Fréttir

25.10.2014

Eldfjörug árshátíð

Árshátíð Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar var haldin í gær

Árshátíð Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar var haldin í golfskálanum á Hvaleyri 24. október sl. Þétt var setið og mikil stemmning og tókst nýliðunum, Erlendi Geir og Hermanni Birni vel til við undirbúninginn og færðu þeir fríska vinda inn í árshátíðarhefðina. 

Það var hátíðarbragur á rótarýfélögum og gestum þegar þeir mættu prúðbúnir á árshátíð klúbbsins. Enda var þeim fagnað við komu með bæði brosi og fordrykk. Var dregið til sætis og fengu allir sæti við borð sem merkt voru hinum ýmsu þjóðlöndum. Forseti bauð gesti velkomna og þá tók Hermann Björn við veislustjórn. Lýsti hann upplifun sinni af sínu fyrsta ári í klúbbnum á mjög skemmtilegan hátt enda var lýsing hann bæði sönn og bráðfyndin. Hann sagðist hafa lofað þriggja rétta máltíð og Prince Polo var forrétturinn en aðalrétturinn var lamb og bernaise en kaffi og ís í eftirrétt. Sungið var um lambið áður en það var snætt og undir borðum sagði Jón Auðunn okkur frá degi átaksins um útrýmingu á lömunarveiki sem einmitt var þennan sama dag.

Myndir frá Guðna rúlluðu á tjaldi og sagði Hermann þær sanna að það væri engin helgislepja á klúbbnum eins og hann hafði haldið. Litla happdrætti vakti kátínu enda vinningarnir skemmtilega litlir, lítil kók, lítill bjór, lítil vínflaska og auðvitað Prince Polo með. Tónlist ómaði undir borðum en félagarnir Svalur og Valur sáu um tónlistina, Svalur fyrst og Valur bættist við þegar fótaókyrrð fór að hrjá árshátíðargesti sem hreinlega trylltust úti á dansgólfinu. Þessari fimm klukkutíma árshátíð var svo allt í einu lokið og allir fóru glaðir heim.

Sjá fleiri myndir hér.


Hfj_haus_01