Fréttir

8.10.2006

Vel heppnuð afmælishátíð

- Sjá myndir undir MYNDIR hér til vinstri. - 60 ára afmælishátíð klúbbsins var haldin sl. laugardag samhliða 30 ára afmælishátíð Inner Wheel-klúbbs Hafnarfjarðar. 106 tóku þátt í hátíðinni sem þótti heppnast afar vel, var bæði hátíðleg og skemmtileg. Gestirnir byrjaði að tínast í hús vel fyrir kl. 19 þar sem forseti klúbbsins tók á móti gestum. Boðið var upp á fordrykk og sýndar voru um 300 myndir úr starfi klúbbsins í gegnum árin. Á vegg mátti sjá teikningar af félögunum sem Bjarni Jónsson teiknaði og vöktu mikla athygli. Tveir félagar, Sigurþór Aðalsteinsson og Gylfi Sigurðsson færðu klúbbnum borð undir skjávarpa að gjöf og forseti tilkynnti um gjöf Sigurjóns Péturssonar og frú á fartölvu og skjávarpa. Um kl. 19.30 var gestum vísað til sætis en fyrirfram var ákveðið við hvaða borð hver sat. Kl. 20 setti forseti hátíðina með aðstoð forseta Inner Wheel-klúbbs Hafnarfjarðar og voru nokkur atriði úr sögu klúbbsins rakin. Að því búnu var Inner Wheel-klúbbnum færð vönduð myndaalbúm að gjöf auk þess sem klúbbnum var gefið vilyrði fyrir plássi og aðgangi að nýrri heimasíðu klúbbsins. Umdæmisstjóri, Guðmundur Björnsson ávarpaði gesti og færði klúbbnum kveðjur og staðfestingu þess að lögð hafi verið inn upphæð í Rótarýsjóðinn í nafni klúbbsins. Þá ávarpaði Ingibjörg Magnúsdóttir, umdæmisstjóri Inner Wheel gesti og færði klúbbunum heillaóskir. Guðmundur Ámundason, fulltrúi Rkl. Straums ávarpaði gesti og færði klúbbnum blómvönd og gjafabréf upp á tré frá Skógræktinni og ósk um að stjórnir klúbbanna gróðursettu trén fljótlega í reit klúbbsins. Eftir gómsætan forrétt heillaði Alda Ingibergsdóttir gesti upp úr skónum með góðum söng og heillandi framkomu og að því loknu snæddu gestir hátíðarmat. Breiðbandið úr Keflavík kitlaði svo hláturtaugar gesta hressilega með bráðfyndnum söngtextum sínum og eftir að hafa snætt eftirrétt þeystust gestir út á dansgólfið og var dansað til kl. 02 við leik og söng Magnúsar Kjartanssonar og Sigrúnar Evu Ármannsdóttur. Var hátíðinni lokið með söng og myndatöku af harðasta kjarnanum sem eftir var. Skemmtilegri afmælishátíð var lokið. Gestum frá Straumi, Rkl. Reykjavík-International, Rkl. Grafarvogs, Rótarýklúbbs Keflavíkur og Rkl. Ólafsvíkur er sérstaklega þökkuð samveran. Klúbburinn þakkar jafnframt kveðjur frá Rkl. Görðum, Rkl. Reykjavík-Austurbær og Rkl. Reykjavíkur.

Hfj_haus_01