Fréttir

10.10.2016

Glæsileg afmælishátíð

70 ára afmæli Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar og 40 ára afmæli Inner Wheel klúbbs Hafnarfjarðar

70 ára afmæli Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar og 40 ára afmæli Inner Wheel klúbbs Hafnarfjarðar var haldin í Frímúrararhúsinu í Hafnarfirði 8. október sl. 113 félagar og gestir nutu veitinga, skemmtunar og góðs félagsskapar fram eftir kvöldi.

Fyrir hátíðina tók Jóhann Lúðvík Haraldsson, félagi í klúbbnum, á móti veislugestum í fyrirtæki sínu, Flúrlömpum sem hann hefur rekið af miklum myndarskap. Var boðið upp á veitingar og sagði Lúðvík örstutt frá fyrirtækinu. Þakkaði forseti móttökuna með að færa Jóhanni fjórprófið innrammað til að hengja upp.
Raðað hafði verið til borðs í Frímúrarahúsinu og blandaðist hópurinn vel. Forseti flutti afmælistölu og má lesa hana hér fyrir neðan. Afhenti hann síðan Jóhannesi Pálma Hinrikssyni veislustjórnina.

Ávörp gesta

Garðar Eiríksson, aðstoðarumdæmisstjóri og tilnefndur umdæmisstjóri flutti kveðju fyir hönd umdæmisstjóra sem ekki gat komið.

Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé, forseti Rótarýklúbbsins Görðum flutti kveðju síns klúbbs og sagði frá stofnun síns klúbbs en Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar er móðurklúbbur hans.

Jón Karl Ólafsson forseti Rótarýklúbbs Reykjavíkur, móðurklúbbs Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar flutti kveðjur síns klúbb.

Heiðursfélagi

Það var sérstaklega ánægjuleg stund þegar forseti heiðraði Trausta Ó. Lárusson fyrir farsælt 52 ára starf í klúbbnum með því að gera hann að heiðursfélaga klúbbsins en tillaga um það hafði verið samþykkt einróma á næsta fundi klúbbsins á undan. Var honum afhent heiðursskjal og gjöf því til staðfestingar og sambýliskona hans Hanna Kjeld fékk blómvönd. Risu veislugestir á fætur og fögnuðu með kröftugu lófataki.

Einsöngur

Klúbbfélaginn Guðmundur Rúnar Ólafsson kom mörgum á óvart er hann steig fram og sögn einsöng við undirleik Sigurðar Helga Oddssonar en Guðmundur Rúnar hefur verið í söngnámi hjá Öldu Ingibergsdóttur en hún söng á 60 ára afmælishátíð klúbbsins.

Afmælisávarp Inner Wheel Hafnarfjörður

Sigurborg Kristinsdóttir, forseti Inner Wheel Hafnarfjörður flutti afmælisávarp í tilefni af 40 ára afmæli klúbbsins. Rakti hún sögu klúbbsins og færði fimm af stofnendum klúbbsins rauða rós sem er tákn Inner Wheel. Þetta voru þær Anna Dagmar Daníelsdóttir, Ragnhildur Guðmundsdóttir, Sigríður Guðmundsdóttir, Valgerður Sigurðardóttir og Elsa Kristinsdóttir.

Hátíðarræða Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar

Erlendur Geir Arnarsson flutti síðan hátíðarræðu klúbbsins og sagði hann frá stofnendum Rótarýhreyfingarinnar, útbreiðslunni og komu hennar til Íslands. Sagði hann m.a. frá hjálparverkefnum Rótarý og þeim breytingum sem orðið hafa. Sagði hann að boðskapur Rótarýhreyfingarinnar um heiðarleika, drengskap, velvild og almannahag væri ekki háður tíma eða duttlungum tísku og dægurstrauma. Án þessara gilda ríkti glundroði og sundrung. Þetta hafi hugsjónarmennirnir sem stofnuðu Rótarýhreyfinguna skilið og þetta skildum við sem værum hér saman komin til að fagna merkum tímamótum.

