Ferð til S-Afríku 2007

Suður Afríka, Mósambik og Swaziland 13.-28. október 2007

Samantekt Einars Eyjólfssonar

Það var fyrir rúmu ári síðan að ég ræddi við Gunnhildi sem þá var væntanlegur forseti Rótarýklúbbsins um það að skipuleggja ferð til Suður-Afríku. Hún hafði þá starfað sem hjúkrunarfræðingur á vegum Rauða krossins í Kimberlei og sagt frá starfinu hér í rótarýklúbbnum. Hún tók þessari hugmynd vel og upp úr áramótum hófst undirbúningur og skráning í ferðina en við vorum 27 sem fórum. Á bak við þessa ferð bjó ekki aðeins ævintýralöngun heldur áform okkar rótarýfélaga að byggja barnaheimili fyrir munaðarlaus börn í Kimberlei.

Allur undirbúningur þessarar ferðar hefur hvílt á þeim Gunnhildi og Birni Dagbjartssyni rótarýfélaga í Reykjavík Austurbæ sem þekkir vel til á þessum slóðum sem fyrrverandi sendiherra í Mósambik. Björn var okkar aðalfararstjóri í þessari ferð ásamt innlendum fararstjórum í hverju landi fyrir sig.

Laugardaginn  13. október hittust flestir ferðafélagarnir á flugvellinum í París og haldið var af stað í 10 og hálfs tíma næturflug suður Afríku alla.
Sólin var að setjast þegar flogið var af stað rétt eftir kvöldmat og ægifagurt að sjá hvernig vesturhimininn logaði.
Að tíu tímum liðnum var það ekki síður áhrifamikið að sjá þessa sömu blessuðu sól rísa á himni í austri  og mála himininn fagurrauðum lit um leið og hún vakti þessa risavöxnu og heillandi heimsálfu til lífsins.
Tilfinningin fyrir því að fljúga niður yfir alla Afríku var mögnuð og þá ekki síst að upplifa nótt og nýjan dag með þessum hætti.

Lentum í Jóhannesarborg kl. 6 að morgni og hittum þar fyrir fimm félaga okkar sem haldið höfðu af stað degi fyrr.

Mánudaginn 15. október héldum við snemma af stað í áttina að Kruger þjóðgarðinum, um 78 tíma ferð yfir hásléttuna sem liggur frá Jóhannesarborg í áttina til Mósambik. Erfiðlega gekk að komast af stað þar sem Afríkumenn hafa líklega ekki mikla reynslu af því mikla magni farangurs sem fylgir íslendingum á ferðalögum. Í okkar tilfelli var skýringin á miklum farangri einnig sú að við höfðum meðferðis gjafir og glaðning fyrir börnin á barnaheimilinu í Kimberlei.

Komum undir í kvöld í náttstað á fallegum stað í Kruger garðinu.

Þriðjudaginn 16. október héldum við af stað kl.6 að morgni í safari ferð um Kruger garðinn. Þessi gríðarlega stóri þjóðgarður var stofnaður í lok 19. aldar af mikill framsýni en þá var mikil ofveiði á fílum sem og mörgum öðrum dýrategundum.

Það var yfirþyrmandi sterk tilfinning að fara um þjóðgarðinn og upplifa svona mikið landssvæði þar sem náttúaran sjálf fer sínu fram án þess að maðurinn nái nokkru að spilla. Ekkert minnir á mannlífið nema bílarnir sem fara um á hægum hraða. 

Öskureiður fill sem stappaði niður fótum og gerði sig líklegan til þess að ráðast gegn okkur minnti okkur á að við jeppafólkið pössuðum ákaflega illa inn í þessa fallegu náttúrulífsmynd.

Og Búinn leiðsögumaður okkar minnti okkur á að það er harla stutt síðan apartheid réði lögum í Suður Afríku. Það ríkir sannarlega ekki sama jafnvægi í mannlífinu í S. Afríku eins og hér í þessum fallega þjóðgarði. Félagi Trausti Lárusson var einn svo hugaður í okkar bíl að reyna að rökræða við blessaðan búan en náði engum árangri.

