Inntaka nýrra félaga
Mikilvægt er að taka vel á móti nýjum rótarýfélögum og láta þá strax finna að þeir eru velkomnir í klúbbinn og að þeir tilheyri hópnum. Stjórn í hverjum klúbb hefur það hlutverk að koma á og innleiða leiðir til að ná til nýrra félaga og halda þeim í klúbbnum. Stjórnin getur falið ákveðinni nefnd þetta verkefni til dæmis klúbb- eða félagavalsnefnd
Skjöl:
Inntöku nýrra félaga má skipta í þrennt:
- Kynning og undirbúningur
- Inntakan sjálf
- Eftirfylgni
1. Kynning og undirbúningur
Í 13. grein sérlaga rótarýklúbba kemur fram hvernig val nýrra félaga fer fram. (Sjá neðar)
Allir félagar geta komið með tillögu um nýjan rótarýfélaga og sent hana skriflega til stjórnar/félagavals-/klúbbnefndar. Er tillagan trúnaðarmál þar til afstaða klúbbsins liggur fyrir. Samþykki stjórnin tillögu um nýjan rótarýfélaga skal nafnið hans ásamt starfsgrein kynnt fyrir klúbbfélögum. Fái stjórnin ekki skrifleg rökstudd andmæli frá félögum innan ákveðins tíma frá því tillagan var kynnt telst hann/hún rétt kjörinn félagi.
Forseti eða sá félagi sem mælir með væntanlegum rótarýfélaga hefur samband við hana/hann og býður honum/henni að koma á fund í klúbbinn og kynnast lítillega hvað fer þar fram. Einnig mætti halda sérstakan kynningarfund og bjóða einstaklingum til fundarins sem félagar mæla með að gangi í rótarýklúbbinn.
Mjög mikilvægt er að væntanlegur nýr félagi fái afhent kynningarefni um Rótarý og hvetja hann/hana til að skoða heimasíðurnar rotary.is og rotary.org. Skýra þarf á sem bestan hátt frá klúbbstarfseminni,s.s. um fjölda funda, hvar þeir eru haldnir og hvernig þeir fara fram. Upplýsa þarf viðkomandi um hvað það kostar að vera í klúbbnum. Æskilegt er að bjóða henni/honum að koma á fundi jafnvel 3-5 eftir aðstæðum og áhuga, áður eða á eftir að tillaga að nýjum félaga hefur verið kynnt klúbbfélögum. Einnig ætti að afhenda eða upplýsa um félagaskrána svo viðkomandi geti betur gert sér grein fyrir væntanlegum klúbbfélögum.
2. Inntakan
Nú hefur hún/hann ákveðið sig og vill ganga til liðs við rótarýhreyfingu. Forseti sér um inntöku hins nýja félaga með því að lesa ávarp, afhenda merki Rótarý og kynningarefni, sem hann/hún hefur ekki fengið áður. Gera þarf inntökuna hátíðlega og standa klúbbfélagar upp á meðan á inntökunni stendur. Ennfremur mætti nota hátíðarstundir í starfi klúbbsins og taka inn nýja félaga. Eftir inntöku gefst nýjum rótarýfélaga tækifæri til að segja örlítið frá sjálfum sér, ef hann/hún vill. Einnig væri til fyrirmyndar ef eldri rótarýfélagar kynntu sig með nafni og fyrir hvað starfsgrein þeir standi.
3. Eftirfylgni
Nauðsynlegt er að fylgja nýjum félaga vel eftir í upphafi starfs. Lagt er til að fela félagavalsnefnd/klúbbnefnd eða tilnefna „mentor“/félaga til að aðstoða nýjan rótarýfélaga með því að hafa samband við hann fyrir fund, bjóða hann velkominn og taki hann að sér á fundum og sitji jafnvel hjá honum og kynni fyrir öðrum félögum eins og þarf. Minna hann á næsta fund og hvetja hann til að mæta. Þetta er hægt að gera í ákveðinn tíma til dæmis 2 - 3 mánuði eða eins lengi og mentorinn telur þurfa. Með þessu ætti nýi félaginn að festa betur rætur í klúbbnum.
