Færeyjar 1999

Ferð Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar til Færeyja 1999

Ferðasaga

Það mátti ekki betur sjá en að 71 manna hópurinn sem var mættur í þrengslin á Reykjavíkurflugvelli væri eftirvæntingarfullur og staðráðinn í því að gera ferðina hina ánægjulegasta þrátt fyrir einhvern pirring vegna upplýsingaleysis um ýmsa þætti ferðarinnar fram á síðustu stundu.

Allt ætlaði að ganga vel og síðasta parið mætti réttum klukkutíma fyrir brottför en það ætlaði ekki að duga, flugfélagið fannst þeirra sæti betur henta einhverjum sem keyptu miða sólarhring fyrir brottför. En þá kom samstaðan af barborðinu að góðu, því þegar Steingrímur kvaðst ekki rétt að neinn færi nema Páll og Sigrún kæmust með líka tók hópurinn undir sem einn maður. Núna var tækifæri til að sýna samstöðu. Og viti menn, Rörið bar síðustu rótarýfélagana ásamt þremur öðrum sætislausum farþegum í kjölsög þotunnar til Færeyja, að vísu án þeirrar góðu þjónustu sem við hin nutum hjá Atlantic Airways.

Jogvan Sundstein forseti Thorshavnar Rotaryklúbbs ásamt fleirum tók á móti hópnum og smá hressing beið allra á Hótel Føroyjar. Fyrir þá sem ekki þekkja hótelið þá er það langt og mjótt og fyrir marga var löng leið framundan að herbergjunum og að sjálfsögðu var aldursforseti hópsins látinn í ysta herbergið rúmum 150 metrum frá mótttökunni. Því var svo reyndar kippt í liðinn.

Laugardagur 22. maí:

Fram að hádegi höfðu menn daginn til síns brúks en eftir hádegi var farið með ­"Pride" í siglingu að eyjunum Hesti og Kolti (folaldi). Óvanur skipstjórinn sigldi beint í kvikuna sem myndast á straummótum milli eyjanna og súpan sem var í boði um borð fór að ergja suma farþegana og dugði sumum að hún væri fyrir augum þeirra. Aðrir hörkuðu þetta af sér, stóðu knarrreistir við borðstokkinn á meðan gusurnar gengu yfir, ákveðnir í að verða ekki sjóveikir.

Lendingin í Hesti var ævintýraleg, árekstur við bæði hafnargarð og bryggju og hugtakið "Haldið fast" fékk nýja og skýra meiningu. Lítil byggðin í Hesti var skoðuð og kirkjan heimsótt og orgelið prófað. Siglt yfir sundið í ferjustaðinn "Gamlarætt" þaðan sem sumir fóru í rútu og þeir áköfu gangandi að "Kirkjubøur". Páll kóngsbóndi Patursson og frú tóku þar á móti fólki, hann sagði frá kirkjubyggingum, bæði Magnúsarkirkju sem er frá um 1300 og Ólafskirkju. Þessi staður var biskupssetur frá um 1100 og þarna er eitt elsta timburhús í heiminum sem búið er í. Bauð hann í stofu í þurrkaða grind, skerpukjöt og snafs úr horni, en snafs hafði þegar komið við sögu í ferðinni og átti eftir að koma oft við sögu síðar. Einstaklega ánægjuleg heimsókn sem sýndi dæmalausa gestristni. Landvegurinn var tekinn heim mörgum til mikillar ángæju.

Sunnudagur 23. maí:

Ekki fannst öllum það sérstakt tilhlökkunarefni að ætla í kirkjuferð í Færeyjum en "Havnakirke" og "Vesterkirke" voru heimsóttar á hvítasunnudag með gestgjöfunum og það var alveg sérstök upplifun að kynnast þessari góðu þátttöku þeirra fjölmörgu kirkjugesta sem þarna mættu og tóku undir sönginn þannig að mörgum okkar var brugðið. Eftir guðþjónustu fóru allir í hádegisverð hjá rótarýfélögum, veislu þar sem aðeins tímaleysi gerði það að verkum að fólk borðaði yfir sig af kræsingum sem fram voru bornar.

