Vel heppnuð árshátíð
Það er mál manna að vel hafi tekist til með hátíðina enda hún afar vel sótt en 90 félagar og gestir mættu á fagnaðinn.
Árshátíð Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar var haldin laugardaginn 4. október sl. Hátíðin hófst með því að Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri, tók á móti árshátíðargestum í Bungalowinu við Vesturgötu og sagði frá sögu hússins. Margir voru að koma þarna í fyrsta sinn eftir gagngerar breytingar á húsinu og var mikil ánægja með þetta boð.
Frá Bungalowinu var haldið á Ásvelli þar sem tekið var á móti gestum með fordrykk og ljúffengum veitingum en Jón Örn Stefánsson sá um matargerðina.
Undir borðum var ýmislegt gert til að létta lund og má þar nefna að Kári Valvesson flutti ræðu kvöldsins með léttu ívafi eins og honum er lagið.
Sigurþór Aðalsteinsson orti nokkra smellna fyrriparta um stjórn klúbbsins og nýliðna atburði og kepptust árshátíðargestir við að botna hver sem betur gat og vakti það mikla lukku.
Í lok borðhalds komu svo stórsögnvararnir Davíð Ólafsson og Stefán Íslandi yngri ásamt Helga Má Hannessyni píanóleikara og skemmtu gestum með leik og söng.
Fjöldi fyrirtækja studdi við árshátíðina með því að gefa happdrættisvinninga og fóru margir heim með góða vinninga í lok kvöldsins.
Magnús Kjartansson lék flotta dinnertónlist á meðan á borðhaldi stóð auk þess sem hann lék fyrir dansi til kl eitt um nóttina.
Það er mál manna að vel hafi tekist til með hátíðina enda hún afar vel sótt en 90 félagar og gestir mættu á fagnaðinn.