19.5.2005
Ferð til Kaupmannahafnar
Kristján Stefánsson, verðandi forseti Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar lagði þegar í febrúar í vetur upp hugmynd um að klúbburinn skryppi í helgarferð til Kaupmannahafnar. Ákveðið hefur verið að fara dagana 29. september til 2. október 2005 og skoða nýja óperuhúsið sem opnað var á Hólminum við Nýhöfn í janúar sl. Við munum sjá sameiginlega uppfærslu óperuhúsa í Danmörku, Noregi og Þýskalandi á óperunni Macbeth eftir ítalska tónskáldið Verdi og byggð er á samnefndu leikriti Shakespeares. Auk þess er fyrirhuguð sérstök skoðunarferð yfir nýju Eyrarsundsbrúna sem er annað menningarlegt stórvirki og tengir Danmörk og Svíþjóð. Gengið verður með leiðsögumanni um Íslendingaslóðir en þar fyrir utan mun gefast góður tími til að rölta um Strikið á eigin vegum og kíkja í búðir, kökuhús eða krá. Eitthvert kvöldið sest hópurinn svo að sameiginlegu veisluborði. Gist verður á Squaere Hótel við Ráðhústorgið í hjarta Kaupmannahafnar. Það stefnir í menningarferð í besta skilningi þess orðs. Þátttaka fór strax fram úr áætlunum og hefur bókunarlistanum verið lokað nema einhverjir hætti við.