Fréttir

7.5.2007

Björn Árnason er látinn

Björn Árnason
f. 28.8.1928 – d. 30.4.2007
Minning

Brotið er skarð í raðir okkar rótarýfélaga í Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar með fráfalli Björns Árnasonar. Björn var rótarýfélagi til nær 27 ára og ávann sér traust og virðingu allra sem með honum störfuðu. Hann var fulltrúi í klúbbnum fyrir starfsgreinina bæjarverkfræði en hann gegndi stöðu bæjarverkfræðings í Hafnarfirði til fjölda ára við góðan orðstýr. Hins vegar hugsa sennilega flestir til skógræktar um leið og þeir hugsa til Björns í dag en Björn var mikill áhugamaður um skógrækt og var ötull í skógræktarstarfi klúbbsins við Klifsholt. Áhugi Björns jókst með árunum og eftir hefðbundin starfslok gerðist hann skógarbóndi að Mykjunesi í Holtum. Greinilegt var að skógræktin veitti honum mikla ánægju og var hann ötull félagsmaður í Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar sem heiðraði hann með gullmerki félagsins á síðasta ári. Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar heiðraði Björn árið 1996 fyrir öflugt starf hans fyrir klúbbinn er hann var gerður að Paul Harris félaga.
Ég átti fyrst samskipti við Björn er ég, ungur að árum, keypti gamalt hús í Hafnarfirði og þurfti að leita til Björns. Samskipti mín við Björn voru mér eftirminnileg, enda var rösklega brugðist við erindi mínu. Leiðir okkar Björn lágu svo saman 18 árum síðar er ég gekk til liðs við Rótarýklúbb Hafnarfjarðar og voru kynni mín af Birni alveg í samræmi við okkar fyrstu kynni. Björn var skemmtilegur félagi, hann var brosmildur og sagnamaður góður og var gaman að hlýða á frásagnir hans sem oftar en ekki tengdust bæjarmálefnum í Hafnarfirði.
Skarð Björns verður ekki fyllt þó maður komi í manns stað. Við rótarýfélagar söknum Björns og minnumst hans með þakklæti um leið og við færum börnum hans og afkomendum öllum samúðaróskir okkar.
Guðni Gíslason, forseti Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar.

Útför Björns fer fram í Neskirkju á föstudaginn kl. þrjú.


Hfj_haus_01