Fréttir

12.1.2008

Bjarni Jónsson - minning

Kveðja frá Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar

Góður félagi okkar í Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar, Bjarni Jónsson listmálari, lést þriðjudaginn 8. janúar sl. Það ótrúlegt að hann skuli vera farinn frá okkur svona skyndilega. Hann mætti á Rótarýfund eins og venjulega fimmtudaginn 3. janúar sl.
Bjarni gekk Rótarýklúbb Hafnarfjarðar 22. júní 1962 og var í honum til dauðadags að frátöldum tólf árum á sjöunda og áttunda áratugnum er hann tók sér frí frá rótarýstörfum. Bjarni var áhugasamur og aðgætinn félagi sem mætti á alla fundi. Ef hann gat ekki mætt hjá okkar þá var hann duglegur að sækja fundi í öðrum Rótarýklúbbum og virtu félagar hann mikils fyrir þetta.
Bjarni mætti alltaf snemma á fundi helst hálftíma fyrr og hafði gaman að því að hitta aðra félaga sem mættu snemma til að ræða ýmis málefni sem sem efst voru á baugi á hverjum tíma. Þessi hópur er kallaður barhópurinn því þeir settust í hægindastóla við barinn áður en gengið var í fundarsalinn Það hefur örugglega verði mikið rætt á þessum forfundum.
Bjarni var einlægur rótarýmaður sem vildi rótarýhreyfingunni allt hið besta. Hann var ósérhlífinn og fórnfús að leggja fram vinnu í þágu klúbbsins í sinni listgrein og teiknaði meðal annars myndir af öllum félögum klúbbsins.
Hann var ávallt reiðubúinn að leggja sitt af mörkum sem kæmi sér vel fyrir klúbbinn og lét Bjarni sitt ekki eftir liggja við útgáfu jólamerkja klúbbsins og gerði hann myndir á 27 jólamerki. Jólamerkið 2007 teiknaði Bjarni. Hann teiknaði líka borðfána fyrir klúbbinn og fyrir alla þessa vinnu erum við félagarnir ávallt þakklát.
Bjarni gegndi ýmsum trúnaðstörfum fyrir klúbbinn. Hann var stallari 1963-1964, ritari 1994-1995 og forseti klúbbsins 1997-1998. Hann var lipur og vinsæll stjórnandi og undir hans stjórn voru meðal annars fyrstu konurnar teknar inn 1998 sem var töluvert umdeilt þá og alls ekki auðvelt viðureignar.
Bjarni var gerður að Paul Harris félaga árið 1996 í virðingarskyni fyrir hans ómetanlegu störf í þágu klúbbsins.
Bjarni Jónsson var ákaflega félagslyndur maður og þægilegur í allri framkomu við félagarnir í Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar munum sakna hans og minnast hans með hlýhug og virðingu.
Félagar í Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar senda aðstandendum Bjarna innilegar samúðarkveðjur.

Gunnhildur Sigurðardóttir, forseti


Hfj_haus_01