Jón Bergsson heiðursfélagi
Hefur verið 54 ár í Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar
Á jólafundi þann 11. desember sl. var Jón Bergsson verkfræðingur gerður að heiðursfélaga í Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar.
Á ávarpi sagði forseti klúbbsins, J. Pálmi Hinriksson að Jón væri tryggur og góður félagi og hafi sótt fundi af mikilli ræktarsemi, en hafi vart látið þig vanta á nokkurn fund undanfarin ár en Jón er 83 ára gamall. „Okkur félögum þykir vænt um að fá að heiðra þig sem heiðursfélaga í klúbbnum. Með því viljum við sýna hve mikils við metum vináttu þína og störf fyrir klúbbinn,“ sagði forseti í ávarpi sínu áður en hann nældi merki heiðursfélaga í Jón, afhenti honum heiðursskjal og minjagrip sem er áletraður með rótarýhjólinu og nafni Jóns.
Var kjöri hans fagnað vel af viðstöddum.
Jón Bergsson gerðist félagi í Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar 1. júlí 1960 og er þar með sá núverandi félaga sem næst lengst hefur verið í klúbbnum. Aðeins Níels Árnason heiðursfélagi hefur verið lengur eða frá 1957. Það hefur því margt á dagana drifið þau 54 ár sem Jón hefur verið félagi í klúbbnum.
Árið 1964, fjórum árum eftir að Jón gerðist félagi, var samþykkt á fundi í klúbbnum að Rkl. Hafnarfjarðar beitti sér fyrir því að varðveita og endurbyggja hús Bjarna Riddara Sívertsen. Var Jón Bergsson einn af fimm mönnum sem skipaður var í nefnd sem sá um að standa fyrir framkvæmd þessa verkefnis. Þannig kom Jón Bergsson ásamt fleirum góðum rótarýfélögum að einu eftirminnilegasta samfélagsverkefni klúbbsins á umliðnum árum.
Jón Bergsson var forseti í Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar 1971 – 1972. Í forsetatíð sinni lagði Jón Bergsson til að vert væri að félagar söfnuðu bókum til að gefa í bókasafnið á Litla-Hrauni. Það var svo að árið eftir að Albert Kristinsson, sem tók við af Jóni sem forseti, kom þessu verkefni í framkvæmd.
Árið 1987 fékk Steingrímur Atlason þáverandi forseti klúbbsins nokkra vaska menn í lið með sér við að koma upp útsýnisskífu á Ásfjalli. Í sögu R.kl. Hafnarfjarðar sem Stefán Júlíusson tók saman er skemmtileg lýsing frá vígslu skífunnar sem fram fór í júní 1987 en þar segir; „Forseti og Jón Bergsson röktu sögu framkvæmda og veðurguðir sáu um hressilega vatnsskírn því að regn bókstaflega hvolfdist úr loftinu. Vígsluskálina hafði forseti í fórum sínum og þótti mönnum ekki vanþörf á. Þegar menn bergðu á veigunum reyndust þær vera íslensk mysa. Sló þá þögn á mannskapinn!“
Jón hefur gengt mörgum trúnaðarstörfum fyrir klúbbinn og verið leiðsögumaður í mörgum ferðum.
Jón Bergsson var sæmdur Paul Harris viðurkenningu árið 2001.
Eiginkona Jóns er Þórdís Steinunn Sveinsdóttir.
gg/jph