Síðan var farið að skoða Listaskálann, Lögþingið og borgarstjórnarhúsið.
Glæsilegur hátíðakvöldverður var síðan á Hótel Færeyjar. Ýmsir tóku til máls. Guðmundur, Valgerður, Alexía frá Íslandi og Jogvan Sundstein, Danjál og fleiri frá Færeyjum. Mikið var sungið til skiptis á íslensku og færeysku. Kom þá í ljós er "Híf opp æpti karlinn" var kirjaður að ýmsir voru meiri sjóarar á þurru landi en í öldurótinu ef marka má hressilegar viðbætur sem bárust frá einu borðinu. Forseti afhenti mynd af Hafnarfirði frá Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar og Valgerður afhenti Gaflara og fána frá Rótarýklúbbnum Straumi. Fyrr um daginn höfðu allir gestgjafar fengið bókargjöf, Ljósmyndir eftir Lárus Karl Ingason. Einstaklega ánægjulegt kvöld.

Mánudagur 24. maí:

Lagt af stað í ferð um Streymoy og Eysturoy. Ekið sem leið lá um Kaldbaksfjörð, en þar uppi af er Nato með ratsjárstöð í húsi sem líkist mjög Hótel Færeyjum og tvær ratsjárkúlur uppi á fjallinu. Í gegnum göng var farið, um Kollafjörð og fram hjá Hósvík þar sem er gömul hvalstöð en nú seiðaeldisstöð. Fram hjá Hvalvík og yfir brú hjá Oyrarbakki (brúin með tréverkinu) en þessi brú tengir saman Steymoy og Eysturoy. Gegnum enn önnur göng og þá sér niður í Funningsfjörð til norðurs. Komið var niður í Skálafjörð sem er lengsti fjörður í Færeyjum 12 km að lengd. Ekið austan megin við fjörðinn og horft yfir í Skáli þar sem er stór skipasmíðastöð. Beygt við Skipanes (þar sem Þrándur í Götu hafði skip sín) og stefnan tekin á Syðrugøta, Gøtugjógv og Norðragøta (heimili Þrándar í Götu) og ekið til Leirvíkur þaðan sem ferja var tekin til Klakksvíkur.
Í Klakksvík tóku bæjarfulltrúar og rótarýfélagar í Klakksvík á móti okkur í bæjarráðshúsið og var boðið upp á konfekt og drykk. Útbýtt bæklingi um Klakksvík en stoppið var stutt, japanski túrisminn var farinn að segja til sín.
Þaðan var ekið sem leið lá um Borðoy og yfir á Viðoy. Þar á milli er sund sem heitir Hvannasund og er búið að fylla það upp til að tengja eyjarnar. Á Borðoy er búið að leggja tiltölulega nýjan veg 7 km að lengt heim að bæ sem heitir Múli. Sá bær fór í eyði um leið og vegurinn kom!
Í Viðareiði, nyrstu byggð Færeyja var borðað með lögmanni Færeyja, Anfinn Kallsberg. Bente (Barbara) bjó um tíma í Viðareiði sem prestfrú.

Þarna skildu leiðir. Þeir sem voru í styttri ferðinni yfirgáfu hópinn og eftir sátu 21 Íslendingur sem áttu eftir að hafa það mjög skemmtilegt það sem eftir lifði vikunnar ásamt þeim þremur sem kæmu síðar um daginn.