Paul Harris viðurkenningar

Forseti sæmdi tveimur fyrrverandi forsetum, þeim Jóni Auðunni Jónssyni og Steingrími Guðjónssyni Paul Harris orðu fyrir þeirra störf.

Þá sæmdi forseti félögunum Almari Grímssyni, Guðmundi Friðrik Sigurðssyni og Skúla Valtýssyni Paul Harris orðu með safír fyrir óeigingjarnt starf fyrir klúbbinn.

Söngur

Margrét Sigurðardóttir spilaði og söng fyrir gesti og heillaði alla veislugesti sem fögnuðu henni vel en hún er dóttir Sigurðar Björgvinssonar félaga í klúbbnum og Inner Wheel félagans Þórdísar Guðjónsdóttur.
Eftir happdrætti og fjörugan dans við undirleik Magnúsar Kjartansson var góðri tvöfaldri afmælishátíð lokið og gestum var þakkað fyrir komuna.

Fleiri myndir má finna á Facebook síðu klúbbsins.

Ávarp forseta Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar

Fyrstu minningar mínar frá Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar eru þegar afi minn Bessi Gíslason kom heim um kl. 11 alla fimmtudaga, hann tók að snurfusa sig og skipt um föt, hann var fisksali og harðfisk verkandi eins og sumir kannski vita. Hann setti á sig spari hattinn og fór í skóhlífarnar og var síðan keyrður á fund í klúbbnum, síðan var hann sóttur, fór heim aftur skipti yfir í fiskigallann og aftur í vinnuna.
Þetta þótti mér sem barni og ungling alveg stórkostlegt, því þessi maður missti aldrei úr eina einustu klukkustund í vinnu.
Seinna þegar ég gekk í Rótarý þá fannst mér jafn mikið til Rótarý koma og ég hafði ímyndað mér. Þetta hefur verið alveg einstök upplifun að hafa verið með ykkur félagar mínir öll þessi ár, fyrstu árin sat ég og gleypti í mig hvað þeir eldri höfðu að segja og núna vona ég að þið yngri félagar getið haldið mér upplýstum um hvað er að gerast á Íslandi í dag.
Ég gekk í Rótarýklúbb Borgarnes 1990 og í Hafnarfjarðar klúbbinn 1991 og er því búinn að vera félagi í 26 ár. Ég varð snemma stallari 1996-97, gjaldkeri 2006-07 og síðan forseti 2016-2017. það er undarleg tilfinning að hugsa til forvera minna sem væntanlega eru 70, þar er mikið mannval og er það mér mikill heiður að vera kominn í þann hóp.
Ég er komin á þann aldur sem við sungum um hér um árið 1966 „Wen I‘m Sixty Four“ og er því 6 árum yngri en klúbburinn.
Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar var stofnaður 9. október 1946, klúbburinn var sá 7. í röðinni eftir móðurklúbbnum Rótarýklúbbi Reykjavíkur. Fullgildingshátíðin var síðan haldinn 19. apríl 1947, en þá var klúbburinn fullgildur aðili að Rotary International, með stofnbréf nr. 6424. Fyrsti forseti klúbbsins var Kristján Arinbjarnar héraðslæknir, en hann lést hálfu ári síðar og tók þá Ingólfur Flygering við.
Fyrsti fundarstaðurinn var í Hótel Þresti en fljótlega fluttust fundirnir í Sjálfstæðishúsið og var það fundarstaður í mörg herrans ár, þaðan í Skiphól sem var þá nýtekin til starfa, eftir það í Gafl-inn og þaðan í núverandi stað í Turninum.
Frá upphafi hefur klúbburinn veitt viðurkenningar til afburða nemenda í skólum bæjarins eða í 70 ár. Margir efnilegir nemendur hafa notið þess og eiga góða bók til minningar um áfangann og Rótarý.
1951 var ráðist í að stofna Fegrunarfélag Hafnarfjarðar og farið í trjárækt í kringum Hamarinn og Lækinn. Þar eru nú með hæstu trjám bæjarins, og sitt sýnist hverjum, því trén skyggja á Hamarinn.
