19.9.2005
Undirbúningur fyrir Kaupmannahafnarför
Bekkurinn var þéttsetinn ferðaglöðum félögum sem hlustuðu af athygli á lyfjafræðingana Vilhjálm Skúlason f.v. prófessor og rótarýfélagann Almar Grímsson, f.v. lyfsala flytja okkur fróðleik. Hjördís og Sigurþór fóru í stuttu máli yfir tilhögun ferðarinnar sem fram undan er. Vilhjálmur talaði um tónskáldið Giuseppi Verdi og óperu hans Macbeth sem hópurinn ætlar að sjá í uppfærslu Konunglega leikhússins í Kaupmannahöfn. Vilhjálmur rakti æviferil tónskáldsins og einkenni á tónlistarsköpun hans. Hann sagði frá tilurð og sérstöðu óperunnar sem hefði staðið hjarta Verdis mjög nærri alla tíð og hann tileinkaði helsta velgjörðarmanni sínum. Vilhjálmur endaði erindi sítt á því að óska hópnum góðrar skemmtunar er hann nyti eins af stóru meistaraverkum tónlistarsögunnar. Almar rifjaði upp dvöl sína sem hafnarstúdent í byrjun 7 áratugarins og tendi hana skemmtilega við líf íslenskra stúdenta í Borginni við sundin um aldir. Kaupmannahöfn var jú höfuðborg Íslands í næstum 600 ár. Almar sagði að hann og samstúdentar hans hefðu verið stoltir af því að með dvöl og námi sínu í Hafnarháskóla héldu þeir við gamalli íslenskri lærdómsmannahefð og tengslum við Danmörku. Eftir frábær erindi gengu fundargestir að kaffihlaðborði sem nokkrir ferðafélaganna höfðu udirbúið og nutu góðgerðanna með léttu spjalli.