I Klakksvík var Christianskirkjan skoðuð en hún tekur um 1000 manns í sæti. Stór prestsbátur frá Viðareiði hangir þar í loftinu. Kirkjan var teiknuð utan um altaristöfluna sem er stór bogalöguð freskumynd.
Komið við í Föroyja bjór þar sem í boði voru allar þær tegundir sem framleiddar eru þar og brauð með ýmsu áleggi. Það er ekki hægt að segja annað en að þessi heimsókn hressti flesta enn meir, og voru sumir vonsviknir yfir því að hafa ekki tekið með sér tuðru inn undir sýnishorn.
Komið til baka um kl. 19.00 en farið var yfir fjallið til Þórshafnar, beint inn að hótelinu. Kvöldið var frjálst en sumið höfðu þó ekki fengið nóg og lögðu á sig að fara sömu leið að hluta til að hlusta á Félag harmónikkuleikara leika á Oyrarbakki.

Þriðjudagur 25. maí:

Sömu leið var fylgt og daginn áður. Stoppað í Syðrugøtu, í Tøting, prjónaverksmiðjunni. Fengum þar smá innsýn í framleiðsluna sem er ýmisskonar prjónavara og það nýjasta sem er prjónaflíspeysur og jakkar. Færeyska ullin er blönduð ull frá Shetlandseyjum og því ekki ólík þeirri íslensku. Fóru margir betur klæddir út en inn.
Glæsileg kirkja í Syðrugøtu var síðan skoðuð. Glermyndir eru eftir Þránd Patursson tvíburabróður Páls í Kirkjubøur. Gluggi, veggskreytingar, prédikunarstóll, skírnarfontur og loftljós eru öll eftir hann. Kirkjan fékk viðurkenningu fyrir þaksperruhönnun. Í kjallaranum er síðan samkomustaður bæjarins.
Farið var síðan til Norðragøtu í Blasastova byggðasafn. Þar var búið fram á þessa öld. Bærinn er byggður 1831 og hefur verið í sama horfi fram á þessa tíma. Síðast var búið í honum um miðja þessa öld.
Frá Gøta var farið yfir í Fuglafjörð þar sem snæddur var indælis hádegisverður á Kristjáni í Grjótinu, fiskur, lax, rækjur og smokkfiskur. Skuttogarinn sem lá í Klakksvík daginn áður var komið þangað til að losa en í Fuglafirði er mjög stór fiskvinnslustöð.
Frá Fuglafjörður var ekið til baka gegnum Götu  þar sem við sáum mark skorað og nú farið yfir í Funningsfjörð og þar upp á fjallið hjá Funningi. Yfir gnæfði Slættaratindur hæsti tindur Færeyja 882 m yfir sjó. Ekið til Gjógv og naustin skoðuð. Engir bátar voru í naustinni og að sögn útgerð þar nær aflögð.
Ekið var svo til baka og í átt að Eiði þar sem við sáum yfir á drangana Kellingin og Risin úti í sjónum. Við Eiði er líka stærsta stíflan, stífla sem í rennur nær eingöngu leysingarvatn.
Ekið sem leið lá að Oyrarbakki og síðan sama leið og fyrr um daginn heim á hótel, þar sem rútan beið meðan skipt var um ham svo allir væru þokkalega til fara á Rótarýfundi, sem var seinkað um hálftíma vegna okkar. "Þriggja mínútna" erindið var um nýjasta íþróttamannvirkið í Þórshöfn, knattspyrnuvöll í löglegri stærð fyrir Evrópuleiki. Kostar um 180 millj. kr. og á að vera tilbúinn með grasi og öllu tilheyrandi 9. júlí.

Helgi þakkaði fyrir okkar hönd og skilaði kveðju frá öllum fyrir frábærar móttökur Guðbjartur, fulltrúi okkar óbreyttu þakkaði höfðinglegar mótttökur og gestristni.