Félagið gerði stórátak í fegrun bæjarins og tók stórt malar og stakkstæði í miðjum bænum upp á sína arma, slétti og setti torf yfir, skreytti svo með blómum og eftirlíkingu af skútu.
Bjarni Snæbjörnsson flutti fyrirlestur á rótarýfundi 1964, þar sem hann sagði frá húsi Bjarna Riddara, en það var í mikilli niðurníðslu og taka þyrfti ákvörðun um hvort æti að rífa það eða varðveita. Nefnd var stofnuð með Bjarna í forsvari og var stofnað félagið „Hús Bjarna Riddara“. Í febrúar 1965 heimilaði bæjarstjórn Hafnarfjarðar, Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar að endurbyggja húsið og ákvað að greiða ¼ af kostnaði. Það tók 10 ár að ljúka við framkvæmdir og var húsið vígt á þjóðhátíðardaginn 17. júní 1973, í minningu 1100 ára afmælis byggðar á Íslandi. Það skal taka fram að fjölmargir komu að verkinu bæði rótarýmenn og aðrir.
1958 var fyrsta jólamerkið prentað og stofnaður framkvæmdasjóður, hefur hann starfað óslitið síðan, hefur hann verið klúbbnum til mikils sóma og styrkt margt gott málefnið.
Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar hefur átt 5 umdæmisstjóra í gegnum árin. Fyrstur var Þorvaldur Árnason 1954-55, þá Sverrir Magnússon 1965-66, svo Valgarður Thoroddsen 1974-75, síðan Stefán Júlíusson 1987-88 og síðast Bjarni Þórðarson 2003-2004.
Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar hefur staðið að stofnun tveggja nýrra rótarýklúbba: Rótarýklúbburinn Görðum 1965 og Rótarýklúbburinn Straumur 1997.
Fyrsti skiptineminn fór frá okkur 1982-83 og fyrsti erlendi skiptineminn kom til okkar 1983-84. Hafa verið blómleg nemenda skipti allar götur síðan, og erum við nú með skiptinema í Brasilíu og hjá okkur er skiptinemi frá Argentínu.Klúbburinn hefur undanfarin ár staðið fyrir merkingum í upplandi Hafnarfjarðar og eru í bígerð stór áform í þeim efnum. Stórvirki var unnið þegar útsýnis skífa var sett upp á Ásfjalli 1987, sem margir af eldri meðlimum klúbbsins minnast.
Rótarý fáninn sem hér stendur er 20 ára í dag, var tekin í notkun á 50 ára afmælinu, hann hannað og teiknaði Bjarni Jónsson listmálari og félagi í klúbbnum en systurnar í Klaustrinu saumuðu.
Afmælisnefnd klúbbsins hefur staðið í ströngu og skipulagt og lagt á ráðinn í meira nenn ár, sjáið nú hvað þau hafa áorkað!
Til hamingju : Gylfi Sigurðsson formaður, Gerður Guðjónsdóttir, Erlendur Geir Arnarson, Haukur Birgisson og Sigurður Björgvinsson. Við félagar ykkar þökkum ykkur fyrir frábæra skipulagningu og upplifun hér í kvöld.Vil ég fyrir hönd Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar óska InnerWeel til hamingju með 40 ára afmælið, vil ég biðja Sigurborgu Guðrúnu Kristinsdóttur (Bobbu) að koma hér og taka við blómvendi frá okkur Rótarý félögum í tilefni dagsins. Klapp. og skála
Já, saga Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar er sannanleg orðin löng, 70 ár eru langur tími fyrir félagsskap eins og okkar, það eru kynslóðir sem hafa gengið í gegnum þroskandi og uppbyggilegt starf Rótarýhreyfingarinnar. Það eru engin lát á þessari kynslóð sem nú er Rótarý fólk og ég er sannfærður að ný kynslóð Rótarý fólks sem hefur gengið til liðs við Rótarý á eftir að „þjóna mannkyninu“ eins og John F. Germ forseti Rotary International gerði að einkunnarorðum sínum.
Bessi H. Þorsteinsson.

Hfj_haus_01