Fréttir

17.10.2003

Jeppaferðin

Fleiri myndir

Laugardaginn 27. september sl. kl. 9 voru mættir vel á þriðja tug félaga í Rótarýklúbbi Hafnarjarðar með 9 jeppa á hlaðið fyrir framan Þjóðkirkjuna í Hafnarfirði. Skyldi nú haldið í eins dags jeppaferð um fjöll og firnindi og hlúa þannig að gagnkvæmum kynnum og treysta tryggðarbönd okkar við landið okkar. Ekki var skilyrði að félagar hefðu yfir jeppa að ráða því þeim jeppalausu var komið fyrir hjá hinum sem betur voru ríðandi. Ætlunin var að fara um Hvalfjörð, Skorradal, Kaldadal og að Langjökli sunnanverðum. Halda síðan til Þingvalla og heim í Hafnarfjörð. Samtals um 280 km. Í fyrstu var haldið um Hvalfjörð og var fyrsta stopp við Staupastein undir Reynivallahálsi norðanverðum. Þangað er ekki algengt að komið sé núorðið sérstaklega eftir að vegurinn um Hvalfjörð var færður niður að sjávarborði. Eftir að göngin komu hefur mjög dregið úr umferð um Hvalfjörð. Eftir stutt sögu-og örnefnastopp var síðan haldið upp í Skorradal og ekið inn með vatninu að norðanverðu allt inn að skógarjörðinni Fitjum, sem er innsti bær í dalnum, en þar er bændakirkja sem er til fyrirmyndar hvað vel er við haldið. Hér var boðið upp á kaffi og samlokur en í eftirrétt var síðan saga staðarins og kirkjunnar rekin og kirkjan skoðuð. Veðrið lék við okkur og yljaði sólin vel þar sem ferðalangarnir sötruðu kaffið undir kirkjuveggnum.

Nú var haldið austur og upp úr Skorradal framhjá fossunum Sarpi og Hvítserk inn á Uxahryggjaleið og þaðan að gatnamótunum á Kaldadalsleið í Brunnum. Skammt þar norður af var síðan komið inn á hinn svokallaða línuveg sem liggur norðan Skjaldbreiðs. Af þeim vegi var síðan haldið í norður að skálanum Svalaríki í hlíðum Stóra-Björnsfells þar sem snædd var kjarngóð finnsk skógarsúpa með nýbökuðu brauði. Eftir málsverðinn var síðan haldið áfram og hærra upp til fjalla að öðrum skála, Slúnkaríki, sem staðsettur eru í 800 metra hæð í suðurjaðri Langjökuls. Þegar um 3 km voru ófarnir að Slúnkaríki spilltist veður og færð og var nú ekið í þoku og snjó. Jepparnir urðu nú þess meðvitaðir að þeir voru með drif á öllum hjólum og dugði á stundum ekki til því þeir fóru að festast í sköflum og fékk þá karlpeningurinn í hópnum tækifæri til að rækta í sér karlmanninn. Í Slúnkaríki var síðan veitt vel af eftirmiðdagskaffi og með því.

Nú var haldið til baka niður á Kaldadalsleið og næst stoppað í Biskupsbrekku þar sem Jón Vídalín biskup varð bráðkvaddur við Sæluhúsakvísl. Rétt norðan við hálsinn sem Biskupsbrekka er undir reisti Jónas Hallgrímsson tjald sitt forðum og orti kvæðið Fjallið Skjaldbreiður sem margir kannast við. Einn félagi í klúbbnum, Eyjólfur Sæmundsson, gerði sér lítið fyrir og fór með öll erindin utanbókar en hann lærði kvæðið í barnaskóla. Þetta var áhrifamikil stund þarna inni á öræfunum og ljóslifandi urðu æðandi eldelfur niður hlíðar fjallsins Skjaldbreiðs, glímur fornmanna á Hofmannaflöt og tilurð Þingvalla allra. Kunnum við Eyjólfi bestu þakkir fyrir flutninginn.

Að Valhöll var komið kl. 18 og haldið beint á barinn en þar bauð annar klúbbfélagi, Skúli Þórsson og hans eiginkona, öllum ferðalöngunum upp á kampavín því um 10 mínútum áður en komið var að Valhöll bárust þeim SMS boð þess efnis að þeim hefði fæðst barnabarn. Var ánægjulegt að fá að samgleðjast með þeim hjónum að þessu tilefni. Kvöldverður var síðan snæddur og um 21 var komið heim í Hafnarfjörð.


Hfj_haus_01