Fylgjast þarf með mætingum og hafa samband við nýja og eldri rótarýfélaga ef mætingin dettur niður, hvetja þá til að mæta betur og fela þeim verkefni.
Áhersluatriði:
- Hver stjórn eigi að móta sér skýr markmið um fjölda klúbbfélaga og vinna eftir því.
- Hver rótarýklúbbur skal vinna eftir settum reglum um val, kynningu og inntöku nýrra félaga.
- Fylgja þarf nýjum félögum eftir í ákveðinn tíma svo þeir festi rætur í Rótarýhreyfingunni.
Sérlög rótarýklúbbs, 2010
13. grein. Val nýrra félaga.
- Félagar í klúbbnum geta komið tillögu um nýjan félaga skriflega til stjórnar og tekur ritari við henni fyrir hönd stjórnarinnar. Aðrir rótarýklúbbar geta borið fram tillögu um að félagar eða fyrrverandi félagar í þeirra klúbbi verði gerðir að félögum í klúbbnum. Tillögur um nýja félaga eru trúnaðarmál svo lengi sem kveðið er á um í lögum þessum.
- Stjórn klúbbsins gengur úr skugga um að sá er gerð er tillaga um uppfylli kröfur sem gerðar eru til nýrra félaga í grundvallarlögum rótarýklúbba.
- Stjórn klúbbsins samþykkir eða synjar tillögunni innan 30 daga frá því hún kemur fram og lætur ritari þann sem tillöguna bar fram vita af niðurstöðunni.
- Samþykki stjórn klúbbsins tillögu um nýjan félaga þá skal viðkomandi fræddur um markmið Rótarý og um réttindi og skyldur rótarýfélaga. Þá er viðkomandi beðinn um að undirrita inntökublað og að heimila að nafn hans/hennar ásamt starfsgrein verði kynnt félögum í klúbbnum.
- Hafi stjórn klúbbsins ekki borist skrifleg rökstudd andmæli frá félögum í klúbbnum (öðrum en heiðursfélögum) við inntöku viðkomandi innan sjö daga frá því tillagan var kynnt og þegar viðkomandi hefur greitt inntökugjald í klúbbinn í samræmi við sérlög þessi (ef ekki er um heiðursfélaga að ræða) telst hann/hún rétt kjörinn félagi í klúbbnum.Hafi stjórnin fengið andmæli við framkomna tillögu um nýjan félaga skulu greidd atkvæði um hana á næsta stjórnarfundi. Ef tillagan er samþykkt þrátt fyrir fram komin andmæli þá telst viðkomandi rétt kjörinn félagi í klúbbnum þegar inntökugjald hefur verið greitt.
- Í framhaldi af kjörinu sér forseti um inntöku hins nýja félaga og að honum sé afhent meðlimskort og fræðsluefni um Rótarý fyrir nýja félaga. Forseti eða ritari skulu tilkynna RI inngöngu hins nýja félaga. Forseti skal einnig tilnefna klúbbfélaga til að aðstoða hinn nýja félaga við að aðlagast klúbbstarfinu og jafnframt fela honum verkefni er tengist starfi klúbbsins.Klúbburinn getur samkvæmt tillögu stjórnar valið heiðursfélaga í samræmi við grundvallarlög rótarýklúbba.
Ávarp við inntöku nýrra félaga
Mikilvægt er að taka vel á móti nýjum rótarýfélögum og láta þá strax finna að þeir eru velkomnir í klúbbinn og að þeir tilheyri hópnum. Stjórn í hverjum klúbb hefur það hlutverk að koma á og innleiða leiðir til að ná til nýrra félaga og halda þeim í klúbbnum. Stjórnin getur falið ákveðinni nefnd þetta verkefni til dæmis klúbb- eða félagavalsnefnd.
Ath. Ef tveir eða fleiri eru teknir inn í klúbb í einu þarf að breyta yfir í fleirtölu þar sem við á og laga texta í samræmi við það.
Að lokinni fundarsetningu ávarpar forsetinn væntanlega félaga: (Rótarýfélagar standa á fætur)
Í dag er þér heilsað sem fullgildum félaga í Rótarýklúbbi___________ sem er í umdæmi Rótarý International nr. 1360 á Íslandi.
