Minni karla gott á Rótarýfundi
Hornið gekk og hressilega var etið og sungið
Það hefði þótt í frásögur færandi hér á árum áður ef Minni karla hefði heyrst á þorrablóti Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar. En Minni karla hljómaði hátt og skýrt hjá þeim konum sem mættar voru á þorrablótið í dag. Karlarnir heiðruðu konurnar að sjálfsögðu með Minni kvenna sem sungið var næstum með kvennaröddum – sennilega óvart.
Annars var þorrablót klúbbsins hefðbundið. Bragðgóður þorramaturinn, sviðakjammar, súrir hrútspungar, slátur, hákarl, rengi, rúgbrauð og fleira góðgæti rann hratt og vel í maga fundargesta sem reyndu að mýkja upp fituna með eðal brennivíni úr silfurslegnu horninu sem eiginkonurnar í InnerWheel klúbbi Hafnarfjarðar gáfu. Hornið er þeim eiginleikum gætt að ekki á að vera hægt að leggja það frá sér fyrr en úr því hefur verið að fullu drukkið. Þannig hafa klúbbfélagar um áraraðir trúað því að með því fylgdi leyfi eiginkvennanna til drykkju þennan dag.
Þó brá svo við í dag að menn fóru að efast um það hvort það hafi verið rétt skref að taka konur í klúbbinn því ein kvennanna hafði með sinni kvenlægu útsjónarsemi áttað sig á því að hægt var að leggja hornið frá sér með því að stinga því í vatnsflösku, sem einhverjir hafa af undarlegum hvötum drukkið úr. Að vísu hafði engum áður dottið í hug að leita leiða til að leggja frá sér hornið – ánægðir með gjöf kvennanna. Eflaust mun skemmtinefnd komandi ára fjarlægja allar vatnsflöskur af borðum svo þetta komi ekki fyrir aftur.
Sigurður Einarsson flutti þriggja mínútna erindi dagsins. Var kjarnyrtur og spakmæltur og sagði menn geta valið sjálfir hvernig þeim liði. Var gerður góður rómur að flutningnum og innihaldinu.
Söngstjórar klúbbsins stýrðu söng undir góðri stjórn Sigurðar Björgvinssonar sem á gítar lék og var vel tekið undir að venju.
Sigurður var líka aðalræðumaður dagsins og fjallaði um þorrann og uppruna hans Vitnaði hann í þjóðsögur og Árna Magnússon sem sjálfur vissi ekki hversu gömul þorrablót voru. Þorrablót eins og við þekkjum þau eru þó ekki einu sinni aldargömul og sagt er að stúkureglur í Hafnarfirði hafi fyrstar boðið upp á þorrablót hér í bæ. Bætti Sigurður við að „líklega“ hafi þar ekki verið boðið upp á áfengi. -gg