Miðvikudagur 26. maí:

Margir notuðu morguninn til að fara í bæinn. En við þurftum að vera komin úr herbergjum kl. 11.00. Kl. 13.30 átti að koma rúta sem færi með okkur til Vestmanna þaðan sem siglt yrði að Vestmannabjörginni. Það kom rúta klukkan 13.30 en einhver misskilningur átti sér stað svo hún var sent burt. Beðið eftir rútu í klukkutíma sem kom loks. Allur farangur fór í minni bíl sem varð eftir í Þórshöfn en við tókum stefnuna á Vestmanna. Beint í bátinn "Barbara" 28 manna bát og siglt í um það bil klukkutíma að Vestmannabjörgini. Þar voru skútar og háir klettadröngar, þar sem farið var inn og út og í kringum í nokkurn tíma. Stórkostleg upplifun. Ótrúlegt var stundum að horfa til baka á lítið gat bak við öldurótið, þarna höfðum við siglt út skömmu áður. En allt tók enda, hjálmarnir og regnbuxur voru settar á sinn stað og haldið var að hafnarbakkanum í Þórshöfnhaldið og haldið kl. 19 til Suðureyjar með Smyrli. Siglingin þangað tók 2 tíma og 15 mín. og var gott í sjóinn og fínt útsýni alla leiðina.
Í Drelsnes fórum við í áætlunarbílinn til Øravík sem er bæði hótel, gistiheimili og farfuglaheimili. Haimilislegar aðstæður með læk sem rennur við hlið dvalarstaðarins og gæsir vagga í túnum. Ekki munu allir hafa sofið eins fast og til stóð.

Fimmtudagur 27. maí:

Við höfðum rútu til umráða í 6 tíma. Suðurey er 30 km að lengd og ekki um neinn hringakstur að ræða nema rétt syðst á eynni. Fyrst var farið í einkasøluna í Drelsnesi. Þar var Íslendingur við vinnu og keyptu þeir bjórþyrstu þar birgðir sem bornar voru í rútuna í kassavís. Stefnan var síðan tekin suður á bóginn til Fámjin. Ekki vitað hvað orðið þýðir. En haldið að það sé komið úr frönsku Le fammé - kona.

Fyrsti saumaði færeyski fáninn er í kirkjunni í Fámjín en hann var hannaður af þremur stúdentum sem voru við nám í Kaupmannahöfn. Einn þeirra kom frá Fámjin og lést 24 ára gamall úr spænsku veikinni.

Fámjin er annar tveggja staða sem eru á vesturströnd Suðureyjar.

Frá Fámjin var ekið sem leið lá til Vágur, Lopra (þar var borað eftir olíu einu sinni en allt í einu hætt og allt flutt í burtu, enginn veit af hverju) og gegnum nýjustu göngin á eynni sem voru 10 ár í byggingu til Sumba.
Í Sumba þar sem menn er þekktir fyrir líkamsstyrk og sérstaka málýsku stoppuðum við við höfnina sem bar merki mikils brims enda ekkert lauslegt sjáanlegt. Síðan var stefnan tekið út á Akraberg. Þar eru nokkur möstur sem Haraldur vissi allt um. Hátt niður og fallega grænn sjór. Syðsti staður Færeyja á 68,10° breiddargráðu.
Nú var fólk orðið svangt og komið tími til að borða nestið sem við höfðum smurt um morguninn. Farið til baka til Sumba og sest á bryggjuna. Nutum þess að borða þarna nestið okkar og ótrúlegt var hvað margir voru fyrirhyggjusamir og voru snafsglösin ópart notuð.

Farið var að þykkna upp og því spurningin hvort fara ætti í göngin aftur eða fara yfir fjallið. Sumba var frekar afskekktur staður og fjögurra tíma gangur yfir fjallið ef það varð ófært vegna snjóa eða ísingar, en stundum hafði hann lokast í 3-5 daga. Þegar göngin komu fluttust fjölmargir frá staðnum. Ákveðið var fara yfir fjallið og kynnast þokunni. Efst uppi birti til og sáum við þá Beinisvørð sem er stakur klettadrangur á vesturströndinni mjög sérstakur.
Ókum síðan niður í Víkarbyrgi sem er byggð komin í eyði. Þar var áður fiskeldi. Stoppuðum í Vágur við litla verslun þar sem sumir keyptu sér færeyskar húfur og við bókina um tungumálið.