Miðvikudagin 17. október lögðum við snemma af stað til Mósambik og fórum fallega leið gegnum sykurakrana í áttina að landamærum. Sárt var að upplifa fátæktina á leiðinni þar sem við sáum fólk týna upp sykurreyrinn sem féll af flutningabílum og naga úr þeim næringuna.

Við vorum á þremur bílum og okkar bílstjóri var hvítur maður frá Zimbabwe. Það leyndi sér ekki hve stressaður hann varð þegar við nálguðumst landamærin enda varaði hann okkur við og sagði þetta hræðilega landamærastöð. Björn Dagbjartsson hafði reyndar varað okkur við því sama en íslendingar eru nú ýmsu vanir og  þótt um okkur færi að horfa upp á náfölan titrandi bílstjórann bar ævintýraþráin hræðsluna ofurliði og flesta hlakkaði nú bara til að mæta því sem beið. Og sem betur fer gekk allt nokkuð greiðlega fyrir sig þrátt fyrir að upplifunin hafi verið einstaklega ævintýraleg. Hróp, köll og svitalykt og skipulögð óreiða einkenndi þessa ágætu landamærastöð.

Þegar inn í Mósambik var komið leyndi sér ekki að við vorum komin inn í þróunarland. Fátæktin er skelfileg og birtist okkur í óhrjálegum kofum sem erfitt er að ímynda sér sem mannabústaði. Ástandið versnaði þegar komið var inn í úthverfi Mabútó höfðuborgar Mósambik. Hræðileg fátækrahverfi blöstu við og ömurlegast að aka framhjá öskuhaugunum og sjá fólkið leita sér matar. Þess má geta að Mósambik er eitt af 10 fátækustu ríkjum veraldar.

Enn sem fyrr voru það blendnar tilfinningar að að aka í gegnum ósköpin að glæsilegu hóteli við sólarströnd og njóta þess sem fyrr að vera á saga class í þessari veröld.

Um kvöldið heimsótti okkur á hótelið Hólmfríður Garðarsdóttir Hafnfirðingur og hjúkrunarkona sem starfar á vegum Ruða krossins í Mósambik og sagði okkur frá starfi sínu. Hún er dóttir Garðars pípara. Það er góð tilfinning að vita af svona góðri manneskju við störf á vegum Rauða kross Íslands.

Fimmtudaginn 18. október fórum við af stað kl. 8.30 í skoðunarferð um Mabútó. Fyrsti viðkomustaður var íslenska sendiráðið sem aðallega hýsir starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.  Björn Dagbjartsson er hér öllum hnútum kunnur enda fyrrverandi sendiherra Íslands í Mósambik og  hans gömlu húskarlar hér innlendir tóku honum fagnandi og leyndi sér ekki að þeir voru að fagna góðum vini. Viðmót Björns við innfædda hvar sem við komum var reyndar með þeim hætti að vakti aðdáun okkar allra.

Í sendiráðinu tók á móti okkur staðgengill sendiherra Jóhann Pálsson forstöðumaður Þróunarsamvinnustofnunar hér í landi. Auk hans hittum við hér íslendingana Jóhann Þorsteinsson og Guðmund Val sem er tengdasonur frænda míns sr. Árna Pálssonar. Fróðlegt var að kynnast öflugu starfi Þróunarsamvinnstofnunar hér.

Að þessari heimsókn lokinni var farið í skoðunarferð um borgina, í Dómkirkjuna, á söfn og síðast en ekki síst markað. Enn sem fyrr mögnuð upplifun. Hitasvækja og flugur. Alls kyns skran og dót. Og aðgangsharðir götusalarnir.
Borðuðum á fiskréttarstað í hádeginu og síðan te á Polana glæsilhótelinu. Á heimleið ókum við framhjá heimili Mandela sem býr hér en hann er giftur fyrrverandi forsetafrú landsins. Enn eru það þessar hrikalegu andstæður, fátæktin og ríkidæmið sem er efst í huga.

Föstudaginn 19. október lögðum við snemma af stað yfir landamærin til Swazilands. Swazi er sjálfstætt konungsríki sem var áður á verndarsvæði bresku krúnunnar sem kom í veg fyrir að landið færi undir stjórn Suður Afríku. Hér ríkir gömul konungsætt og konungurinn að mörgu leiti einráður þótt hér sé einhvers konar þing. Konungur á 13 eiginkonur enda fjölkvæni hér leyfilegt. 

