Fréttir

9.8.2002

Á heimleið

Þá er leiðin heim hafin. Stórkostleg ferð er brátt á enda. Ferðin til Minneapolis er löng en við erum orðin vön rútuferðum enda fjarlægðir miklar hér. Í gær, miðvikudag fórum við Rótarýfélagar á Rótarýfund í Winnipeg hjá fyrsta Rótarýklúbbbi sem stofnaður var utan Bandaríkjanna. Var okkur tekið mjög vel. Ekki er hægt að segja að vandamál hafi komið upp í ferðinni ef frá eru talin passavandamál í byrjun og gleraugnavandræði. Fyrstu gleraugun brotnuðu í flugvélinni á fyrsta degi en sjúkrabirgðir Gunnhildar og smá fingrafimi björguðu þeim. Ein gleraugu urðu næstum eftir á einum áningarstaðnum og ein brotnuðu í gær en hjálpsemi Rótarýmanna var einstök svo og næsta gleraugnasala sem kveikti þau saman á stuttum tíma. Við fengum mjög góða skoðunarferð um Winnipeg og áttum svo mjög skemmtilegan tíma heima hjá Eiði Guðnasyni ræðismanni og Eygló konu hans en Eiður á mikið af skyldfólki í Hafnarfirði og dóttir þeirra er nýflutt þangað. Kannski má kalla hann Vestur-Hafnfirðing!? Við erum nú komin til Minneapolis, hvergi hefur verið hægt að komast í tölvu og þetta er sett inn úr fartölvu Jóns Svavars. 33 af hópnum halda heim á leið á morgun en hinir verða eftir. Eina sem eftir er er að fara í Mall of America til að fylla í tómarúmið sem er í mörgum ferðatöskunum. Hitinn hefur verið yfir 30°C í dag og mikill raki. Sem betur fer höfum við setið í rútunni í allan dag í góðri loftkælingu. Þá er ekkert annað eftir en að fara í fjörið í kvöld og kveðjum héðan frá Bandaríkjunum en ferðasagan og eitthvað af hátt í 700 myndum sem undirritaður hefur tekið verða settar á heimasíðuna. Frábær ferð er á enda, ótrúlega góður hópur og samstilltur og þakklæti til ferðafélaganna er það sem er mér efst í huga. Ég vil einnig þakka syni mínum Gísli fyrir að gera okkur kleifta að setja inn fréttir hér úti og viðbætur. Kveðja, Guðni Gíslason. PS. Fjarðarpósturinn kemur út á fimmtudaginn!!!

Hfj_haus_01