Barnaheimili í S-Afríku

Dagheimili fyrir munaðarlaus börn í Kimberley í Suður Afríku

Samstarfsverkefni þriggja klúbba, Rótarýumdæmisins og Rótarýsjóðsins

Eitthvert stærsta og umfangsmesta verkefni sem Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar hefur nokkru sinni ráðist í er bygging heimilis fyrir munaðarlaus börn fórnarlamba alnæmis í fátækrahverfi í borginni Kimberley í Suður Afríku. Núverandi forseti RH, Gunnhildur Sigurðardóttir, kynntist aðstæðum þessara barna þegar hún vann á vegum Rauðakross Íslands við aðhlynningu alnæmissjúkra í þessari borg á árunum 2003 og 2004. Félagar í RH og Rótarýklúbbi Suður Kimberley ákváðu að standa saman að þessu verkefni árið 2006 og Rótarýklúbburinn Reykjavík Austurbær slóst í hópinn seinna sama ár.

Frá heímsókn Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar til S-AfríkuBæði Rótarýumdæmið á Íslandi og Alþjóða Rótarýsjóðurinn, The Rotary Foundation, styrkja þetta verkefni sem mun vera fyrsta samstarfverkefni af þessum toga sem íslenskir klúbbar eiga við TRF. Eftir gengisbreytingar á undanförnu stendur samningsupphæðin við byggingarverktann í u.þ.b. 13 milljónum ísl króna. Ýmsir félagar í RH hafa stutt verkefnið umfram framlög klúbbsins en einn klúbbfélaginn ber þó af og án hans aðstoðar hefði verkefnið amk. dregist mjög á langinn. Þetta einkaframlag mun, eins og málin standa í dag, nema meira en helmingi af samningsupphæð verkefnisins.

Byggingu heimilisins á að vera lokið í ágúst 2008. Þetta eru 470 fermetra músteinsbyggingar, fjórar stofur, bygging fyrir eldhús, sjúkraherbergi, geymslu og móttöku og svo hreinlætisaðstaða. Þarna verður rekið dagheimili af sjálfseignarstofnun kvenna í hverfinu fyrir 200 börn, á aldrinum 6 mánaða til 6 ára. Þessi börn hafa misst foreldra sína úr alnæmi og eru sum smituð sjálf. Öll aðstaða og aðbúnaður barnanna verður gjörbylting frá þeim ömurlegu bárujárnsskúrum sem þau hírast nú í. Verkefnið hefur vakið verðskuldaða athygli bæði hér á landi og erlendis.


Hfj_haus_01