Þrátt fyrir ólýðræðislega stjórnarhætti virðist ríkinu vera vel stjórnað og alger umskipti að koma hingað frá Mósambik. Hér er miklu meiri velmegun, allt miklu snyrtilegra og fátækrahverfin ekki eins hræðileg. Hingað leita því margir flóttamenn frá Mósambik enda gerðist það fljótlega eftir að við komum yfir landamærin að vopnaðir hermenn stöðvuðu okkur til þess að kanna hvort einhverjir flóttamenn væru í bílunum. Þetta er lítið land og fjalllent, djúpir dalir og há fjöll og fólkið er fallegt og kemur vel fyrir.

Skoðuðum kertaverksmiðjuna Swasi Candles.

Komum á hotel um kl. 18. Hér hefur í dag verið svalt í veðri og þoka þar sem við höfum farið ofarlega í fjöllin. Óhætt er að segja að Swaziland hafi komið þægilega á óvart á allan hátt og hafðum gjarnan viljað vera hér lengur en á morgun verður haldið snemma af stað inní Suður Afríku á ný.

Laugardaginn 20. október vöknuðum við kl. 6 enda löng ferð framundan. Þar sem við gengum fram með hótelinu heyrðum við einkennilegt hljóð eða öskur í grennd og frú Edda Möller leitaðist við að sannfæra alla að þarna hefði heyrst í ljóni. Ókum nú að landamærum S Afríku og gekk greiðlega að komast þar í gegn. Við tók nokkura tíma akstur yfir mikla sléttu og strjálbýla en á þessu svæði, Free State, ráða ríkjum gamlir stórbændur, Búar.

Undir kvöld var komið í náttstað í hinum stórkostlega Golden Gate þjóðgarði. Rauðleitar risaklettaborgir einkenna landslagið og fallegt var að upplifa sólina setjast og varpa þessum stórkostlega afríska kvöldsólarbjarma yfir landið. Afríka er engu lík. Hver dagur nýr kemur hér á óvart.

Sunnudaginn 21. okt var svo haldið í áttina til Kimberlei.

Fórum meðfram landamærum Leshoto sem er sjálfstætt konungsríki eins og Swasiland. Fararstjóri sagði þetta einstaklega fallegt fjallaland, swiss Suður Afríku en þess má geta að Mandela og fleirri baráttumenn svartra áttu þarna griðarstað fyrr á árum. Áttum fyrst viðdvöl í Bloemfontain sem er höfuðborg  Free State. Falleg og blómleg borg og allt afar snyrtilegt. Þaðan var um tveggja tíma akstur til Kimberlei en þar vorum við komin í fylkið Northern Cape sem er stærsta fylki Suður Afríku þótt íbúar þar séu aðeins 1 milljón af 47 milljónum íbúa Suður Afríku.

Kimberlei er þekktust fyrir gömlu demantsnámurnar og þar er að finna námu sem á sínum tíma var sú stærsta í heimi.
Þetta er búinn að vera bjartur og heitur dagur en við finnum lítið fyrir því enda í rútu drjúgan hluta dagsins.

Á morgun bíður okkar stóra verkefnið, heimsókn í barnaheimilið í Galeshewe sem er fátækt svæði sunnan Kimberlei. Eins og áður segir starfaði Gunnhildur þar sem hjúkrunarfræðingur á vegum Rauðakrossins um tíma og bast fólkinu hér sterkum böndum. Til fróðleiks má geta þess að utan á hótelinu sem við gistum á hér í Kimberlei er mynd af skammbyssu með rauðu striki yfir sem er að sjálfssögðu skilaboð um að ekki megi bera vop á þessu hóteli. Segir allt um ástand mála í þessu landi þar sem glæpir eru með því mesta sem þekkist.

Mánudaginn 22. október skrifa ég í dagbók:

Þá er stóri dagurinn runninn upp. Við byrjuðum á því að heimsækja hús Rauða kross Íslands hér í Kimberlei. Starfsmenn RI eru 11 og svo 60 sjálfboðaliðar. Þetta fólk sér um alnæmisfræðslu í skólum og fátækrahverfum, fræðir fólk um hreinlæti og getnaðarvarnir. Fórum að því búnu inn í fátækrahverfið Galishewe og heimsóttum þar barnaheimilið sem við ætlum að styrkja. Það segir allt um það hve fjarri þessi fátaækrahverfi eru veruleika hinna hvítu íbúa að sannfæra þurfti bílstjórann okkar um að óhætt væri að fara með rútuna inn í hverfið.

