Endurgerð húss Bjarna riddara

Hús Bjarna riddara endurgert

Hinn 16. júlí 1964 flutti Bjarni Snæbjörnsson ræðu á klúbbfundi um Hús Bjarna riddara. Lýsti hann gjörla hvað húsið væri illa farið og ekki mætti dragast úr hömlu að taka ákvörðun um hvort endurreisa ætti það eða rífa. Hann rakti fyrri umræður um húsið á öðrum vettvöngum. Kom hann þar máli sínu að hann lagði eindregið til að R.H. beitti sér fyrir varðveislu og endurreisn hússins. Málið var rætt lítillega á næstu fundum og 24. september var boðað til kvöldfundar til umræðu um Hús Bjarna riddara. Þar flutti Bjarni Snæbjörnsson svohljóðandi tillögu:

"Klúbburinn samþykkir að beita sér fyrir því að varðveita og endurbyggja hús Bjarna riddara Sívertsen að fengnu leyfi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar. Til þess að hrinda þessu í framkvæmd skal kosin nefnd 5 manna sem í samráði við stjórn klúbbsins kveði á um hvar húsið verði endurreist, hve mikið fjármagn þurfi til verksins og hvernig heppilegast væri að afla fjárins og standa fyrir framkvænd verksins.”

Tillagan var samþykkt og nefndin kosin. Í henni voru: Bjarni Snæbjörnsson, Stefán Jónsson, Jón Bergsson, Sigurður Kristinsson og Stefán G. Sigurðsson. Nefndin skrifaði öðrum félögum í bænum um málið og varð niðurstaðan sú að stofnað var félagið „Hús Bjarna riddara”. Svo segir í Sögu Hafnarfjarðar 1908-1983, þriðja bindi bls. 230: „Í febrúarmánuði sama ár (1965) heimilaði bæjarstjórn Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar að endurbyggja húsið og ákvað að greiða allt að 1/4 af kostnaði við endurbygginguna, enda yrðu allar framkvæmdir við húsið og verndum þess gerðar í samráði við þjóðminjavörð og bæjarverkfræðing.”

Á þennan hátt komst málið í ákveðinn farveg og þótt áratugur liði þar til húsið var tilbúið til vígslu sem minjasafn voru framkvæmdir í réttu horfi. Eins og vænta mátti var þetta harla dýrt fyrirtæki og fengust fjárframlög úr ríkissjóði, bæjarsjóði og víðar að. Rótarýfélaginn Gunnar H. Ágústsson hafnarstjóri sá að mestu um framkvæmdir af bæjarins hálfu en til ráðgjafar var þjóðminjavörður, í fyrstu dr. Kristján Eldjárn og síðar Þór Magnússon. Í ársbyrjun 1966 var fenginn til landsins danskur sérfræðingur í gerð slíkra húsa. Karsten Rönner. Hann kom á fund í R.H. 27. janúar 1966 og lýsti upprunalegri gerð hússins.

Bæjarstjórn tók Hús Bjarna riddara algerlega upp á sína arma árið 1973 og á þjóðhátíð til minningar um ellefu hundruð ára byggð í landinu árið eftir var það vígt sem byggðasafn.




Hfj_haus_01