Átak til fegrunar í miðbænum
Mesta framtak R.H. í fegrun miðbæjarins og snyrtingu var lagfæring og umbreyting á tveimur malarsvæðum sunnan apóteks og vestan verslunar Einars Þorgilssonar. Þau höfðu áður verið stakkstæði eða fiskþurrkunarreitir. Nú tók R.H. sér fyrir hendur að breyta malarreitunum í grasflatir. Þetta var vorið 1954 og hafði Valgarð Thoroddsen forgöngu um framkvæmdir en hann var nú formaður Fegrunarfélagsins. Skyldi verkinu vera lokið fyrir 17. júní þetta vor og stóðst það. Fyrirtæki undir forsjá rótarýfélaga og þeir sjálfir styrktu þessar framkvæmdir, lánuðu ökutæki og verkfæri. Mest um vert var þó að þeir gengu sjálfir í verkin, mættu með skóflu í hendi á staðnum og spöruðu sig ekki í sjálfboðavinnunni. Vegfarendur á Strandgötu ráku upp stór augu þegar þeir sáu þar ýmsa borgara í moldarverkum sem betur voru þekktir við önnur störf. Á syðri grasflötinni var komið fyrir líkani af kunnri skútu frá byrjun aldar, kútter Surprise. Setti það svip á þessa framkvæmd rótarýmanna. Seja má að enn sjáist árangurinn af þessu framtaki rótarýklúbbsins vorið 1954.
Valgarð Thoroddsen gerði grein fyrir kostnaði við þessar framkvæmdir. Kostnaður alls var um 45,000 kr.,ógr. 5000 kr..sem klúbburinn var í raun ábyrgur fyrir. Hét hann á menn að bregðast vel við þeim skyldum. Þessu lauk þannig að klúbburinn samþykkti að greiða 1000 kr. af skuldinni gegn framlagi bæjar og annarra, 4.000 kr. Þannig lauk þessu máli.