Barnaheimilið er bárujárnsbraggi ca. 100 fermetrar og hýsir 110 börn og fyrir utan eru tveir útikamrar. Þrátt fyrir þessi fátæklegu húsakynni er allt mjög snyrtilegt innandyra og allt starfið miðar að fræðslu fyrir börnin sem eru á aldrinum 14 mánaða til 6 ára. Allt eru þetta munaðarlaus börn sem dvelja hjá ættingjum yfir nóttina en á daginn á þessu heimili. Mæður og feður flestra þessara barna hafa dáið úr alnæmi.

Þegar við komum á staðinn var hluti barnanna utandyra að dansa við fallega afríska tónlist. Dansinn eru afríkubörnum augljóslega í blóð borinn. Síðan stilltu þau sér upp fyrir framan okkur og sungu fyrir okkur: Heims um ból. Aldrei hef ég heyrt þennan helga jólasálm sunginn af meiri hjartans gleði en þarna í 30 stiga sumarhita af fallegum munaðarlausum börnum. Eitt er víst að þau húsakynni sem þessi börn búa í eru talsvert nær þeim raunveruleika sem frelsarinn fæddist inn í en okkar, svo allt var þetta yfirþyrmandi raunverulegt , ekki síst þegar maður hugsar um íslenska textann; Hvert fátækt hreysi höll nú er, því Guð er sjálfur gestur hér.

Þegar inn var komið færðum við börnunum epli og sælgæti og óhætt að segja að þessi börn kunna að þakka fyrir sig. Öll voru þau brosmild og falleg, klöppuðu saman lófum þegar við nálguðumst þau með góðgætið og réttu fram hendur og hneigðu sig. Og innandyra hélt jólasöngurinn áfram. Kannski var skýringin á jólalögunum sú að þeim hafi fundist jólin vera að koma til sín með þessu skrýtna hvíta fólki sem færði þeim gjafir, eins og vitringarnir í jólasögunni.

Gunnhildur á mikið hrós skilið fyrir hennar störf hér og ánægjulegt að sjá hve vel henni var fagnað af sínu fólki.
Mamma heyrðist sagt þegar hún birtist.

Það var erfitt að kveðja börnin og kennslukonurnar og mörg tárin sem  féllu. Það var ótrúleg lífsreynsla að hitta þessi fallegu börn og vonandi að verkefni okkar megi verða að veruleika og þau njóta betri húsakynna.

Frá Galisewe héldum við til þorps sem heitir Blutfortein í næsta nágrenni, fátækrahverfi. Í þessu þorpi eða hverfi búa Búskmenn en Búskmenn eru frumbyggjar Afríku. Þetta fólk hafði verið flutt frá Namíbíu til Suður Afríku sem flóttamenn.

Það vakti athygli okkar að í þessu hverfi brostu fáir og fólkið hafði mjög svo frumstætt yfirbragð og allt öðru vísi í hátt en það fólk sem við höfðum hitt fram að þessu. Þetta fólk leyfði okkur að skoða híbýli sín og það var skelfilegt og verður ekki með orðum lýst og setning úr Íslandsklukkunni leitaði á hugann: Vinur, af hverju dregur þú mig inn í þetta voðalega hús. Frá þessum búskmönnum  fórum við yfir á þær slóðir þar sem Gunnhildur starfaði við að hlú að alnæmissmituðu fólki í heimahúsum.

Einn hinna innfæddu rauðakrossmanna sagði okkur frá því að ekki væru mörg ár síðan sjáukrabíll neitaði að fara með unga konu á sjúkrahús þegar þeir áttuðu sig á að hún væri alnæmissmituð. Koma Gunnhildar hingað árið 2002 varð hins vegar til þess að breyta hugarfarinu hér og nú fer fram öflugt starf eins og áður segir, 11 starfsmenn og 60 sjálfboðaliðar.

