ég hjó sérstaklega eftir því hjá John að sumir þingfulltrúa eru á móti Evrópusambandinu og vinna að því leynt og ljóst að leggja það niður. Þetta virkaði á mig eins og öfumæli. Störf þingsins fara að mestu fram í Brussel. Hluti starfseminnar fer þó fram í Luxembourg og 1eina viku í hverjum mánuði starfar þingið í Strasbourg samkvæmt gamalli hefð. Er ekki allt í lagi?. Hvers konar bruðl er nú þetta? Hvað haldið þið að það kosti að senda alla þingmennina til Strasbourgar í eina viku og halda þeim þar uppi ?

Að lokum sýndi John Fordham okkur þingsalinn sjálfan, sem við sjáum svo oft í sjónvarpinu. Þar eru auk sæta fyrir þingmenn, fjölmargir klefar sem túlkarnir nota en öllum tungumálum á að gera jafnhátt undir höfði, hvort sem það er eistneska eða franska og eiga þingmenn að geta notað sitt eigið tungumál þegar þeir flytja ræður. Þetta er afar þungt í vöfum og greinilega mikið „battery“. Greinilegt var eftir þessa heimsókn að við vorum misjafnlega „impóneruð“ . Erum við ekki þverskurður af íslensku þjóðinni sem er alls ekki sammála um hvort við eigum að ganga í Evrópusambandið? Jú, það held ég.

Að lokinni heimsókn í Evrópuþingið fóru nokkrir í heimsókn í íslenska sendiráðið. Aðrir eyddu deginum í miðborginni og versluðu o.fl. Einhverjir tóku bílaleigubíla og aðrir lest og heimsóttu staði sem þá langaði til að sjá. Um kvöldið hópuðumst við mörg saman á Grand Place en þar fór fram stórfengleg ljósasýning og mögnuð tónlist spiluð undir. Það var viðeigandi endir á frábærri heimsókn okkar til Brussel. Nú var síðasti dagurinn að kvöldi kominn og flestir drifu sig í rúmið, því lagt skyldi af stað eldsnemma daginn eftir áleiðis til Amsterdam.

Orð dagsins: “Ekki gráta af því að því er lokið, brostu af því að það gerðist.”

6. dagur, 5. okt. 2004

Ferðin til Amsterdam gekk vel þrátt fyrir mikla umferð. Rólegt var í rútunni enda notuðu margir tækifærið og lögðu sig á leiðinni. Flugferðin heim gekk að óskum og þegar mér varð litið út um gluggann á flugvélinni, þegar við komum inn yfir landið okkar, þá duttu mér í hug orð Péturs Gunnarssonar, rithöfundar, og geri þau að orðum dagsins: „Einhvers staðar í öllu þessu grjóti á ég heima.“

Þetta var enn ein af þessum frábæru rótarýferðum sem eru alltaf alveg ótrúlega skemmtilegar og maður kemur heim fullur fróðleiks og þakklátur fyrir alla þá vináttu sem manni hefur verið sýnd. Ég fer örugglega með næst. Hvert skyldum við fara þá?

Kæru vinir! Kærar þakkir fyrir samveruna og ég hlakka til að fara með ykkur í næstu ferð.

       Sigrún Reynisdóttir.




Hfj_haus_01