Fréttir

21.4.2005

Aldarafmæli Rótarýhreyfingarinnar

Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar veitti styrki í tilefni afmælisins
Stofndagur Rótarýhreyfingarinnar var 23. febrúar 1905. Þann dag var fyrsti Rótarýklúbburinn stofnaður í Chicago í Bandaríkjunum en þessi alþjóðlegu samtök standa fyrir mannúðar- og menningarstarfi, vilja stuðla að sem bestu siðgæði í öllum starfsgreinum og hvetja til góðvildar og friðar í heiminum.
Rótarýhreyfingin hefur ekki verið mjög áberandi hér á landi en þó eru mörg góð málefni sem félagar hafa beitt sér fyrir. Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar var stofnaður 9. október 1946. Af verkefnum sem félagar klúbbsins hafa beitt sér fyrir eða eru hvatamenn að má nefna:
1. Frá árinu 1948 hefur verið veitt viðurkenning til þeirra nemenda í skólum bæjarins sem hafa hlotið hæstu einkunn á burtfararprófi.
2. Æskulýðs-, unglinga- og fræðslustarf Rótary hefur lengi verið virkt og gefið mörgum kost á góðri fræðslu, svo sem: a) Að fara sem skiptinemar erlendis í 11 mánuði. Í ár er hjá klúbbnum stúlka frá Sao Paulo í Brasilíu. b) Ungmennaskipti í 3 til 12 vikur og eru þetta gagnkvæm skipti. c) Sumarbúðir á vegum Rótarýhreyfingarinnar. Þetta eru 7-15 daga kynningar- og fræðsluferðir. Í dag eru í boði 40 slíkar ferðir til 10 landa, sem farnar verða í vor og sumar. d) Námstyrkir, sem veittir eru framúrskarandi nemendum. Einn slíkan hlaut Rannveig Traustadóttir, Hafnarfirði, sem í dag er prófessor við Háskóla Íslands.
3. Klúbburinn hefur staðið fyrir útgáfu á jólamerkjum síðan 1958.
4. Félagar hafa staðið að uppbyggingu og viðhaldi á útsýnisskífu á Ásfjalli.
5. Skógrækt er málaflokkur sem klúbburinn hefur staðið fyrir um langt árabil í upplandi Hafnarfjarðar.
Í framhaldi af umræðum í klúbbnum hafa félagar reifað margar góðar hugmyndir og verið hvatamenn að mörgum góðum málum, svo sem:
a) Varðveislu á húsi Bjarna Riddara Sívertsens.
b) Voru hvatamenn að stofnun Styrktarfélags aldraðra (Félags eldri borgara í Hafnarfirði).
c) Áttu frumkvæðið að stofnun Fegrunarfélags Hafnarfjarðar.

Í tilefni aldarafmælis Rótarýhreyfingarinnar veitti Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar eftirtöldum aðilum fjárhagsstuðning:
1. Til forvarnarstarfs vegna hópamyndunar unglinga í Hafnarfirði 300 þús. kr.
2. Til Reykdalsfélagsins, vegna aldarafmælis rafvæðingar 100 þús. kr.
3. Til uppbyggingar á dagvistunaraðstöðu fyrir heilabilaða og alzheimerssjúka í Hafnarfirði 100 þús. kr.
4. Til Mæðrastyrksnefndar Hafnarfjarðar 50 þús. kr.
5. Til Rotary Foundation til útrýmingar á lömunarveiki í heiminum 250 þús. kr.
6. Til samstarfsverkefna með Rótarýklúbbi Kimberly í S-Afríku vegna aðstoðar við fátæka og alnæmissjúkra í landinu 150 þús. kr.


Hfj_haus_01