Börn og fullorðna dreif að úr öllum áttum þar sem við stoppuðum og reyndum við að gera öllum eitthvað til góða, sælgæti, epli og pennar voru gersemar í höndum þessa fátæka fólks. Í næsti nágrenni voru tvö dagheimili og börnin þar þakklát fyrir sælgæti og penna og sungu fyrir okkur að launum.

Í framhaldi af þessu var svo farin hefðbundin túristaferð í Big Hole, þessa frægu demantanámu.
Einhvern veginn varð þó þessi Big hole ósköp smá á samanburði við brosandi andlit fallegu barnanna sem við sáum þennan dag, að ekki sé minnst á sorgmædd andlit búskmanna í flóttamannabúðum.
Um kvöldið var svo rótarýfundur með rótarýmönnum í Kimberlei og má segja það nokkurn sigur að fá þessa hvítu menn til liðs við okkur í fyrirhuguðu verkefni í Galesewe.
Þriðjudaginn 23. október ókum við 800 km leið frá Kimberlei niður að ströndinni til Kysna sem er fallegur ferðamannastaður. Landslagið fremur flatt framan af  ferðinni en fórum síðan í gegnum og yfir mikinn fjallgarð, Svörtufjöll. Ótrúleg náttúrufegurð og allt öðru vísi en við höfum upplifað hingað til. Afríka heldur áfram að heilla okkur með nýjum og nýjum töfrum á degi hverjum, skrifa ég í dagbókina.

Fórum í bát út í fallega eyju hér fyrir utan. Þetta er há eyja skógi vaxinn og gríðarlega fallegir klettar meðfram ströndinni.
Hljóðin í skóginum frá fuglum og dýrum. Blóm og tré. Ekki skemmdi fyrir að regnskúr kom yfir eyjuna og hreinsaði loftið og síðan birti til og sólin baðaði allt og lyktin varð engu lík, lyktin af Afríku. Það er undarlega tilfinning að vera hér við Indlandshaf, horfa til suðurs og vita þar ekkert framunda nema suðurskautið sjálfs. Það er sérstæð tilfinning að vera hér við Indlandshaf, horfa til suðurs og vita þar ekkert framundan nema suðurskautið sjálft.

Fimmtudaginn 25. október lögðum snemma af stað frá Knysna til Höfðaborgar, Cape Town. Einstaklega falleg leið meðfram suðurströndinni til vesturs. Svo nálgaðist Höfðaborg og úthverfin blöstu við okkur, hræðileg fátækrahverfi og gríðarlega fjölmenn. Borgin sjálf, bæjarstæðið er líklega eitt það allra fallegasta í veröldinni, með Borðfjallið í baksvip og svo er Góðrarvonarhöfði í fjarska.

Föstudaginn 26. október lögðum af stað snemma morguns í vínsmökkunarferð um einstaklega fallega sveit í grennd við Höfðaborg. Kampavín með morgunmat á fyrsta býlinu sem við heimsækjum.

Rauðvínssmökkun á næstu tveimur viðkomustöðum og endað í koníakssmökkun. Og í dagbók skrifa ég: Enginn fullur.
Enduðum síðan í skemmtilegri grillveislu hjá yndælisfólki og kynntumst suður afrísku heimili hvítra. Gaman að spjalla og fá tækifæri til þess að kynnast heimafólki og hugsunarhætti þess.

Laugardaginn 27. október fórum við fyrst að Góðrarvonarhöfða og hvílík upplifun. Sagan um fyrstu siglingar Evrópumanna fyrir höfðann leituðu á hugan. Fórum síðan upp á Borðfjallið og dáðumst að útsýni yfir borgina.

Sunnudaginn 28. október var svo lagt af stað heim um kl. 15. Flogið til Jóhannesarborgar. Þaðan næturflug til London og þaðan til Keflavíkur. Nærri sólarhrings ferð.

Ég veit ég mæli fyrir hönd allra ferðafélaganna þegar ég segi að þessi ferð hafi á allan hátt tekist einstaklega vel og ég vil nota tækifærið og þakka Birni Dagbjartssyni og Gunnhildi fyrir allt sem þau lögðu á sig fyrir þessa ferð. Öll vonum við innilega að þessi ferð sé aðeins upphafið að frekari aðstoð okkar rótarýfélaga við munaðarlaus börn á þessum slóðu.


Hfj_haus_01