Rótarý er félagsskapur, þar sem félagar eru valdir án tillits til trúmála, stjórnmála eða þjóðernis. Rótarý er félagsskapur fólks sem vill vinna að eftirfarandi markmiðum:
- Auka kynni á meðal fólks
- Efla siðgæði í leik og starfi
- Auka viðurkenningu á gildi nytsamra starfa
- Efla virðingu rótarýfélaga fyrir sínu eigin starfi
- Að setja þjónustu við aðra ofar eigin hag
- Efla góðvild og frið milli þjóða
Rótarý starfar samkvæmt því grunngildi að þú átt að koma fram við aðra eins og þú vilt að þeir komi fram við þig.
Í dag verður (einum eða fleirum) veitt innganga í klúbb okkar:
Nafn, starfsheiti, fulltrúi starfsgreinarinnar
Þér er gefin kostur á að verða félagi í klúbbi okkar vegna þeirra kynna og afspurnar sem við höfum haft af þér og þínum störfum. Við treystum þér til að starfa í samræmi við grundvallarlög og hugsjón Rótarý.Hvar sem þú kemur á fund í rótarýklúbbi, eða hittir rótarýfélaga, ert þú meðal vina, sem eru tilbúnir til að liðsinna þér eftir föngum. Í Rótarý kynnistu málefnum líðandi stundar.Þér ber sem rótarýfélaga að sækja klúbbfundi nema gildar ástæður hamli og að takast á hendur þau störf sem klúbburinn kann að fela þér. Það er meðal annars hlutverk þitt að fræða okkur hin um starfsgrein þína Sama skylda hvílir á okkur gagnvart þér.Síðast en ekki síst er það skylda þín að efla hugsjón Rótarý á meðal starfsfélaga þinna og sýna þá hugsun jafnan í verki. Vertu þess minnugur að klúbbur okkar og Rótarýhreyfingin verða metin eftir þér og starfi þínu.Í trausti þess að þú styðjir málefni Rótarýhreyfingarinnar - lýsi ég hér með yfir - að þú ert fullgildur félagi í Rótarýklúbbi með þeim réttindum og skyldum sem því fylgja.
Félagsaðild þín verður nú staðfest með rótarýmerkinu, tákni hreyfingarinnar.
Forseti nefnir nafn, nælir merkinu í barm viðkomandi, myndataka og handaband – afhendir félagatal og fjórprófið
Ávarp:
Þú ert boðinn velkominn í klúbbinn okkar. Hér ert þú á meðal vina sem taka vel á móti þér.
Það er okkur sönn ánægja að fá þig í okkar hóp og við vonum að vera þín með okkur verði okkur öllum til góðs. Saman skulum við efla andann og fræðast og öll skulum við kappkosta að verða okkur sjálfum og Rótarý til sóma.
Ágætu félagar – við fögnum nýjum félaga
Lófaklapp
Ávarp við endurtöku fyrrum rótarýfélaga
Að lokinni fundarsetningu ávarpar forsetinn væntanlega félaga: (Rótarýfélagar standa á fætur)
NN__________________ í dag er þér heilsað sem félaga í Rótarýklúbbi ___________________.
Þar sem þú hefur áður verið starfandi rótarýfélagi er þér kunnugt um stefnu, hlutverk og starf Rótarý í öllum aðalatriðum og um réttindi og skyldur rótarýfélaga. Er því eigi þörf á að fara hér um það orðum sérstaklega. Þér hefir verið gefinn kostur á að gerast félagi í klúbbi okkar sökum þess, að vegna kynna okkar af þér og störfum þínum í Rótarý erum við þess fullviss að þú munt starfa áfram að viðgangi Rótarýs og heill og gengi klúbbs okkar.
Þú verður fulltrúi fyrir starfsgreinina _______________________
Ég lýsi því hér með yfir að þú ert fullgildur félagi í rótarýklúbbi okkar og býð þig velkominn meðal okkar.
Forseti: Handaband og myndataka – afhendir félagatal