Fréttir

1.2.2006

Vel heppnað Þorrablót

Á reglulegum fundi sínum 26. janúar 2006 hélt Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar árlegt þorrablót með formann skemmtinefndar, Ingvar Geirsson í fararbroddi. Hlaðborð svignaði undan þjóðlegum réttum af magvíslegu tagi og viðeigandi angan af harðfiski og hákarli fyllti sali og vit. Mjög góð mæting var á fundinum og margt góðra gesta, þar á meðal fyrrverandi umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, félagi í Rótarýklúbbi Seltjarnarness. Haldin var í heiðri sú hefð klúbbsins að láta ,,Hornið góða" ganga milli manna en það er nægtahorn sem á þorrablótum fyllist af íslensku brennivíni og tæmist ekki hversu ósleitilega sem af er teigað. Fyrirlesari dagsins var ekki síður þjóðlegur og nægtabrunnur fróððleiks. Það var Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur og eigandi Forleifafræðistofunnar eina einkarekna fyrirtækisins á þessu sviði á landinu. Bjarni sagði frá rannsóknum sínum og sinna manna á bæjarrústum á Bæ í Öræfasveit en þar eru að hans mati einstakar minjar sem fyrirtæki hans vinnur þessi árin við að afhjúpa. Þegar hafa komið í ljós mjög heilar veggjahleðslur þar sem bærinn hefur farið undir vikur í einni svipan við eldgos etv. 1362. Ógrafnir eru 60 cm niður á gólf og væntir Bjarni að finna enn marga merka hluti. Mjög fróðlegur fyrirlestur í máli og myndum og afar skemmtilega fluttur. Á fundinum voru tilnefndir tveir Paul Harris-félgar. Það voru þeir Einar Eyjólfsson og Sigurður Þorleifsson og jók það á hátíðarbrag fundarins sem var bæði efnismikill og fyllti alveg út í tímarammann. Eftir fundarslit var hreint ekki fararsnið á öllum fundarmönnum og var það bæði samkvæmt venju og væntingum.

Hfj_haus_01