Í léttum dúr

Í léttum dúr

Hlátur lengir lífið og Rótarýfélagar í Hafnarfirði þekkja þá aðferð vel

Grillmeistarinn

Á hverju ári er farið í landgræðlureit klúbbsins rétt við Kaldársel, þar unnið og síðan er snæddur matur. Eitt sinn var ákveðið að grilla og tók einn félaginn að sér að útvega grill og grillkol. Dýrindis steikur biðu marineraðar og fólkið orðið svangt og blautt en það var fremur kalt og það rigndi. Kveikilegi var helt ótæpilega á kolin og eldur borinn að. Fólk hópaðist að grillinu til að orna sér og voru því margir ásjáandi þeim ósköpum þegar eldurinn kulnaði hægt en örugglega og kolin ekkert farin að grána. Meiri vökvi var settur á og eldur borinn að en allt fór sem fyrr. Einhverjum var litið á kassa við hlið grillsins og sá að það var utan af grillkolunum. Ekki er hægt að lýsa viðbrögðunum sem komu þegar fram kom að keypt hafði verið keramiksteinar til að setja á gasgrill en litu út eins og viðarkol. Varð kaupandinn reyndar að viðurkenna að honum fannst kolin heldur dýr!

Voru mönnum bæði hlátur og grátur í hug er þeir nörtuðu í kalt meðlætið en urðu að láta steikina bíða betri tíma. Ekki þarf að taka fram að viðkomandi var samstundis gerður að grillmeistara klúbbsins.

Sultan

Margir klúbbfélaga hafa verið í klúbbnum í áratugi og orðnir býsna heimavanir. Létu þeir ekki kokkinn alltaf segja sér hvað ætti heima á borðum hverju sinni. Jón Kr. Gunnarsson, sem nú er látinn, var mikill húmoristi og matmaður. Þegar kjötbollur eða kótelettur voru í boði og engin sulta var borin fram átti hann það til að kveða sér hljóðs og lýsa áhyggjum sínum að sultuskorti. Þessi árvekni Jóns gagnaðis öðrum vel og nú er Jóns enn minnst við sambærileg tækifæri. Á fundi fyrir stuttu stóð einn fundarmanna á fætur og sagði að nú hefði Jón Kr. ekki verið sáttur. Þjónninn var fljótur að skilja sneiðina og sótti sultuna með hraði.

Svona kláraðu súpunu

Á fundum er jafnan snæddur veglegur hádegisverður og oftast súpa á undan. Margir nýir félögar klúbbsins hafa undrast að ýmsir borðsiðir eru ekki alltaf eins og þeir lærðu heima hjá sér sem krakkar. Undir matnum er jafnan skrafað og oft verður svo að einn er lengur með súpuna sína en aðrir. Eru þá borðfélagarnir þá oft búnir að stafla diskunum saman og stendur staflinn við hlið þess seinbúna og ef honum verður á að líta á borðfélaga sína þá verður honum það ljóst með það sama að hann skuli hraða sér. Kláraðu súpuna! Við erum að fara að borða!

Kaffibollinn

Í gegnum áratugi hefur kaffibollinn alltaf verið sömu megin við diskinn og olli þetta engum vandræðum á meðan setið var við hefðbundin ílöng borð. Fyrir mörgum árum var farið að notast við hringborð og skipti þá engum togum að minni manna á stöðu eigin bolla varð harla brigðult. Gestir klúbbsins hafa tekið eftir þessu og verið nokkuð skemmt. Varla bregst það að einhver er án bolla og annar með bolla á báðar hendur. Hvoru megin á svo bollinn að vera?

 




Hfj_haus_01