Þá var stefnan tekin norður á bóginn. Tíminn er fljótur að líða og bílstjórinn var tilbúinn að vera lengur með okkur en ráð var fyrir gert. Ekið til Trongisvágur og til Hvalba. Þar á leiðinni eru fyrstu göngin í Færeyjum. Í Hvalba var kolanám nokkuð fyrr á tímum og er enn. Þar er líka höfn á tvo vegu og fórum við að vestari höfninni. Sem er ansi sérstök. Hlaðinn veggur.
Ekið til Sandvíkur, nyrstu byggðar í Suðurey. Þar á Sigmundur Brestisson fóstursonur Þrándar í Götu að hafa komið í land eftir hið fræga sund og var þar veginn, því bóndinn í Sandvík vildi eignast gullhring sem hann bar. Klukkan var nú að verða fimm og skilaði rútan okkur á Tvøroyri sem er vinabær Hafnarfjarðar. Fórum úr á hafnarbakkanum. Þar var krambúð Thomsens skoðað. Gömul búð frá 1853, selur m.a. saltkjöt frá KEA og lambakjöt frá Íslandi. Konan í búðinni var búin að afgreiða í 50 ár.
Síðasta kvöldmáltíðin borðuð á Hótel Tvøroyri. Hótelbíll sótti okkur og við fórum til Froðba þar sem Þorgerður er fædd og uppalin. Þar á leiðinni eru mjög sérstök stuðlaberg. Í húsinu voru tvenn dönsk hjón og þegar þau fréttu af okkur Íslendingunum var okkur boðið inn í snafs, annað var ekki tekið í mál. Þessi hjón höfðu oft verið á Íslandi og áttu íslenska hesta. Komið við hjá bróður Þorgerðar og sótt grind og spik sem var það síðasta sem sumir snæddu á Suðurey fyrir utan morgunverðinn daginn eftir.

Föstudagur 28. maí:

Vaknað snemma og áætlunarbíllinn tekinn kl. hálf sex. Ferjan fór kl. 6.00. og var ekki eins gott í sjóinn og á útleiðinni. Gaf stundum yfir stefnið. En fáir tóku eftir því, allir sváfu nema Hallgrímur sem enn var í vinnunni og sá sem hér segir, en honum leiddist þófið fljótlega og sofnaði vært.
Þórshöfn var síðan skoðuð í síðasta sinn í þessari ferð.

Haldið var um hádegisbil til Vestmanna á Hótel Vágar þar sem Uni Danielsen tók á móti okkur og þar var síðasta máltíðin snædd. Í lokin var farið í skoðunarferð um Vágar. Fyrst var ekið til Sandavágur og þar ekið upp á fjall og síðan gengið í nokkrar mínútur fram á bjargbrún og Tröllkonufingur barinn augum. Einnig sáum við hinar hliðarnar á Hesti og Kolti sem áttum að sjá fyrsta daginn, en hætt hafði verið við.
Farið til Miðvágur og býlið hennar Beinte eða Barböru sem myndin er byggð á skoðað. Býlið er frá því um 15-1600 og var síðast búið í því 1960. Síðasti ábúandinn fæddist þar 1887.

Í Sørvágur er mikil sandfjara og í Bøur var hluti myndarinnar tekinn. Frá Bøur er útsýni yfir á Mykines og Tindhólm, sem er með gati í gegn líkt og Dyrhólaey.

Til baka var svo haldið út á flugvöll og heim kl. 17.50.
Lent var síðan í Reykjavík um kl. 18 eftir frábæra ferð.

       Guðni Gíslason skráði


Hfj_haus_01